13.09.1944
Neðri deild: 49. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 385 í C-deild Alþingistíðinda. (6461)

105. mál, dýralæknar

Flm. (Gunnar Thoroddsen):

Það er nú liðin rúmlega hálf öld síðan fyrst voru sett l. um dýralækna hér á landi. Það var 1891, og var þá ákveðið, að dýralæknaembætti væru tvö í landinu, annað fyrir Suður- og Vesturland og hitt fyrir Norður- og Austurland. Á þessum tíma var enginn íslenzkur dýralæknir til, og liðu fyrstu árin þannig, að enginn var skipaður, eða þangað til fyrstu dýralæknarnir komu: Magnús Einarsson um aldamótin, og nokkru síðar Sigurður Hlíðar, núverandi yfirdýralæknir. Síðan hefur verið fjölgað dýralæknaembættum, 1915 upp í fjóra, einn fyrir hvern fjórðung, og svo 1933 upp í fimm, en að lokum 1939 upp í sex, þannig að nú eru sex dýralæknaembætti í landinu. Þetta frv. fer fram á að fjölga þeim nú upp í sjö. Eins og skýrt er frá í grg., er ástæðan til þess sú, að áður sat um alllangt áraskeið dýralæknir fyrir Vestfirðingafjórðung í Stykkishólmi. En þó að dýralæknum hafi nú verið fjölgað upp í tvo fyrir þann fjórðung, hefur þróunin orðið sú að svipta Breiðafjarðarbyggðir þessum dýralækni, sem þótti sjálfsagt, að væri þar áður. Það var gert 1928, þegar þáverandi dýralæknir í Stykkishólmi, Hannes Jónsson, fluttist til Reykjavíkur og gerðist dýralæknir hér. En hinn nýi dýralæknir var ekki settur í Stykkishólm, heldur í Borgarnes. Þetta hefur valdið miklum örðugleikum í byggðum kringum Breiðafjörð. Og hvað eftir annað hafa komið fram raddir um að fá úr bætt. Nú liggja fyrir áskoranir bæði frá búnaðarsambandi Dalasýslu og Snæfellsnessýslu og frá sýslufundi Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu til Alþ., að stofnsett verði á ný dýralæknisembætti í Stykkishólmi. Ég tel þetta fullkomið sanngirnismál og nauðsynjamál og vænti þess, að það fái hér góðar viðtökur. Það mætti kannske segja, að eðlilegast væri að bera fram kröfu um, að dýralæknirinn væri aftur fluttur til Stykkishólms úr Borgarnesi. Hins vegar þykist ég skilja til fullnustu, að Borgfirðingar og Mýramenn hafi það ríka þörf fyrir að hafa dýralækni hjá sér, að ekki sé sanngjarnt að svipta þá dýralækni þeim, sem situr í Borgarnesi. Ekki er þá önnur leið en sú til að bæta úr vandkvæðum Borgfirðinga að stofna þetta dýralæknisembætti í Stykkishólmi.

Ég skal taka það fram, að ég býst við, að flestir séu þeirrar skoðunar, að á næstu árum hljóti að stefna að því að fá talsvert fleiri dýralækna í landið. Það er augljóst mál, að heilum landsfjórðungum verður ekki gagn að því að hafa einn einasta dýralækni, eins og Vestfirðingafjórðungi og Norðlendingafjórðungi. En sá er ágallinn, að mér er tjáð, að enginn sé nú við dýralæknisnám. Slíkt finnst mér þó ekki næg ástæða til að synja um alla fjölgun dýralæknisembætta. Því að vitaskuld verður það ungum mönnum hvatning að leggja út á þá braut, ef þeir vita, að verkefni bíður þeirra og embætti.

Ég vænti þess svo, að málinu verði vísað til 2. umr. og landbn.