13.10.1944
Neðri deild: 65. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1449 í B-deild Alþingistíðinda. (6450)

24. mál, atvinna við siglingar

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. — Frsm. sjútvn., hv. þm. Vestm., gat ekki mætt á þessum fundi, en óskaði eftir, að ég tæki að mér framsögu þessa máls fyrir sína hönd.

Þetta mál hefur legið fyrir sjútvn. alllangan tíma og verið sent til umsagnar nokkurra aðila, sem n. þótti réttast að senda það til, og þó að hv. frsm. sé ekki við, þykir n. full ástæða til að láta taka málið fyrir. af því að það hefur verið svo lengi í n.

Sjútvn. sendi Fiskifél. Ísl. frv., og mælir það eindregið með samþykkt þess. Auk þess var það sent Skipaútgerð ríkisins, sem einnig mælir með því, og Eimskipafél. Íslands, sem leiddi það hjá sér og sagði, að það kæmi störfum félagsins svo lítið við. Þá var frv. sent skólastjóra Stýrimannaskólans. en hann er frv. kunnugur, því að hann hefur staðið að samningu þess, og mælir hann með því, með einni breyt., sem n. flytur.

Þær breyt., sem frv. felur í sér, eru aðallega þessar: Í fyrsta lagi, að hið minna fiskimannapróf, sem miðast við allt að 75 smál. skip, verði lagt niður, en aðeins verði eitt fiskimannapróf, sem miðist við 30 smál. og upp úr. Í öðru lagi er gert ráð fyrir, að það smáskipapróf, sem gilti fyrir 6–15 smál., verði látið gilda upp í 30 smál. báta. Þá er gert ráð fyrir rýmkun inngönguskilyrða í Stýrimannaskólann, þar sem siglingatími sé miðaður við ákveðinn tíma á skipum yfir 30 rúmlestir að stærð, en var áður yfir 75 rúmlestir. Þetta er mjög þýðingarmikið, því að það hefur komið í ljós, að þau ákvæði, sem gilt hafa, hafa reynzt mörgum fiskimönnum mjög örðug, og skólinn hefur því verið of mörgum sjómönnum lokaður. Nú eru mörg skip á milli 30 og 75 rúmlesta, og mundu því margir sjómenn fá tilskilinn siglingatíma.

Auk þessa er gert ráð fyrir því til bráðabirgða, að þeim. sem nú hafa tekið 75 smál. próf og verið skipstjórar fulla 36 mán. og eru orðnir þrítugir, verði gefinn kostur á að hækka réttindi sin í almennt fiskimannapróf með sérstöku námsskeiði.

Þessar eru breyt. í frv. Í grg. þess, sem vísað er til, er þess getið, að breyt. eru fluttar eftir einróma ósk Farmanna- og fiskimannasambands Íslands. Í því eru stéttarfélög bæði meiraprófs- og minnaprófsmanna. Félög þessara aðila hafa komið sér saman um að leggja til þær breyt., sem frv. felur í sér. Í grg., sem þau láta fylgja, er tekið fram, að reynslan hafi leitt í ljós, að 75 smál. markið sé úrelt, af því að skipin hafa stækkað svo mjög. Allmargir efnilegir fiskimenn hafa látið sér nægja að nema til minna prófs og hafa síðan farið með skip undir 75 smál. að stærð, en eftir því sem skipin stækka, hafa þeir ekki réttindi til að fara með skip yfir 75 smál. og eru búnir að láta sín beztu ár í námið.

Í frv. er líka gert ráð fyrir, að til bráðabirgða verði komið upp námsskeiðum úti um land til þess að auðvelda mönnum að geta lokið námi hér. Eins og nú er, þurfa nemendur tvo vetur til námsins, en í frv. er gert ráð fyrir fjögurra mánaða námsskeiðum, sem gætu létt af öðrum vetrinum. og menn gætu setzt í síðari bekkinn hér.

Um brtt. sjútvn. á þskj. 397, sem er flutt samkv. ósk Friðriks Ólafssonar skólastjóra, er það að segja, að hún er flutt til að tryggja sem bezt, að þeir, sem eiga að fá þessi smáskiparéttindi, á skipum 6–30 smál., séu fyllilega vandanum vaxnir.

Einn nm., hv. 2. þm. S.–M., hefur flutt brtt., sem aðrir sjútvnm. geta ekki fallizt á. Hún er á þá leið, að réttindi skipstjórnarmanna verði aukin, án þess að þeir bæti við sig þekkingu, og ef hún verður samþ., þá er gengið fram hjá samkomulagsgrundvellinum hjá þeim aðilum, sem aðallega fjalla um þessi mál. Það má deila um það, hvort nám, sem hingað til hefur verið skilyrði fyrir því að fara með 75 smál. skip, muni nægja til að fara með allt að 120 smál. skip, en ég hygg, að ef farið verður inn á þá braut að hækka smálestamarkið án þess að krefjast aukins náms, geti orðið tæpt að fóta sig, og gæti þá komið til mála að fara enn ofar. Ég veit, að Friðrik Ólafsson er alveg mótfallinn þessari till.

Mér virðist þá ekki þurfa að hafa um þetta fleiri orð. Sjútvn. leggur til, að frv. verði samþ. með brtt. á þskj. 397. Meiri hl. n. mælir gegn till. á þskj. 405.