28.09.1944
Efri deild: 51. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 953 í D-deild Alþingistíðinda. (6362)

111. mál, erlendar innistæður

Kristinn Andrésson:

Herra forseti. — Það er nú svo langt liðið, síðan þetta mál var hér síðast til umr., að ég man tæplega öll þau atriði, sem ég ætlaði að svara, og í rauninni er þessi fyrirspurn ekki þess verð, að verið sé að ræða um hana hér í Alþ. Ég get verið sammála hv. þm. Barð. um það, að ekki sé rétt að leyfa umr. um slíka fyrirspurn. Hæstv. forseti taldi heiður hv. d. í veði, en greiddi þó atkv. á móti afbrigðum. Hins vegar má líta á það, að hv. þm. S-Þ. á nú hvergi lengur inni með blaðakost, eins og hv. þm. Barð. hefur lýst, og væri þá reyndar hart að meina honum að koma með þetta mál inn á Alþ., fyrst þingið er eini vettvangurinn, þar sem skotið er skjólshúsi yfir hann, og þess vegna greiddi ég með glöðu geði atkv. með þessu.

Þessi fyrirspurn er í fyrsta lagi reist á útúrsnúningum og rangfærslu á ræðu hv. 2. þm. Reykv. Ég hef bæði hlustað á ræðuna og lesið hana prentaða, og þar stendur hvergi, að þessar mörgu milljónir séu eign ríkissjóðs. Orðrétt segir hv. 2. þm. Reykv., með leyfi hæstv. forseta:

„Þetta fé er eign íslenzku bankanna, og þeir eru ríkiseign, en út á þessar 500 millj. skulda svo bankarnir þær sparisjóðsinneignir, sem fólkið á hjá þeim.“

En síðan vill svo enginn kannast við þessar 500 millj. kr., og kemur nú hver af öðrum og neitar, að sú stofnun, sem hann er við riðinn, eigi umráðarétt yfir þessari miklu upphæð. Hv. þm. S-Þ. t. d., sem er sjálfur í bankaráði Landsbankans og fjvn. Alþ., vill ekki við þær kannast, og í rauninni er það svo, að þetta gæti orðið fyrirsögn í leikriti: 500 milljónirnar leita að eiganda. — Annars er ekki úr vegi að reyna að komast að einhverri niðurstöðu um það, hver er hinn rétti eigandi, þó að fyrirspurnin sé raunar svo barnaleg, að hún sé tæpast svara verð. En nú hefur það gerzt, að hæstv. fjmrh. hefur talið það virðingu sinni samboðið að standa hér upp og svara fyrirspurninni í alvöru. Hæstv. ráðh. segir orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Það, sem þessari upphæð svarar, svarar mjög til þeirrar upphæðar, sem ríkið, réttar sagt landsmenn, eiga inni í erlendum innstæðum. En það má taka fram, að þetta eru ekki eignir bankanna, heldur eignir sjómanna, verkamanna, útgerðarmanna, bænda og margra annarra. Þessum eignum verður ekki ráðstafað án samþykkis eigendanna, nema ríkisvaldið ætli sér að taka þær traustataki og ráðstafa þeim á þann hátt, sem gert virðist ráð fyrir í fyrirspurninni.“

Hæstv. fjmrh. neitar því sem sagt, að þetta fé sé eign bankanna. Mér þótti því rétt að athuga, hvað bankarnir segja sjálfir um þetta, og tók því með mér nýjustu Hagtíðindin. Þar stendur meðal annars í efnahagsyfirliti seðlabankans í júlílok 1944: „Inneign hjá erlendum bönkum 202.123.000 kr.“, — og í öðrum eignalið: „Erlend verðbréf 287.896.000 kr.“ — En á móti þessu stendur fé sparisjóðseigenda í skuldalið. Þetta vita allir menn, og það er einmitt það, sem hv. 2. þm. Reykv. sagði í ræðu sinni. Þess vegna fer hæstv. fjmrh. með beinar rangfærslur, er hann segir, að þessar 500 millj. kr. séu ekki eign bankanna. Þessar eignir eru hér færðar inn á eignalið Landsbankans. Þetta þarf ekki skýringar við. Það er ljóst, að bankinn hefur fullan umráðarétt þessa fjár. Hvað mundi stoða fyrir einstaka sjómenn, verkamenn eða aðra einstaklinga, sem fé eiga inni í Landsbankanum, að ganga til erlendra banka, benda á þessar inneignir sínar í Landsbankanum og krefjast þess að fá þær greiddar? Hins vegar má vera, að hæstv. fjmrh. viti um einhverjar inneignir erlendis, sem eru raunveruleg eign einstaklinga, þar sem hann segir, að þar séu til innstæður, sem ekki séu eignir bankanna, heldur sjómanna, verkamanna o. s. frv., og vil ég gjarnan biðja hann að skýra það nánar.

Þetta er um það atriði, hver eigi þessar innstæður. En hvernig er með umráðaréttinn yfir þessu mikla fé? Hæstv. fjmrh. segir, að þessum eignum verði ekki ráðstafað, nema ríkisvaldið ætli sér að taka þær traustataki. Það er einkennilegt, að því er líkast sem þessir menn viti hvorki um gjaldeyrisl. né viðskiptaráð, og er hæstv. ráðh. þó húsbóndi viðskiptaráðs. Vitanlega er umráðarétturinn, ef ekki í bönkunum einum, þá sameiginlega í bönkunum og viðskiptaráði. Fyrirspyrjandinn er sjálfur í bankaráði Landsbankans, og hann telur, að ekkert megi gera við þetta fé nema með leyfi þeirra, sem það eiga. Þessi hv. þm. er vinsamlegur Rauðku á Siglufirði. Við skulum segja, að það komi beiðni frá Rauðku um bankalán, segjum 1 eða 2 millj. Mundi hann þá sem bankaráðsmaður spyrja sparisjóðseigendurna, hvort hann megi lána þessa upphæð eða ekki? Ég held ekki. Umráðarétturinn er hjá bönkunum og viðskiptaráði sameiginlega. Sparifjáreigendur leggja upphæðirnar inn til að ávaxta þær, en Alþ. og bankastj. eiga að sjá um, að fénu sé varið til hagsmuna fyrir þjóðina í heild. Um þetta er engum blöðum að fletta. Hitt er annað mál, að sjálfsagt er, að trygging sé fyrir því, að þessar sparisjóðsinneignir séu einhvers virði og eignir bankanna erlendis í fullu gildi.

Það, sem felst í fyrirspurninni, er alger gjaldþrotayfirlýsing gagnvart þessari inneign erlendis. Hv. þm. S-Þ. á sæti í fjvn. og sér þarna 500 millj. kr., sem hann nær ekki til. Það hefur verið reynt með ýmsum aðferðum að ná til þessa fjár, t. d. með tollum og sköttum. Ríkisstj. kvartar um, að fé vanti til ýmissa hluta, en þarna eru margar milljónir, sem hún gefst upp við að ná til. Og svo vilja þessir aðilar loka augunum fyrir því, að nokkuð sé hægt að gera. (BBen: Er það víst, að ekki sé hægt að ná til þess fjár?) Það er eins og þeir hafi gefizt upp við það. Nú er það öllum ljóst, að eitt af mestu vandamálum og viðfangsefnum þingsins og stj. er að athuga möguleika á því, að þetta fé, sem þjóðin hefur aflað sér, geti komið að sem beztum notum fyrir þjóðfélagið í heild. Ýmsir eru þeirrar skoðunar, að þetta fé eigi aðeins að nota til að kaupa atvinnutæki til að efla atvinnulíf landsmanna. Það er áreiðanlegt, að meiri hl. þm. og þjóðin sjálf eru þeirrar skoðunar, að þessu fé beri að verja til að leggja nýjan grundvöll að atvinnulífi Íslendinga. Ég veit ekki betur en það sé eitt af þeim atriðum, sem rædd hafa verið í sambandi við stjórnarmyndunina, hvernig unnt sé að tryggja þetta sem bezt. Hvers vegna er þá þessi fáránlega fyrirspurn fram komin? Jú, hún kom fram eftir ræðu hv. 2. þm. Reykv. við síðustu útvarpsumræður, þar sem hann bendir á, hve gífurlegt fjármagn hér er um að ræða, og sýnir, hvernig umskapa mætti atvinnuvegina, þótt ekki væri varið til þess nema helming þessa fjármagns. Hún er komin fram einmitt vegna þess bergmáls, sem þessi ræða hlaut, og af því að sparifjáreigendur skilja, að þessari fjáreign mundi bezt varið með því að verja henni til atvinnuframkvæmda í landinu. En þótt hv. þm. S-Þ. viti betur en svo, að bankarnir hafi ekki ráðstöfunarrétt þessa fjár, heldur hann, að hann geti varpað ryki í augu almennings í þessu efni. Það er hart að þurfa að vera að ræða þetta atriði hér, svo einfalt og augljóst sem það er.

Hv. þm. S-Þ. byrjar grg. sína með því að segja frá aðstoðarmanni fjvn. á Alþ., sem reiknaði tekjulið fjárl. 100 þús kr. hærri en búizt hafði verið við, og hæðir þennan mann mjög. En sjálfur kemst hann að þeirri niðurstöðu, að eina leiðin til, að ríkissjóður geti eignazt þetta fjármagn, sé sú að gerfella íslenzku krónuna, svo að hún verði einskis virði. Reikningslist hv. þm. sjálfs er þá sú, að hann kemst að þeirri niðurstöðu, að þessar 500 millj. séu ekki annað en smámunir einir.

En þetta er aðeins gamansama hliðin á málinu og sú eina, sem kemur til greina í sambandi við þessa fyrirspurn. Hins vegar er það alvöruhlið málsins, að þjóðin hefur nú yfir miklu fjármagni að ráða og að nú er séð fyrir lok þessarar styrjaldar. Með öllum öðrum þjóðum er farið að gera ráðstafanir til að tryggja atvinnulíf þjóðanna. Hvert alþjóðaþingið er haldið af öðru og ýmsir nefndarfundir, sem gera till. um bætta atvinnuhætti eftir stríð og hvernig skipta skuli mörkuðum o. s. frv. Og það er ekki vafi á því, að einmitt nú er okkar tími einnig til þess að gera ráðstafanir um það, hvernig við getum bezt tryggt okkur markaði fyrir framleiðsluvörur okkar erlendis og jafnframt það, hvernig við getum sem mest aukið atvinnulífið í landinu og tryggt grundvöll þess og hvernig við getum tryggt það, að atvinna verði fyrir alla Íslendinga á næstu árum. — Í afgreiðslu sjálfstæðismálsins varð niðurstaðan sú, að það varð einhuga samkomulag allra þingflokka um það mál, og einhugur þjóðarinnar var þar alger. Aldrei hefur verið á Íslandi staðið eins glæsilega saman og við afgreiðslu þess máls. Og einmitt afgreiðsla þess gaf þjóðinni miklar vonir um, að sá einhugur, sem lýsti sér hér á Alþ. í því máli, gæti líka komið fram varðandi framtíðaröryggi hins nýstofnaða lýðveldis. Og kjarni þessara mála er vitanlega trygging atvinnulífsins í landinu og trygging markaða erlendis fyrir markaðsvörur okkar. Og þar sem svo stendur á, að íslenzka þjóðin á margfalt meira fjármagn en hún hefur nokkru sinni áður átt, þá ber Alþ. vitanlega fyrst og fremst skylda til þess að tryggja það, að þetta mikla fjármagn fari ekki til einskis, heldur verði því ráðstafað þjóðinni til heilla.

Ég hafði nú haldið og vonað það og bjóst við því, að það yrði framkvæmt um eða fyrir 17. júní s. l. að gera þessar tryggingar, þannig að við gætum tekið út úr einhver þau aðalmál og mest aðkallandi, sem við allir hér á Alþ. gætum komið okkur saman um, að þjóðinni væri allri til heilla, og að flokkadrættir þyrftu ekki að snerta þau mál og að við gætum sameinazt um að tryggja framgang þeirra. Og ég er fjarri því að vera vonlaus um það enn þá, að þetta geti tekizt. En þá er einmitt þetta eitt aðalatriðið, það, að þessu fjármagni, sem hér er verið að leita að eigendum að, sé varið til þess skynsamlega að leggja nýjan grundvöll að atvinnulífi Íslendinga. Og hv. 2. þm. Reykv. hefur sýnt, að vísu í stórum dráttum, hvílík ósköp mætti gera hér á landi, þótt aðeins væri varið helmingnum af þessum innstæðum erlendis til þess að kaupa fyrir atvinnutæki og önnur efni, sem þarf til þess að leggja hér nýjan grundvöll að atvinnulífi. Hann hefur sýnt fram á, að það má tvöfalda og jafnvel margfalda afköst atvinnuveganna með aðeins helmingi þessarar fjárhæðar, sem hér er um að ræða. Hann hefur komizt að þeirri niðurstöðu, þar sem hann ritar um þetta í Þjóðviljann, að fyrir þessar millj. megi margfalda getu okkar á flestum framleiðslusviðum, og þar er upptalning á öllu því mikla, sem kaupa má fyrir þessa fjárupphæð. Ég veit, að allir hv. þm. hafa lesið það, og því er óþarfi að telja það upp hér. En hvers vegna í ósköpunum getum við þá ekki orðið sammála um það atriði að mynda hér framkvæmdastjórn og tryggja góðan framgang þessara mála? — Þetta er alvöruhlið málsins.

Hins vegar virðist hv. þm. S-Þ. leggja alla áherzlu á það með einhverjum ráðum að geta komið í veg fyrir, að nokkuð gagnlegt sé gert fyrir þessa fjárupphæð. Og þegar hann heyrir það eftir ræðu hv. 2. þm. Reykv. í útvarpið á dögunum, að það sé stemning fyrir því í landinu og krafa þjóðarinnar, að þessu fé sé ráðstafað á líkan hátt og hv. 2. þm. Reykv. nefndi, þá kemur hann með þessa fyrirspurn til þess, ef hægt væri, að kasta ryki í augun á landsmönnum til þess að koma þeim til að halda, að engin leið sé fyrir ríkið að hafa með að gera ráðstöfun á þessu fé. Og það eru fleiri en þessi hv. þm., sem þetta reyna. Ef aðeins hv. þm. S-Þ. reyndi þetta, þá væri e. t. v. ekki tekið mikið mark á því. En hæstv. fjmrh. þóttist hafa leitað með logandi ljósi að þessum peningum og hvort hann hefði ekki reiknað allt skakkt við undirbúning og afgreiðslu fjárlfrv. og leitað í ríkissjóði og hvergi fundið þetta fé. Hann segir, að þetta fé sé ekki eign bankanna, heldur einstaklinga. Þarna virðast vera samtök um það með öllum mögulegum ráðum að reyna að sanna, að Alþ. og ríkisstj. geti engan umráðarétt haft yfir þessu fé, við þetta fé sé ekkert hægt að gera af hendi hins opinbera. Hins vegar er það trú mín, að Alþ., áður en langt um líður, takist að leysa þetta mál á þann hátt einmitt, að þessar fjáreignir erlendis verði ekki látnar fara svo sem hv. þm. S-Þ. segir, að sé eina leiðin, að gera þær að engu, — bíða eftir því, að þær verði að engu. En ég held, að það verði ekki með nokkurri ráðdeild beðið eftir því, að þessu fjármagni verði ráðstafað til gagns fyrir þjóðina.