08.12.1944
Sameinað þing: 73. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 576 í B-deild Alþingistíðinda. (638)

143. mál, fjárlög 1945

Þorsteinn Þorsteinsson:

Hv. form. fjvn., þm. Borgf., lýsti því svo rækilega, hvað fyrir okkur vakti með fyrirvara þeim, sem við stóðum saman að í nál. fjvn., að ég þarf ekki við það að bæta. Það er ærin fyrirhygg ja að treysta, að tekjur ríkissjóðs verði á næsta ári eins og þær eru núna, því að margt getur að borið, að þær bregðist. En hins vegar mun varla að vænta þess, að áætluð gjöld breytist, enda mun það vera alveg nýtt fyrirbrigði.

Það var sérstaklega út af einni gr. frv., sem ég vildi segja nokkur orð. Venjulega hef ég haft nokkur umsvif út af þeirri grein í fjvn. og leitað þar álits nokkurra þm. um, hvað þeir krefðust af þeirri grein. Nú hefur í þetta skipti brugðið þannig við, að í stað tugs brtt. hafa aðeins komið fram 3 brtt. við grein þessa, og vildi ég aðeins minnast á þær nokkrum orðum. — Í fyrsta lagi flytur hv. þm. Snæf. brtt., sem er 45. brtt. á þskj. 612, en allar eru þessar brtt. á því þskj. Hann gat þess, að þeim Staðarfellshjónum hefði verið með samningi lofað 3 þús. kr. á ári, er þau gáfu Staðarfellsskólann. Þetta stóð lengi þannig og var undir sérstökum staflið í 18. gr., en seinast var gerð athugasemd um, að ekki skyldi greiða dýrtíðaruppbót af þeim lið og öðru, sem var þar, en er nú horfið. Nú þótti þm. heppilegra að láta dýrtíðaruppbót falla á alla gr., en til þess að breyta ekki fjárhæðinni, sem þar var, varð að lækka þessa upphæð á sjálfri gr., og var hún færð niður í 2400 kr. Af einhverri orsök hefur Magnús verið mjög óánægður yfir þessu, að láta ekki standa 3 þús. kr. En aftur með þeirri brtt., sem hv. þm. Snæf. hefur gert, á að hátta því þannig, að það sé eftir sem áður borguð dýrtíðaruppbót, þó að það sé fært upp í 3 þús. kr., og verður þá að bæta 600 kr. við liðinn með öllum uppbótum. Ég hef bent hv. þm. á þetta og geri ráð fyrir, að hann muni taka þessa till. sína aftur til 3. umr. Aftur á móti virðist ekkert vera á móti því að færa það í upphaflega horfið eftir ósk gamla mannsins, þannig að það verði sérstafliður á gr. og hinn stafliðurinn hverfi þá. Ég býst við, að samkomulag verði um þetta, og vil ekki tefja. tímann með að tala frekar um það.

2. brtt. er frá hv. 2. þm. Arn. og hv. þm. V.- Húnv. Er það brtt. til hækkunar, sem ég geri ráð fyrir, að einnig muni verða tekin aftur til 3. umr., og skal ég því ekkert um það tala frekar. Er það hækkun á styrk til landlæknisekkjufrúarinnar, Margrétar Magnúsdóttur Stephensen.

Svo er 3. till. hér, sem ekki er mikil á lofti, en kemur mér dálítið kynlega fyrir. Hún er frá hv. sessunaut mínum, þm. Barð. Það er hækkun á einni símakonu eða póstafgreiðslukonu eða hvoru tveggja. Nú er það svo, að skv. 18. gr. er allt póst- og símafólk fært undir einn lið og póst- og símamálastjórnin leggur fram till. um greiðslur til þess fólks, og venjan hefur a.m.k. verið sú, að breytt hefur verið samkv. því. Þetta hefur þótt vel gefast, og auðvitað þekkir t.d. póst- og símamálastjórn miklu betur verðleika þessa fólks og hefur í höndunum, hve langan tíma það hefur unnið, og er miklu dómbærari en Alþ. út af fyrir sig, á þessi mál.

Ég segi fyrir mig, að ég legg fullkomlega á móti, að þessi till. verði samþ., því að ég tel opna leið fyrir hv. þm., ef krafa hans er sanngjörn, sem ég hef ekki ástæðu til að halda sérstaklega annað um, að fá leiðréttingu mála sinna hjá póst- og símamálastjórn, en láta það ekki koma hér undir úrskurð Alþ. Fleira hef ég ekki að segja að svo stöddu í þessu máli.