22.09.1944
Efri deild: 48. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 953 í D-deild Alþingistíðinda. (6359)

111. mál, erlendar innistæður

Gísli Jónsson:

Herra forseti. — Skeytið, sem hv. þm. S-Þ. beindi til mín, stafar af því, að ég leyfði mér þá dul að greiða atkv. móti því, að þessi marklausa fyrirspurn yrði leyfð. Hann var að tala um kjafthátt, sem Alþ. mætti ekki láta óátalinn. Ég tel Alþ. sitja hér til alls annars en þvæla um annan eins kjafthátt og fyrirspurn þessa hv. þm. er. Hann talar um misnotkun útvarps og hefur þó sjálfur einn allra þm. gengið á það lagið að misnota útvarp þannig að semja langar grg. og nál. til lestrar í útvarpi og einskis annars, einkum eftir að ekki þótti lengur fært, að hann setti slíkt og þvílíkt efni í flokksblað sitt. Til dæmis má benda á þskj. 700 á Alþ. 1943, þar sem hann skrifar nál., sem fyllir þéttletraðar 17 síður í þingtíðindum og er að miklu leyti skammir, rangfærslur og rógur um einstaka menn, án þess að neitt af því snerti frv., sem um var rætt, og þm. gleymir alveg af einskærum áhuga á þessari iðju að taka fram í nál., hvort hann leggi til, að frv. verði samþ. eða fellt. Þess er skemmst að minnast, að hann óð með dæmalausum hroka upp á sér yngri þm. til að kenna honum, hvaða skoðun hann mætti halda fram hér á Alþ. Þannig mætti áfram telja, og ég álít, að Alþ. sæmi ekki fleipur eins og fyrirspurn þessi er.

Ummæli hv. þm. og flokksblaðsins Tímans um framkvæmdir í Barðastrandarsýslu eru með þökkum þegin, ef þau skyldu vera stórmerkilegur áttaviti eða veðurviti nálægra kosninga. Og gott er til þess að hyggja, þegar ég kann að leita til fjvn. um fé til hafnargerðar, að þá verði þar ekki andúð að mæta.

En við afgreiðslu á fjárl. þessa þings vildi ég minna á, að það er annar réttur, sem Barðstrendingar eiga fyrst og fremst til fjvn. að sækja, það eru framlög til vega í sýslunni, því að satt að segja er ástand þeirra til lítils sóma þeim, sem þar réðu fyrr á árum, og allra minnst fyrrv. þm. sýslunnar.