28.09.1944
Efri deild: 51. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 967 í D-deild Alþingistíðinda. (6368)

111. mál, erlendar innistæður

Kristinn Andrésson:

Herra forseti. — Ég vil aðeins neita því, að nokkur hafi hrakið það, sem Einar Olgeirsson sagði í útvarpsræðu sinni um eignarréttinn á þessu fé. Hann sagði, að þetta fé væri eign bankanna, en bankinn er eign ríkisins, og má því segja, að Alþ. hafi umráð yfir eignum bankans eins og öðrum eignum ríkisins og geti sett reglur um meðferð þeirra. Það ætti að vera hægt, eins og þegar Alþ. setti reglur um meðferð erlends gjaldeyris og vöruinnflutning.

Varðandi það, sem hv. þm. S-Þ. var að tala um ófrið í sambandi við viðgerð Ölfusárbrúar, þá verð ég að segja það, að ég get ekki séð, að það standi í neinu sambandi við þetta mál. Ég veit ekki heldur neinar sönnur á þessari ófriðarsögu.