18.12.1944
Sameinað þing: 78. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 594 í B-deild Alþingistíðinda. (651)

143. mál, fjárlög 1945

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. — Það er 3. umr. fjárl., sem nú fer fram, og langar mig til að láta falla nokkrar almennar aths. um þau mál, áður en kemur til atkvgr. um þau. Ég hefði beðið með að tala, ef hæstv. fjmrh. hefði kvatt sér hljóðs næst á eftir frsm. fjvn., en hann mun ætla að dragá það eitthvað.

Ég hef heyrt það frá fjvn., og eins hygg ég, að það hafi komið fram hér á Alþ.,hæstv. ríkisstj. ætli sér að hafa þann háttinn á um þessi mál að reyna að ljúka atkvgr. fjárlfrv. fyrir jól, en að hún muni ekki ætla, sér að leggja fram af sinni hendi allar þær uppástungur, sem hún hefur gert um tekjuöflun fyrir — ríkissjóð, fyrr en eftir jólaleyfið. Mun það því vera ætlunin að slíta afgr. fjárhagsmálanna alveg í sundur. Enn fremur hef ég heyrt, að það muni vera ætlan hæstv. ríkisstj. að setja ekki inn í fjárlfrv. greiðslur samkv. dýrtíðarl., sem hæstv. ríkisstj. hefur þó ákveðið að beita sér fyrir samkv. gerðum samningi um stjórnarmyndun. — Ég vil leyfa mér að finna að þessari málsmeðferð allri saman. Í fyrsta lagi vil ég halda því fram, að það sé hin eina sómasamlega meðferð á fjárlfrv. að setja þar inn allar þær greiðslur, sem meiri hl. Alþ. hefur ákveðið að beita sér fyrir, að inntar verði af hendi, svo sómasamlega áætlaðar sem kostur er á, og ég skil ekki, hvers vegna hæstv. ríkisstj. tekur ekki þann kostinn að gera fjárlfrv. þannig úr garði, að hún fái nokkra hugmynd og almennt yfirlit um útgjöld ríkisins á næsta ári. En um fjárframlög verður með engu móti séð, ef sá háttur verður á hafður, sem ég hef þegar getið um, að fjárl. verði afgr:, án þess að dýrtíðargreiðslur séu þar teknar inn í. Enn fremur vil ég benda á, að það er í raun og veru óhugsandi fyrir þá, sem ekki beinlínis sjá inn í hugskot hæstv. ríkisstj. og vita gerla um, hvað hún ætlast fyrir, að taka nákvæma afstöðu til þeirra till., sem fram hafa komið, og í raun réttri til fjárl. og einnig skattamálanna, svo að fullkomið lag sé á, nema hæstv. ríkisstj. breyti um stefnu og láti liggja fyrir frá sinni hendi ákveðnar till. um tekjuliði ríkissjóðs á næsta ári, með öðrum orðum, að hæstv. ríkisstj. gefi skýrslu um það, hversu mikilla tekna hún ætli að afla vegna ríkisútgjaldanna og með hvaða hætti. Vil ég því mjög minna á, að með þeirri aðferð að slíta þetta allt í sundur, eins og hér virðist eiga að viðhafa, þá er alveg ógerningur fyrir þm. að fá nokkurt heildaryfirlit yfir það, hvert verið er að fara með þessi mál.

Þá vildi ég og minna á, að ríkisútgjöld fjárlfrv. eru nú eftir 2. umr. 96,6 millj. kr. og greiðsluhalli úr ríkissjóði, sem færður er á sjóðsyfirlit, um 9,9 millj. eða 10 millj. kr., þannig að greiðslur í heild eru nær 106 millj. kr., eins og fjárlfrv. er nú. Ég tel hér með greiðslur á eignayfirliti eða sjóðsyfirliti, vegna þess að þær eru langflestar þannig vaxnar, að nokkuð örðugt er að dæma um, hvort þær ættu frekar að vera þar eða á rekstraryfirliti sjóðsins. Flestar þessar greiðslur ganga til óarðbærra fyrirtækja, t.d. spítala, landssímalína, varðskipa og annarra slíkra fyrirtækja. Ég vil láta þennan halla koma fram og tel, að flestar af þessum greiðslum hefðu átt að vera á rekstraryfirliti. Vil ég því vara við þeirri stefnu að færa fleiri og fleiri greiðslur á sjóðsyfirlit í stað rekstraryfirlits. Ég álít, að sem allra flestar greiðslur eigi að færa á rekstraryfirlit, aðrar en þær, sem beinlínis ganga til arðbærra fyrirtækja, því að annars verður að afla tekna móti þessum greiðslum. En mér leikur grunur á því, að í þessu formi sé einmitt hafinn undirbúningur að því, að fara eigi að reka þessi fyrirtæki fyrir lánsfé til þess að standa undir fjárframlögum til þeirra.

Greiðslur ríkissjóðs eru nú áætlaðar 106,5 millj. kr., en þó er eftir að bæta við þær öllum dýrtíðargreiðslum, sem vantar á fjárlfrv., og tel ég alveg þýðingarlaust að áætla þær lægra en 25 millj. kr., þótt sú upphæð sé nokkuð út í bláinn, enda getur enginn vitað um það með neinni vissu. Hefur mér verið sagt, að um 17 millj. kr. þurfi til þess að borga niður dýrtíðina innan lands, eins og nú er ástatt, ca. 3 kr. á hvert kg af kjöti og 20–30 aura fyrir hvern lítra mjólkur, og er ekki langt frá 17 millj. kr., sem til þeirra greiðsina fer. Ekki er hægt að spá neinu um útflutningsuppbætur, en ég hygg, að óhætt sé að gera ráð fyrir því, að þessar greiðslur verði ekki lægri en 25 millj. kr., og mætti kallast vel sloppið, ef sloppið yrði með það. Þegar þessar greiðslur, sem ekki eru í fjárlfrv., bætast við útgjöld ríkissjóðs, eru þau komin upp í 131 millj. kr. Þá vantar enn hækkun samkv. launalagafrv., sem hæstv. núv. ríkisstj. hefur ákveðið, að gangi fram á þessu þingi. Fer tvennum sögum um, hversu mikil útgjöld verða vegna þeirrar löggjafar, og liggja enn engar endanlegar niðurstöður um þetta hjá fjmrn., sem taki af öll tvímæli um þetta, en heyrt hef ég frá fulltrúum, sem unnið hafa í mþn. og kynnt sér þessi mál, að útgjaldaaukinn vegna þessa frv. muni ekki verða undir 6–7 millj. kr. á næsta ári, ef það verður samþ. eins og það kemur frá n., og væntanlega lækka útgjöldin ekki í meðferð Alþ., svo að nokkru verulegu nemi. Við skulum þá reikna með því, að þessi gjaldaaukning nemi 6 millj. kr., og eru þá gjöld ríkis~jóðs komin upp í 137 millj. kr. — Enn ber þess a,ð geta, að nokkrar till. til hækkunar liggja hér fyrir frá fjvn., og hef ég ekki talið þær nákvæmlega saman, en ég sé, að samkv. till. samvn. samgm. er gert ráð fyrir 200 þús. kr. til hækkunar, og nokkrar till. til hækkunar liggja fyrir frá öðrum hv. þm., sem ef til vill verða fáar samþ. — Ég vil og geta þess, að ef launalagafrv. verður samþ., verður óhjákvæmilegt að hækka að mun styrk til allra héraðsskóla og húsmæðraskóla landsins, vegna þess að ekki verður unnt að fá fólk fyrir sama kaup og áður, og hefur mér verið tjáð, að það verði ekki undir 1/2 millj. kr., sem þurfi til þess að bæta þessum skólum þetta upp, ef þeir eiga ekki að hætta störfum. — Ég hygg því, að óhætt sé að segja það með fullri vissu, að verði þau gjöld sett inn í fjárlfrv., sem meiri hl. Alþ. hefur ákveðið að beita sér fyrir og samþ., þá verði fjárl. aldrei undir 140 millj. kr. Ef sú aðferð verður svo viðhöfð að halda milljónagreiðslum utan við fjárl., þá er það ekkert annað en formið, ef löggjöfin verður samþ., án þess að þessar greiðslur allar séu teknar með í reikninginn, þegar rætt er um fjármál ríkisins. Mér þætti því vel sloppið, ef komizt yrði af með 150 millj. kr. til ríkisútgjalda á næsta ári með þeirri stefnu, sem nú ríkir í þessum málum, og mættu fjárl. fara mjög lítið fram úr áætlun, hvað gjöld snertir, né neitt óvænt koma fyrir, ef þessi upphæð ætti að duga.

Ef við lítum á tekjuhlið fjárlfrv., þá er hún nú áætluð næstum 100 millj. kr., og er þar með þanin til hins ýtrasta, þótt búast mætti ef til vill við því, ef peningaveltan yrði eins og hún er nú, að þetta gæti staðizt, en ekkert mætti þar út af bera. Finnst mér því mjög mikil bjartsýni að halda, að tekjurnar komist upp í 100 millj. kr. Ég geri ráð fyrir því, að það séu um 40–50 millj. kr., sem þurfi að afla ríkissjóði með nýjum tekjustofnum, til þess að gera mætti ráð fyrir því, að ekki yrði hallarekstur hjá ríkinu á næsta ári, en þó verður að miða við það, að öll peningavelta verði svipuð og á þessu ári, en ef nokkuð bæri út af, mundi strax koma stórkostlegur tekjuhalli. Nú skal ég ekkert um það segja, hvaða fyrirætlanir hæstv. ríkisstj. hefur í þessum efnum, en eflaust verður það erfiðleikum bundið að draga saman 40 millj. kr., sem nú þarf, til þess að ríkisreksturinn verði hallalaus á næsta ári. Hæstv. ríkisstj. hefur að vísu lagt fram frv. um tekjuöflun upp á 7 millj. kr., en það er ekki nema krækiber í ámu miðað við þá tekjuþörf, sem nú er búið að skapa. Um frekari fyrirætlanir hæstv. ríkisstj. veit maður ekki. Þó finnst mér eftirtektarvert, að í því frv., sem fram er komið frá hæstv. ríkisstj., er ekki minnzt á ýmsa af þeim sjóðum, sem sumir stjórnarflokkarnir hafa undanfarið talað hátt um að auka tekjur ríkissjóðs með og hafa gagnrýnt mjög, að ekki væri nægilega langt gengið um álagningu stríðsgróðaskattsins. Einnig hafa þeir talað um, að framkvæmd skattal. þyrfti endurbóta við, en ekki bólar enn á neinni till. í þessa átt. Ef til vili eiga þær eftir að koma, því að von er á fleiri till. um þessi málefni frá hæstv. ríkisstj. En hvað sem fyrirætlunum hæstv. ríkisstj. líður, hljóta allir að sjá, að erfitt verður að ráða við 150 millj. kr. ríkisútgjöld, eins og ég hef gert ráð fyrir, að þau verði á næsta ári, og þótt hæstv. ríkisstj. taki nú þessi mál föstum tökum, hljóta þau að verða miklum vandkvæðum bundin, enda sannast að segja, að nú væri þess full þörf, að ríkissjóður væri rekinn með ríflegum tekjuafgangi á næsta ári, sem lagður yrði til hliðar.

Ef við athugum nú, hvernig á því stendur, að ríkisútgjöldin eru komin upp í 150 millj. kr., enda þótt í fjárlfrv. sé ekki nein sérstök fjárveiting til nýsköpunar framkvæmda, þá á sjálf verðbólgan aðalsök á því, hvernig komið er í þessum efnum. Má greina þetta í þrennt:

a) Almenn rekstrarútgjöld (þ. á m. laun til starfsmanna ríkisins).

b) Verklegar framkvæmdir. (Eru þær nokkuð ríflegri en þær voru upphaflega áætlaðar, sem að vísu munar ekki miklu.)

c) Greiðslur vegna dýrtíðarráðstafana.

Ef menn líta yfir þetta í heild, þá sést, að þetta getur ekki gengið og hlýtur að stranda fyrr eða síðar. Og næsta ár verður þetta enn þá verra, ef ekkert er að gert. En það réttasta, sem hægt væri nú að gera í þessum málum, er að reyna að fá því framgengt við rétta hlutaðeigendur, að launastéttirnar veiti svipaða eftirgjöf og bændur gerðu á síðasta hausti. Með því að byrja að klifra niður dýrtíðarstigann verður smám saman hægt að koma þessum málum í viðráðanlegt horf. Ef stj. kæmi þessu til leiðar, sýndi hún, að hún ætti meiri tilverurétt en margir vilja nú álíta. Og þótt ríkisstj. hafi haldið því fram undanfarið, að ástandið væri eigi svo illt, þá hljóta nú allir að sjá, hve hér er mikil alvara á ferðum að óbreyttum aðstæðum.

Ég vil nú nefna hér eitt dæmi, sem sýnir glögglega, hvert stefnt er.

Hér kom fram frv. frá hv. þm. Borgf. um að nota hafnarbótasjóð til hafnargerðar í kjördæmi sínu. Þessi hv. þm., sem er formaður fjvn., benti á, að erfitt væri nú að finna þeirri upphæð stað í fjárl., sem koma þyrfti á móti því framlagi, sem héraðsmenn vildu leggja til með öðrum orðum, að nú er svo komið, þegar peningaflóðið er sem mest, að eigi er hægt að koma inn á fjárl. upphæðum til venjulegra verklegra framkvæmda, en í þess stað verður að nota upp þá örlitlu sjóði, sem safnað hefur verið til á síðastliðnum árum.

Annað dæmi enn gleggra er um endurbyggingu vélbátaflotans.

Það, að eigi skuli vera hægt að koma inn á fjárl. fjárveitingum sem þessum, sýnir bezt, að það verður að byrja að lagfæra þetta, áður en það er með öllu óframkvæmanlegt. — Ég vona svo, að ríkisstj. breyti frá þeirri stefnu, sem hún hefur fylgt undanfarið.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að orðlengja þetta frekar, en ég vildi bara benda á það, sem mest horfir til vandræða, og einnig að benda á, hvað helzt þarf að gera. — Ég vil og finna að því, hversu það er hér slitið úr sambandi, sem á að fylgjast að, bæði fjármálin, dýrtíðarmálin og skattamálin. Það er alveg ófært að slíta þetta svo í sundur, að ómögulegt sé að vinna að því eða skapa sér skoðun um, hvert stefnt er.

Áður en ég lýk máli mínu um fjárl., verð ég að minna á tvennt. — Samkv. l., sem sett voru í fyrra um lífeyrissjóð opinberra starfsmanna, verður ríkissjóður að svara út æði-fjárfúlgu fyrir þá, sem ekki höfðu greitt nægilega í lífeyrissjóð, og mun sú upphæð nema 7 millj. kr. Það verður ekki hjá því komizt að greiða eitthvað af þessari upphæð þegar, en engin till. er þó um að setja það í fjárl. — Sama er að segja um l. um landnám ríkisins. Þetta verður að koma í fjárl., og það þýðir alls ekki að leyna erfiðleikum sem þessum.

Einnig vil ég gera fyrirspurn um það viðvíkjandi till. um nýjar símalagningar í 22. gr. fjárl., hvaða fé það er, sem leggja á til þessara nýju símalagninga. Ég spyr sökum þess, að ef nota á til þeirra tekjur landssímans, þá þýðir ekki að vera að skreyta fjárl. með þeirri upphæð.

Þá eru það aðeins örfá orð um brtt. á þskj. 720, sem ég hef leyft mér að flytja. Það er um 20 þús. kr. fjárveitingu til Víknavegar, í tvennu lagi, og 25 þús. kr. til Sandár í Öxarfirði. Ég fell frá því að flytja aðrar tvær till., og vænti ég, að það verði til að bæta fyrir hinum.

Þá er það till., sem ég flyt ásamt hv. 1. þm. S.-M., um hækkun fjárveitingar til Stöðvarfjarðarvegar. Þetta er mjög mikilsverður vegur, og flytjum við því þetta aftur til reynslu.

Þá er það brtt., sem ég flyt einnig með hv. 1. þm. S.-M., um brú á Geitdalsá og Múlaá í Skriðdal. Þetta er mjög aðkallandi, og verður að brúa þessar ár báðar í einu. Ég flyt einnig till. ásamt hv. 11. landsk. (ÁS) um brú á Hofsá í Álftafirði, og var ég búinn að gera grein fyrir nauðsyn þessa áður.

Þá flyt ég till. með hv. 1. þm. S.-M. og hv. 2. þm. N.-M. Ég hygg, að þessi till. hafi verið felld af vangá við 2. umr. En till. er um að kaupa af eigendum Egilsstaða á Völlum, ef viðunandi samningar nást, það land, er skipulagsnefnd ríkisins telur, að væntanlegt sveitaþorp þar þurfi á að halda. Það er sýnilegt, að hér myndast þorp, og það er óheppilegt, að slíkar lóðir séu í einstaklings eign. Í slíku tilfelli er eðlilegast, að hreppurinn eða ríkið eigi lóðirnar, en nú er því þannig varið, að hér á fámennur hreppur hlut að máli, svo að eðlilegast er, að ríkið eignist þetta land. —Það má ef til vill segja, að við hefðum átt að flytja frv. um að taka landið eignarnámi. En við hugðum, að það gæti ef til vill verið unnt að komast að viðunandi samningum við þá, sem hér eiga hlut að máli, því að nýlega var tekið þar land eignarnámi til flugvallar, og var það metið á 90 þús. kr. Við, sem kunnugir erum, teljum þetta heppilegri leið. Ef ekki tekst að fara þessa leið, verður að fara hina og taka landið eignarnámi.

Loks er till. um heimild handa ríkisstj. til að kaupa strandferðaskip.

Það hefur komið fram gagnrýni um, að ekki væri heppilegt að binda heimildina við, að það skip yrði líkt og annað skip, sem við eigum nú. Til þessa hefur nú verið tekið tillit, og leggjum við til, að ríkisstj. og mþn. verði falið að ákveða í sameiningu gerð skipsins.

Sé ég svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um till. mínar.