06.12.1944
Sameinað þing: 71. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 833 í D-deild Alþingistíðinda. (6384)

184. mál, hlutleysi ríkisútvarpsins

Jakob Möller:

Hv. 2. þm. S.-M. talaði um bréf frá útvarpsstjóra, þar sem hann ber sig upp undan því, sem þessi hv. þm. hefur mælt í hans garð í sambandi við þetta mál. Ég sé ekki ástæðu til annars en það komi fram, sem útvarpsstjóri fer fram á, að hér sé gert kunnugt, öðruvísi en að geta lauslega einstakra atriða, og ætla ég því að lesa upp bréf útvarpsstjóra, en það er dagsett 4. des.:

„Fimmtudaginn 30. nóv. var til umræðu í sameinuðu Alþingi þingsályktunartillaga á þingskjali 491, varðandi hlutleysi útvarpsins.

Flutningsmaður tillögunnar, Eysteinn Jónsson, 2. þingmaður Sunnmýlinga, lét svo um mælt, að í almennum fréttum útvarpsins varðandi stjórnarmyndunina hefði ekki verið getið yfirlýsingar hans á Alþingi 21. október og eigi heldur yfirlýsingar þeirra fimm manna í Sjálfstæðisflokknum, sem ekki stóðu að stjórnarmynduninni.

Pétur Ottesen, þingmaður Borgfirðinga, kvað enn fastar að orði og hélt því fram, að yfirlýsingar fyrrnefndra fimm manna í Sjálfstæðisflokknum hefði aldrei verið getið í almennum fréttum útvarpsins, og ef hennar hefði ekki verið getið í þingfréttum, hefði útvarpshlustendum verið ókunnugt um hana „enn í dag“.

Þar sem hér er um algert og lítt skiljanlegt mishermi að ræða, leyfi ég mér að senda hinu háa Alþingi staðfest eftirrit af almennum fréttum Ríkisútvarpsins 21. okt. varðandi þetta mál.

Eins og fréttirnar bera með sér, var yfirlýsing fyrrnefndra fimm manna úr Sjálfstæðisflokknum birt orðrétt þegar að loknum fundi í sameinuðu þingi kl. 15,45 og síðan báðar endurteknar í kvöldfréttum, kl. 20,00 og kl. 22,00.

Umræddar yfirlýsingar, sem fyrrnefndir háttvirtir þingmenn sögðu, að aldrei hefðu birzt í almennum fréttum Ríkisútvarpsins, voru, samkvæmt þessu, birtar þrisvar sinnum þann 21. okt. síðastliðinn.

Þetta taldi ég, að gefnu tilefni, nauðsynlegt að birta fyrir hinu háa Alþingi.

Virðingarfyllst

Jónas Þorbergsson.“

Með þessu bréfi fylgir svo staðfest skýrsla um það, sem birt var þennan dag, og staðfestir hún það, sem í bréfinu segir, enda öllum kunnugt, að rétt er hermt frá.

Hv. 2. þm. S.-M. kvartar yfir því, að ræða hæstv. forsrh., þ. e. stefnuskrárræða ríkisstj., hafi verið flutt orðrétt í útvarpinu, þ. e. a. s. af plötu, en hvað snertir sína ræðu, hafi ekki verið eins vandlega að verki gengið eða aðeins eitt atriði úr henni tekið fram. Um þetta er því til að svara, að útvarpsstjóri reyndi að ná í þennan hv. þm. þann 21. okt. s. l. í því skyni að fá þessa ræðu hjá honum, en hann var hins vegar farinn úr bænum, svo að ókleift reyndist fyrir útvarpsstjóra að fullnægja kröfu hv. 2. þm. S.-M. um að gera honum jafn hátt undir höfði og hæstv. forsrh. Útvarpið á því ekki sök á þessu, og er áreiðanlegt, að það hefur á engan hátt viljað beita þennan hv. þm. misrétti í þessu sambandi. Ég vil minna á í sambandi við þetta, að það er orðin algeng venja, að ráðherrar tali í útvarp, og ég veit, að hv. 2. þm. S.-M. talaði oft í útvarp í sinni ráðherratíð, án þess að nokkrum kæmi til hugar að fetta fingur út í slíkt; hins vegar var þessi hv. þm. ófeiminn við að nota sér aðstöðu sína og flytja ræður í útvarpið, sem vissulega voru ekki ævinlega hlutlausar. — Það atriðið, að Ríkisútvarpið skyldi taka sér fyrir hendur að birta stefnuskrárræðu nýrrar stj., er hins vegar ekki þóknun við hæstv. forsrh., heldur við útvarpshlustendur. Það er beinlínis skylda útvarpsins að flytja allri þjóðinni slíkar ræður, þegar þær eru fluttar, og fer fjarri því, að útvarpið sé ámælisvert fyrir það. Og er ég viss um, að útvarpshlustendur úti um land kunna því þakkir fyrir. Þessar ástæður liggja fyrir þál. þeirri, sem hér liggur fyrir, og fer því mjög fjarri, að hún hafi við nokkur rök að styðjast, og þannig er yfirleitt um þau rök, sem hv. 2. þm. S.-M. færir fram í grg. fyrir þessari till.

Ég vil svo aðeins víkja að því atriði, er þessir fimm hv. þm. Sjálfstfl. töldu sig hafa rétt til þess að koma tilkynningu um sína afstöðu í útvarpið. Ég tel það afar vafasamt, hvaða rétt þeir hafa haft til þessa, þar sem sagt er frá því í útvarpinu, að ný ríkisstj. hafi verið mynduð með samvinnu Sjálfstfl. og annarra stjórnmálaflokka, og var þannig rétt frá skýrt. Ef ætti hins vegar að gefa öllum þeim mönnum, sem væru á annarri skoðun, kost á að tilkynna, að þeir væru ekki stuðningsmenn hinnar nýju ríkisstj., liggur alveg í augum uppi, að slíkt gæti orðið nokkuð umfangsmikið verk. Ég sé, að hv. 2. þm. Skagf. skemmtir sér yfir orðum mínum, þar sem líklegt er, að hann líti nokkuð öðrum augum á málið; hann heldur sem sé, að það skipti öðru máli með þm. heldur en aðra. Þessir fimm hv. þm. eru ekkert rétthærri heldur en hverjir aðrir flokksmenn, og það er ekki þingfl., sem ákveður, hvort taka skuli upp stjórnarsamvinnu við aðra flokka eða ekki, heldur er sérstök skipan á því innan stjórnmálaflokksins. Það var samþ. af réttu flokksvaldi með yfir 90% greiddra atkv. að ganga inn í þessa stjórnarsamvinnu, og þá sér hver maður, að það er nákvæmlega rétt frá skýrt hjá Ríkisútvarpinu, að Sjálfstfl. hafi gengið í þessa stjórnarsamvinnu. Það virðist því nægur tími fyrir þessa fimm hv. þm. að koma að yfirlýsingu sinni um afstöðu þeirra til ríkisstj., þegar lýst hefur verið á réttan hátt stjórnarmynduninni og stefnuskrá ríkisstj., þannig að þeir hafa ekki undan neinu að kvarta. Í þessu sambandi vil ég beina því til forseta, að hann lýsti því yfir úr forsetastóli við síðustu útvarpsumr., að fulltr. Sjálfstfl. töluðu af hálfu stuðningsmanna ríkisstj. í Sjálfstfl. Hæstv. ríkisstj. er studd af Sjálfstfl., og þess vegna er það dálítið kátbroslegt, þegar forseti lýsir því yfir, að hæstv. forsrh. eða hv. 6. þm. Reykv. tali af hálfu stuðningsmanna ríkisstj. í Sjálfstfl.; hæstv. ríkisstj. er vissulega studd af Sjálfstfl.

Hvað viðvíkur öðrum rökum, sem flutt hafa verið fyrir þessari till., þegar gefið er í skyn, að fréttaflutningur Ríkisútvarpsins hafi farið í bága við settar reglur þess, þá er augljóst, að ummæli í grg. standast ekki, en þar er tekið upp eftirfarandi úr reglum um flutning innlendra frétta Ríkisútvarpsins:

„Fréttir þær, sem Ríkisútvarpið flytur af eigin hvötum og á eigin ábyrgð, mega ekki vera mengaðar neins konar ádeilum eða hlutsömum umsögnum um einstakar stjórnmálastefnur, stjórnmálaflokka, stefnur í almennum málum, félagsheildir, atvinnustofnanir eða einstaka menn.“

Þetta hefur á engan hátt verið brotið af Ríkisútvarpinu, þótt það hafi flutt fundarályktanir, því að eins og hv. 2. þm. S.-M. er vel kunnugt um, hefur Ríkisútvarpið ávallt verið reiðubúið til að flytja fundarályktanir fyrir hvaða stjórnmálafl. eða hvaða félagssamtök sem eru á landinu, en vitanlegt er, að um slíkar birtingar af Ríkisútvarpsins hálfu er ekki um að ræða, að Ríkisútvarpið flytji þær sem sínar fréttir, því að í langflestum tilfellum eru þær birtar eftir tilmælum þeirra, sem að þeim standa, og ber það því ekki ábyrgðina á þeim. — Hvernig sem á þetta mál er litið, er það augljóst, að Ríkisútvarpið hefur fullkomlega gætt hlutleysis síns og, eins og ýmsir hafa tekið fram, miklu betur en oft endranær. Vil ég því undirstrika það, sem áður hefur verið sagt hér við þessar umr. viðvíkjandi aðalflm. till., — að undir hans forsjá hefði miður verið gætt hlutleysis útvarpsins heldur en í sambandi við þær gerðir, sem hér um ræðir.