20.06.1944
Sameinað þing: 36. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 2056 í B-deild Alþingistíðinda. (6408)

Þingfrestun

forseti (GSv):

Verkefni þessa fundar eins og Alþingis að þessu sinni er nú lokið, og verður þingi formlega frestað með forsetabréfi, sem lesið verður hér á eftir.

Ég vil nota þetta tækifæri til þess að þakka öllum hv. þm. fyrir gott samstarf að málefnum þingsins og ekki sízt því mikla verki, sem lá fyrir þinginu nú og farsællega er á enda kljáð. Þetta verk mun lifa, þótt annað fyrnist og hvernig sem greina kann á um menn og málefni. Nú fagna allir því að hafa lagt að sér við framkvæmd þess og biðja þjóðinni giftu, sem að baki hefur staðið þinginu á hinn glæsilegasta hátt. — Ég vil enda þessi orð mín með því að óska þm. alls velfarnaðar og þeim og þeirra nánustu góðra og bjartra sumardaga, þar til hittumst heilir næst.

Og að síðustu: Ég óska þinginu í heild til hamingju með hið nýja lýðveldi.