22.09.1944
Efri deild: 48. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 952 í D-deild Alþingistíðinda. (6358)

111. mál, erlendar innistæður

Fyrirspyrjandi (Jónas Jónsson):

Það fer líkt fyrir mér og fyrir Alþ. fyrrum, þegar hundrað þúsundirnar útreiknuðu fundust hvergi, eins og getið er um í grg. Mér eru það vonbrigði, en gat þó við þessu búizt, að allt væri staðleysa, sem umræddur þm. hélt fram um þessa glæsilegu fjárhæð ríkisins. Það á ekki einn eyri af henni. Það kemur fram, að ríkið og Reykjavíkurbær eru hér um bil þau einu í landinu, sem hafa ekki getað borgað niður skuldir sínar undanfarin ár.

En þá get ég ekki komizt hjá að lýsa yfir hryggð minni út af því, að ríkið skuli ekki hafa þessa peninga handbæra. Sérstaklega er það, þegar ég hugsa til hv. þm. Barð. (GJ), hve nauðsynlegt hefði verið að geta lagt ríkisfé í fyrirtæki eins og bryggjuna í Flatey, sem þm. ætlaði að byggja fyrir síðustu kosningar, en ekkert hefur orðið úr síðan, eins og raunar fleiri hlutum, sem menn hafa hætt við. Ég efast ekki um, að hann byrji á henni aftur fyrir næstu kosningar, en mér hefði þótt vænt um, ef hægt hefði verið að leggja fram eitthvað af þessari upphæð til þess, að verkið þyrfti ekki að stanza milli kosninga. Ég vonast til, að hann taki þetta ekki illa upp, þegar hann sér, að það kemur af góðum vilja.

Hæstv. fjmrh. veik að því, að sparifjárinnstæður landsmanna erlendis mundu vera eign h. u. b. 100 þús. manna og ríkið fengi þær ekki til ráðstöfunar nema með eignarnámi. En sumir menn hafa fengið um þetta allt aðrar hugmyndir. Á s. l. vetri mun sjálfvalin margmenn n. hafa rætt málið. Undir vetrarlokin sýndi maður mér blöð með ráðagerðum n., þar sem ráðgert var að fella krónuna um 25% og láta ríkisvaldið taka 25% erlendra innstæðna, — það mundi þá hafa gert um 100 millj. kr. — Féð skyldi nota á líkan hátt og útvarpsræðumaðurinn ráðgerði. Ég tel, að Alþ. ætti ekki að láta óátalinn slíkan kjafthátt í útvarpsumr. Til þess að þessir peningar, sem eðlilega hafa safnazt fyrir, meðan ekki var hægt að framkvæma neitt verulegt fyrir þá, komi þjóðarbúinu að notum, þarf traustið á gengi krónunnar að haldast og sá blær að vera á aðgerðum þings og ríkisstj., að menn óttist ekki rýrnun og glötun þessara söfnuðu verðmæta, hvað sem á dynur. Þá notar þjóðin þessar innstæður til að byggja upp landið á þann hátt, sem henni þykir bezt við horfa. En ef ófriður og ránskapur er rekinn, verður reynt að flytja peningana úr landi, því að það er alltaf hægt, þótt stj. reyni að sporna við því, eða menn eyða þessum peningum í ekkert, þegar þeir eru farnir að hugsa sem svo: Mér auðnast aldrei að rækta fyrir þetta fé, aldrei að byggja fyrir þessar þúsundir, og þá læt ég þær fjúka. Hræðslan við, að féð verði að engu, eyðileggur allt.

Mér þykir illt, að svo sé, að við skulum ekki hafa þetta fé til að byggja landið.