22.09.1944
Efri deild: 48. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 951 í D-deild Alþingistíðinda. (6356)

111. mál, erlendar innistæður

Fyrirspyrjandi (Jónas Jónsson):

Þessi fyrirspurn er orðin dálítið gömul vegna annríkis d., en efni hennar er svo mikill undirstöðumatur, að ekki mun saka.

Einn hv. þm. og flokksformaður hefur í útvarpsræðu frá þinginu, birtri í Þjóðviljanum 13. sept., talað um 500 eða 580 millj. kr., sem ríkisstj. eða Alþ. ætti yfir að ráða og nota mætti til svo margra hluta, að ég fer ekki að telja það allt, t. a. m. til að byggja hafnir, verksmiðjur, skip, brýr og umbylta jörðinni á mjög stórkostlegan hátt.

Ég hef alllanga hríð átt sæti í fjvn., og mér finnst það vanræksla hjá hæstv. fjmrh., ef honum hefur láðst að skýra n. frá því, að ríkið eigi þessa fjárhæð til ráðstöfunar, ef hann skyldi hafa leynt þessu, hulið það, dregið það undan án þess að láta þessa vesalings n. neitt af þessu vita, en sífellt er gengið í skrokk á henni, og hún hefur ekki úr miklu að moða. En ef hitt yrði reyndin, að þessi hv. flokksformaður hefði farið með staðleysur einar um þetta fé, finnst mér það svo ósæmilegt, að ekki megi kyrrt liggja. Úr því að þessum hundruðum milljóna átti að mega ráðstafa á pólitískan hátt, hljóta þær að vera taldar eignir landsins, ellegar þetta eru aðeins skýjaborgir. Ég hygg, að fyrir honum hafi vakað, að Alþ. hefði vald yfir öllu þessu fé, ekki að láni, því að ekkert samþykki er fengið fyrir því, heldur rétt til að taka það og ráðstafa eftir vild.

En hefði þetta nú verið misgáningur hjá hv. þm. þessum, er heppilegt, að það komi fram frá fjmrh., hvernig málinu er varið. Það er ákaflega vel fallið til að glöggva menn á eðli þess og sýna þeim fram á, hvort vera kunni, að þessi ríkiseign sé hvergi til. Ég vænti þess að heyra frá ríkisstj., hvort hún er svo mikill búmaður, að hún eigi þessar 580 millj. í laumi á kistubotninum.