10.10.1944
Efri deild: 56. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 967 í D-deild Alþingistíðinda. (6372)

144. mál, línurit yfir vegi

Fyrirspyrjandi (Gísli Jónsson):

Herra forseti. — Í desember 1943 var afgreidd í sameinuðu þingi þál., þar sem ríkisstj. var falið að láta gera línurit yfir vegi landsins í hverri sýslu. Nál., sem samið var þá af allshn., gerði nokkru ýtarlegri skil á þessu máli en fyrst var hugsað í upphafi og tók meira fram um það, hvernig upplýsingarnar skyldu vera. Og það eitt út af fyrir sig sýnir, að n. hefur talið brýna nauðsyn bera til þess, að þessar upplýsingar lægju fyrir. N. varð þá og sammála um það, að þessar upplýsingar væru lagðar fyrir Alþ. það, er nú situr, ekki síðar en 15. febr. s. l. Að þessi dagur var ákveðinn í þessu sambandi, var m. a. vegna þess, að það þótti nauðsyn, að þessar upplýsingar lægju fyrir, áður en fjallað væri um fjárl. fyrir árið 1945, svo að hv. fjvn. gæti haft mikinn og mikilsverðan stuðning af þessum upplýsingum, þegar ákveðið væri, hvernig skipta skyldi fé til vegagerða á landinu.

Nú er mér ekki kunnugt um, að þetta hafi verið lagt fyrir hæstv. Alþ., og vildi því gjarnan spyrja hæstv. samgmrh., hvort búið sé að ljúka þessu verki og hvort þess sé að vænta, að þetta línurit verði afhent alþm. nú innan skamms tíma, eða hvort það sé í undirbúningi eða jafnvel ekki byrjað á því, og ef svo er, hvenær þess má vænta, að þessu verði lokið, svo að alþm. geti átt þess kost að kynna sér þessi mál og vita, á hvaða stigi þau eru í landinu.