22.09.1944
Efri deild: 48. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 951 í D-deild Alþingistíðinda. (6357)

111. mál, erlendar innistæður

Fjmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. — Fyrirspurn sú, sem hv. þm. S-Þ. hefur sett hér fram: „Hvenær og með hverjum hætti hafa ríkissjóði áskotnazt 580 millj. kr., ... án þess að þessarar fjárhæðar sé getið í skjölum Alþingis,“ — virtist mér í fyrstu nokkur gáta. Það hvarflaði að mér, hvort ég hefði framið stórkostleg embættisafglöp að leyna eða tapa þessari upphæð í völundarhúsi ríkissjóðsins. En þó að þar sé leitað eftir henni með logandi ljósi, er hún ekki til staðar. Þess vegna er ekki um það að ræða, að þessu fé verði ráðstafað á þann hátt, sem spurt er eftir í síðari hluta fyrirspurnarinnar. En samkv. tilvitnun hv. þm. til útvarpsræðu fulltrúa Sósfl. svipar upphæðinni mjög til þess fjármagns, sem ríkið eða landsmenn eiga í erlendum innstæðum. Það fé er þó nokkuð ólíks eðlis. Það er ekki eign bankanna né ríkisins, heldur eign sjómanna, verkamanna, útgerðarmanna, bænda og fjölmargra fleiri landsmanna, og þessum eignum verður ekki ráðstafað án samþykkis eigenda, nema ríkisvaldið ætli að taka þær traustataki til að ráðstafa þeim á líkan hátt og gert virðist ráð fyrir í fyrirspurninni.