18.12.1944
Sameinað þing: 78. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 601 í B-deild Alþingistíðinda. (654)

143. mál, fjárlög 1945

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. — Við 2. umr. fjárl. flutti ég nokkrar brtt., en tók flestar þeirra aftur, til þess að hv. fjvn. gæti athugað þær. Meðal þeirra voru þrjár brtt. um fjárveitingu til lendingarbóta og hafnargerða í Ólafsvík, á Arnarstapa og Hellnum.

Nú hefur fjvn. tekið upp fjárveitingu til tveggja þessara staða, 25 þús. kr. til Ólafsvíkur og 20 þús. kr. til Arnarstapa, í staðinn fyrir, að brtt. mínar fóru fram á 30 þús. til hvors staðar. Um leið og ég þakka fjvn. fyrir að taka upp í fjárl. nokkra fjárveitingu til þessara staða, vil ég taka fram, að mér finnst ástæðulítið að vera að klípa af framlaginu til Arnarstapa þessar 10 þús. kr., þar sem hér er um að ræða verk, sem fyrir fram er búið að gera áætlun um, vegagerð niður að höfninni, og hefur verið áætlað, að kosti 60 þús. kr. Það virðist, að þetta verk verði að vinna allt í einu lagi vegna þess, að það þarf að vinna það með vélum, og því mjög óhentugt, að það sé unnið í tvennu eða þrennu lagi. En ég hef ekki séð ástæðu til þess að flytja brtt. um þetta. En ég vil taka það fram, að ég held, að hér sé ekki um verkhyggni að ræða hjá hv. fjvn.

Hv. fjvn. hefur ekki viljað taka upp fjárveitingu til framkvæmda á Hellnum, 10 þús. kr. En hér er um aðkallandi mál að ræða, sem hefur verið undirbúið af vitamálastjóra. Á Hellnum er útræði talsvert og hægt að gera talsvert fyrir það fé, sem ætlazt var til, að veitt yrði í því skyni. Og ég skal taka það fram, að hér er ætlazt til, að það sé hálft framlag eins og á Arnarstapa.

Við 2. umr. fjárl. flutti ég brtt. um byggingarstyrk til amtsbókasafnsins í Stykkishólmi, 20 þús. kr., og miðaði ég þessa fjárhæð við það, sem hv. fjvn. hafði sjálf lagt til, að veitt yrði til styrktar bókasafnsbyggingu á Ísafirði. Þessi brtt. var felld. Ég legg nú til, að veittar verði 10 þús. kr. í þessu skyni. En hér er í algert óefni komið. Þarna er safn, sem er merkilegt fyrir margra hluta sakir. En húsið, sem safnið er f, er gamalt og að falli komið, og margar bækur liggja undir skemmdum. Húsameistari ríkisins hefur gert uppdrátt að þessari fyrirhuguðu byggingu og telur, að hún muni kosta um 60 þús. kr. Það mun nú vera þar vestra handbært fé, er nemur um 30 þús. kr., sem verja á í þessa fyrirhuguðu byggingu. Og virðist þá ekki nema sanngjarnt, að ríkið komi hér á móti, þar sem hér er um mjög aðkallandi mál að ræða.

Við 22. gr. fjárl. flutti ég brtt. við 2. umr. um það að verja allt að 50 þús. kr. til samgöngubóta milli Ólafsvíkur og Hellissands, og er helmingur þeirrar upphæðar endurveiting. Mér kom það því undarlega fyrir sjónir, að hv. fjvn. féllst ekki á að endurveita þetta fé, sem hefur verið veitt, en ekki notað. En þessar 25 þús. kr. voru ekki notaðar, vegna þess að um það voru skiptar skoðanir, hvernig bezt væri að haga verkinu. En ætlunin var að geyma þetta fé.

Um hina till. er öðru máli að gegna. Ég skal ekki fjölyrða um hana; því að ég gerði grein fyrir henni við 2. umr. Ég hef heyrt á sumum mönnum, að þetta væri hættuleg braut, en eins og ég tók fram, þá stendur þarna svo sérstaklega á, að vegagerð með venjulegum hætti er óframkvæmanleg, það gerir sjávargangur og vatn ofan úr fjallinu. Eins og ég minntist á þá, telur vegamálastjóri, að svipað standi á á aðeins einum öðrum stað, þ.e.a.s. á söndunum í Skaftafellssýslu, þar sem nota mætti einhver sérstaklega útbúin farartæki, og er ekki óeðlilegt, að ríkið veiti þennan tiltölulega litla styrk til að koma þessum framkvæmdum á og gera þessa nauðsynlegu tilraun, sem væntanlega getur orðið mikil samgöngubót á þessum stað, þar sem vegagerð er svo miklum erfiðleikum bundin eða óframkvæmanleg.

Þá hef ég borið fram við 22. gr. brtt., sem ekki er búið að útbýta enn, en vil þó minnast á, með leyfi hæstv. forseta. Er þar farið fram á, að heimilt sé að verja úr ríkissjóði allt að 50 þús. kr. að fengnum till. fiskimálan. til að styrkja þá útgerðarmenn, er misst hafa fiskiskip sin frá ófriðarbyrjun, til að eignast ný skip, þó ekki yfir 20% af verði skipsins. Í fjárl. fyrir 1943 var sams konar heimild eins orðuð, nema upphæðin var 160 þús. kr. Með þessum hætti hafa menn, sem misst hafa báta sína af slysförum, fengið nokkurn styrk úr ríkissjóði til að eignast nýja báta. Nú mun ekki vera nema einn eða tveir menn, sem hafa sótt um þetta og ekki fengið styrk. Virðist sjálfsagt að gera ekki upp á milli þessara manna. Ég hef því tekið hér upp sams konar till. og samþ. var fyrir árið 1943, nema upphæðin er 50 þús. Þetta er aðeins til að bæta úr misrétti, sem hér hefur orðið.

Loks kemur stærsta till., sem ég er flm. að. Það er viðvíkjandi vatnsveitu handa Stykkishólmi. Í Stykkishólmi hafa verið um langt skeið mikil vandræði með neyzluvatn. Þar eru nokkrir brunnar, og samkvæmt rannsókn er vatn úr þeim flestum ónothæft, jafnvel heilsuspillandi, og auk þess er það ekki nóg, svo að orðið hefur að flytja vatn á bílum langar leiðir á hverju sumri að undanförnu. Þetta er gersámlega óviðunandi ástand, og eftir athugun fróðra manna er talið, að tilgangslítið eða tilgangslaust sé að bora, vegna þess að landslag og jarðvegur er þarna með þeim hætti, að ekki þykir ráðlegt að leggja í það mikið fé, þar sem svo lítil von er um árangur. Hins vegar er í 101/2 km fjarlægð, í Drápuhlíðarfjalli, gott neyzluvatn, og hefur Stykkishólmsbúum helzt komið til hugar að fá vatn þaðan. Vegamálastjóri hefur gert nákvæma uppdrætti að vatnsveitu og kostnaðaráætlun. Í grg., sem gerð er af vegamálastjóra og hafnarstjóra Reykjavíkur, Valgeiri Björnssyni, segir svo m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Svo sem kunnugt er, hefur undanfarin ár verið algerlega óviðunandi vatnsskortur í Stykkishólmi, jafnvel svo, að árlega verður um langan tíma að flytja neyzluvatn á bifreiðum langt ofan úr sveit.

Samkvæmt beiðni oddvitans hefur farið fram athugun á möguleikum til vatnsveitu fyrir kauptúnið. Voru fyrst athugaðar vatnslindir í nágrenninu, og er niðurstaðan sú, að hvergi muni fást nægilegt vatn nær en undir hallanum frá Drápuhlíðarfjalli í rúmlega 10,5 km fjarlægð, rétt austan við bæinn Drápuhlíð. Þar koma fram lindir, sem veita má saman, og er talið, að því megi treysta, að úr þeim fáist minnst 6 litrar vatns á sekúndu. Miðað við það rennsli fást 520 tonn á sólarhring, sem talið er ríflegt vatnsmagn fyrir þorpið, en þar búa nú nær 700 manns samkvæmt síðasta manntali.

Á síðastliðnu sumri var mælt fyrir vatnsveitunni, samanber uppdrátt. Leiðin liggur að langmestu leyti um mýrlendi og móa, en smáspottar um mela og nokkur stutt klapparhöft, sem þarf að sprengja. Heildarvatnshalli verður 30,4 m frá lindunum að vatnsgeymi, sem fyrirhugaður er á hæð í miðju þorpinu. Er það nokkuð lítill vatnshalli á svo langri leið, og þarf því 6 þuml. víða pípu, sem verður 10551 m löng. Við lindirnar er gerð vatnsþró steypt.

Á síðari árum hefur notkun asbestsementsvatnsveitupípna náð allmikilli útbreiðslu, og munu þær einnig hafa reynzt vel hér á landi. Þær eru ódýrari, a.m.k. nú, en pípur úr steypujárni, enda slíkar pípur ófáanlegar þar til að ófriðnum loknum.

Er því í áætlun þessari miðað við asbestsementspípur samkvæmt tilboði Ingólfs G.S. Esphólíns til yðar, dags. 8. ág. þ. á. Talið er rétt að miða við pípur af „B“ flokki að styrkleika alla leið.

Talið er hæfilegt, að vatnsgeymir, sem gerður er til þrýstingsjöfnunar og vatnsmiðlunar og settur á hólinn ofan við barnaskólann, taki 100 teningsm. Er hann úr járnbentri steypu.

Áætlun sú, er gerð hefur verið, nær yfir lögnina alla í vatnsgeymi að honum meðtöldum.“ Þá er það kostnaðaráætlunin. Það kom því miður í ljós, að þetta mannvirki er geysilega dýrt. Þar er langstærsti liðurinn pípurnar, sem verður að leggja þennan langa veg, og auk þess þarf að byggja vatnsgeymi í Stykkishólmi. Kostnaðaráætlunin er 650 þús. kr. fyrir þetta mannvirki, og er þá talin bæði vinna og efni, en ekki innanbæjarlagnir. Hafa þær ekki verið áætlaðar enn og erfitt að segja, hvað þær kosta. Það er gersamlega útilokað fyrir kauptún með 700 íbúa að standa eitt undir svona mannvirki. Þess vegna hef ég farið fram á með þessari till. annars vegar beinan fjárstyrk og hins vegar ríkisábyrgð fyrir láni. Ég skal taka fram, að eftir því sem fram hefur komið, virðast kauptúnsbúar ætla að leggja fram með frjálsum samskotum upp undir 100 þús. kr. Við athugun á því, hve miklu kauptúnið gæti staðið undir, hefur komið í ljós, að hámarksvatnsskattur, með því þó að leggja á hærra en l. leyfa, er 30–40 þús. kr. Það er því útilokað, að hægt sé að leggja í þetta nema með nokkrum styrk frá ríkissjóði til að færa niður stofnkostnaðinn. Mér þykir sjálfsagt að koma þessu máli á framfæri og vil taka fram, að mér virðist ekki, að öllu leyti rétt sú stefna, sem haldið hefur verið hingað til, að Alþingi neiti alveg um stuðning ríkisins við vatnsveitur, því að þær eru svo mikið menningarog heilbrigðismál, að það er fullkomlega jafnréttlætanlegt, að ríkið styðji þær, þar sem erfiðleikar eru miklir, eins og margt annað, sem ríkið hefur veitt stuðning.

Ég skal enn fremur taka fram, ef menn eru hræddir við það fordæmi, sem hér skapaðist, að eftir upplýsingum, sem ég hef fengið, þá eru ekki ýkjamörg kauptún, sem gætu farið fram á það sama vegna þess, að staðhættir væru þar svipaðir. Sem betur fer, hefur mikill meiri hluti kauptúna tiltölulega góða aðstöðu til að fá neyzluvatn. Eftir því sem vegamálastjóri hefur tjáð mér, byggt á athugunum, sem um það hafa farið fram, því að undir hann hafa þessi mál heyrt, þá mun versta ástandið á landinu í þessu efni vera i Stykkishólmi. Enn fremur mun það vera mjög slæmt á Hólmavík, og flytur hv. þm. Str. ásamt mér aðra till. um ríkisábyrgð fyrir þann stað: En þar er þó ólíku saman að jafna, þar sem stofnkostnaður er þar ekki nema brot af því, sem hann er í Stykkishólmi. Till. mín er annars vegar um 200 þús. kr. styrk og til vara 100. þús. og hins vegar ríkisábyrgð fyrir 400 þús. kr. láni. Hér er miðað við 3% vatnsskatt af fasteignamatsverði húsa, og má gera ráð fyrir, að þær rekstrartekjur vatnsveitunnar gætu fyllilega staðið undir slíku. Ég skal taka fram, að fasteignamatsverð húsa fyrir utan hraðfrystihúsin tvö er um ein millj. kr.

Fleiri brtt. flyt ég ekki, nema þar sem ég hef gerzt meðflm., og mun l. flm. gera grein fyrir þeim.