15.02.1945
Efri deild: 128. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1891 í B-deild Alþingistíðinda. (6444)

257. mál, veltuskattur

Gísli Jónsson:

Það hafa komið hér fram tvær athyglisverðar yfirlýsingar. Önnur frá hæstv. fjmrh., þegar hann segir, að ekki sé gert ráð fyrir, að þessi skattur verði framlengdur, og hin frá hv. 3. landsk. um, að atkvæði hans um þetta frv. fari eftir því, hvort skatturinn verði miðaður við 1944 eða 1945. Mér skilst, að yfirlýsing hæstv. fjmrh. hljóti að byggjast á því, að annaðhvort búist hann við, að afkoma ríkissjóðs batni, eða þá, að honum muni takast betur að semja fjárlög, nema hvort tveggja sé. Ég ber svo mikið traust til hæstv. ráðh., að ég vona, að honum takist að finna hér færar leiðir.

En þess ber nú að gæta að fara ekki inn á þær leiðir, að taka verði upp ríkisrekstur, en það frv., sem hér liggur fyrir, mun stappa þar nærri.

Ég segi þetta ekki sem ásökun í garð núv. ríkisstj. Þetta er afleiðing þess ástands, sem skapazt hefur síðustu ár.

Í sambandi við yfirlýsingu hv. 3. landsk. vil ég minna hann á, að þegar rætt var hér um launal. fyrir skemmstu, var hann undrandi yfir afstöðu minni og taldi, að ég væri að svíkja ríkisstj., þegar ég vildi einungis samþ. þau l. innan þeirra takmarka, sem um var samið. En nú lætur hann skína í, að hann verði ekki með þessu frv. nema því verði breytt eftir hans vilja, jafnvel þótt samþ. þess velti á hans atkv. og þar með fall ríkisstj.

En svo að ég víki að því, hvaða atriði mæla með því, að þessi skattur sé lagður á árið 1945. þá er það fyrst, sem bent hefur verið á, að óhæfa er að leggja skatta á eftir á, þótt það sé nú orðið alltítt hér á Alþingi og skipti hv. 3. landsk. ekki miklu. Annað er það, sem skiptir miklu máli, en það er, að menn geta hagað bókhaldi sínu þannig, að þeir geti greint sundur smásölu og heildverzlun, sem ekki er unnt, sé skatturinn lagður á 1944.

Enn fremur er það mikilsvert atriði, að menn séu fyrir fram viðbúnir slíkum álögum. Hugsum okkur t.d., að fyrirtæki, sem veltir 1 millj. kr., þurfi ekki að spara nema 10 þús. kr. í mannahaldi til þess, að reksturinn beri sig. En ef þetta er gert ári síðar, koma þessar tekjur til skatts. Og það, sem ef til vill er þó mikilsverðast, er það, að með því að leggja þetta á árið 1945, fá menn tækifæri til að hætta rekstri, sem sýnilegt er, að ekki mun bera sig.

Það er rétt, sem hv. 1. þm. Reykv. gat um, að það er á valdi Alþingis að samþykkja ekki tekjuskattsauka, ef sýnilegt er, að hér er of langt gengið.

Ég skal ekki ræða frekar um þessi atriði, en vil minnast á það, sem kom fram hér við 1. umr. viðvíkjandi samvinnufélögunum.

Það er vitað, að afstaða þessa hv. þm. til þessa frv. og afstaða Framsfl. í heild, og það kom einnig fram í ræðu hv. þm. Str., markast aðeins af því, að hér er verið að leggja skatt á samvinnufélögin, sem alveg gagnstætt því, sem hv. 1. þm. Eyf. hélt fram, hafa haft ýmiss konar skattfríðindi. Hv. þm. segir, að þau hafi engin fríðindi haft í sköttum. Ég vil benda hv. þm. á, að samkvæmt skattal. skulu samvinnufélög og kaupfélög ekki greiða nema 8% tekjuskatt, en tekjuskattur annarra félaga og einstaklinga takmarkast við 22%. Þetta er mikill munur, auk þess sem ekkert verzlunarfyrirtæki fær að draga frá meira en 20%, sem er skattfrjálst, en samvinnufélögin fá 33%. Þetta eru stór hlunnindi, og það þýðir ekki að berja höfðinu við steininn um það. En þetta er ekki nema partur af fríðindum félaganna, því að hlutafélögum, sem fá að leggja til hliðar nokkuð af tekjum sínum, áður en skattur er af þeim reiknaður, er markaður svo þröngur bás, að það er ekki hægt að taka þetta fé úr þessum fyrirtækjum til hluthafanna, heldur má aðeins nota það til nýbygginga, eins og hv. þm. er kunnugt, eða til rekstrartapa, en þetta er ekki þannig með samvinnufélögin. Þau eiga að vísu að leggja féð í sérstakan sjóð, en það er hvergi bannað á erfiðum tímum, að þeir, sem eiga þessi fyrirtæki og mest eru bændur, megi ekki lækka vöruverð, svo að félögin komist í rekstrartap og greiða hluthöfum sínum svo og svo mikinn hlut út án þess að greiða arð eða byggja nokkur skip eða önnur framleiðslutæki. Þetta eru kannske langstærstu fríðindin.

Ég vil í sambandi við þetta leyfa mér að benda á, að þar sem eingöngu er samvinnufélagarekstur í bæjar- og sveitarfélögum og ekkert annað til að bera uppi gjöldin, þar verður að leggja á gróða samvinnufélaganna gagnstætt ákvæðum l., því að annars hafa sveitarfélögin engar tekjur til að standa undir þörfum sínum. Mér er m.a. kunnugt um einn hrepp, þar sem enginn atvinnurekstur er, hann hefur allur verið lagður í rústir af ákveðnu samvinnufélagi, sem ekki hefur uppfyllt á sama tíma skyldu sína um að halda uppi atvinnurekstri á þessum stað. Þarfir hreppsins eru aðeins 15 þús., og þar af borgar kaupfélagið 10 þús., af því að það er hvergi hægt annars staðar að taka þetta fé, þó að það sé langt fram yfir það, sem heimilt er samkvæmt skattal. En þegar það tók að sér það hlutverk að keppa undir fríðindum skattfrelsisins við kaupmenn, sem þar voru á staðnum, og á sama tíma hafði þær skyldur að halda uppi atvinnurekstri, þá hurfu allir tekjustofnarnir, og þá varð að setja þessa byrði á það. Það mun líka svo fara, að þegar allur rekstur er kominn undir samvinnufélögin, þá verður að breyta skattal., ef bæjar- og sveitarfélög eiga að fá nauðsynlegar tekjur til að standa undir rekstri sínum. Það getur vel verið, að hv. 1. þm. Eyf. haldi því fram, að samvinnufélögin hafi engin skattfríðindi. En hvers vegna var þá samflokksmaður hans, hv. 1. þm. S.-M., að bera fram nýlega hér á þingi till. um breyt. á l. um olíusamlög til að fá þau undir sömu skattfríðindi og samvinnufélög, þó að þau væru í rauninni hlutafélög. Það var eingöngu af því, að samvinnufélögin hafa allt önnur og meiri skattfríðindi en nokkur annar rekstur hér á landi, því að ef það væri ekki, þá væri engin ástæða að bera fram till. um, að olíusamlög fengju sömu skattfríðindi og samvinnufélög.

Hv. 1. þm. Eyf. hefur einnig minnzt á það í nál. sínu og sömuleiðis í ræðu sinni áðan, að það mætti einnig fyrirskipa að lækka vöruverð í landinu og halda þannig dýrtíðinni niðri eins og að leggja á þennan skatt. Það má að sjálfsögðu fyrirskipa að lækka ágóðahlutann, en ég hygg, að það sé jafnskýrt mál, að þótt verðlagsvísitalan lækkaði eitthvað, þá kæmi það fé ekki allt í ríkissjóð, og þá yrði að afla teknanna á einhvern — annan hátt.

Að síðustu vil ég leyfa mér að benda hv. 1. þm. Eyf. á það, að nú er um það bil búið að samþ. annan mjög þungan skatt út úr þessari d., og þá kom þessi hv. þm. ekki til að mótmæla þeim skatti. Ég vil leyfa mér að upplýsa, hvernig þessi skattur verkar. Það eru þrjú fyrirtæki, sem ég hef rannsakað. Hvert þeirra hafði um 4 millj. kr. ísfiskssölu á s.l. ári. Eitt þeirra hefur grætt 750 þús. kr., en fær að leggja 250 þús. kr. í varasjóð, og af þessu er helmingurinn frystur í nýbyggingasjóði til þess að liggja þar án þess að gefa arð um langan tíma. Samkvæmt skattal. fær þetta fyrirtæki í skatt 495 þús. kr. M.ö.o., það hefur 5 þús. kr. til frjálsra umráða. Annað fyrirtæki hefur grætt 550 þús. kr., en hafði sömu umsetningu. Það leggur 184 þús. kr. í nýbyggingasjóð, en það fær 380 þús. kr. í skatt, eða 14 þús. kr. meira en það skattskylda fé. Ég skal hvenær sem er sýna þessum hv. þm., að þetta er rétt. Þriðja útkoman er þannig, og hún er verst, að þar hefur félagið grætt aðeins 250 þús. kr., og hefur 166 þús. kr. skattskylt, en fær 200380 kr. í skatt, eða nærri því 35 þús. kr. meira en það skattskylda fé. Svona er útkoman þarna. Það er sannarlega ekki af því. að útgerðarmenn hafi ekki séð, hvert stefnir. Þeir hafa séð þörfina á að bæta úr því öngþveiti, sem m.a. þessi hv. þm. hefur verið að halda við hér á þingi með því að styðja beinlínis og óbeinlínis fyrrv. ríkisstj., sem skapaði þetta öngþveiti. (BSt: Studdi ég hana?) Já, það gerði hann, hann vildi ekki verða af með hana. (BSt: Ég held, að við höfum báðir stutt hana jafnt.)

Ég skal svo ekki hafa um þetta fleiri orð. Mér þótti rétt að taka þetta fram að gefnu tilefni frá hv. 1. þm. Eyf., þar sem hann fór hér alveg ranglega með, að samvinnufélögin hefðu ekki notið sérréttinda í skattfrelsi, og út af öðru, sem hér hefur komið fram í sambandi við þessar umr.