18.12.1944
Sameinað þing: 78. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 630 í B-deild Alþingistíðinda. (669)

143. mál, fjárlög 1945

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. — Ég hef aðeins flutt eina brtt. við fjárlfrv. Hún er á þskj. 740 og er þar sú XV. í röðinni. Þessi till. mín er um það, að veitt verði fé á næsta ári til að brúa Tjarnará á Vatnsnesi, 3/4 kostnaðar, 52500 kr. Ég skal geta þess, að við 2. umr. flutti ég till. um fjárveitingu til brúar á Tjarnará, 55 þús. kr., en við nánari athugun hef ég komizt að þeirri niðurstöðu, að þessi upphæð, sem ég nefndi hér, sé nægileg. Það er áætlað, að brúin kosti 70 þús. kr. alls, en vegna þess að þarna er ekki þjóðvegur, heldur sýsluvegur, á samkvæmt l. að leggja fram úr ríkissjóði aðeins 3/4 kostnaðar við að smíða brú af þessari stærð, og mun því nægja, að ríkissjóður leggi fram þessa upphæð, 52500 kr. Ég hafði óskað þess við fjvn., að hún tæki upp í till. sínar fjárframlag til þessarar brúargerðar, og hafði gert mér von um, að n. mundi fallast á það, m.a. með tilliti til þess, að það eru litlar fjárveitingar til verklegra framkvæmda í Vestur-Húnavatnssýslu borið saman við önnur héruð landsins. N. hefur ekki séð sér fært að taka upp þessa till., en vitanlega eru samt enn þá möguleikar til þess að koma þessu inn á fjárl., ef meiri hl. þm. vildi á það fallast. Ég skal geta þess, að á Vatnsnesi eru margar góðar jarðir, en vegir ófullkomnir, og veldur það þeim, sem þarna búa, miklum erfiðleikum, að á sú, sem hér um ræðir, er oft ófær bifreiðum.

Ég hef heyrt, að fjvn. hafi einkum miðað till. sínar um fjárframlög til verklegra framkvæmda í hinum ýmsu héruðum við það, sem veitt hefur verið á síðasta ári eða í síðustu fjárl. til slíkra hluta. Þó skilst mér, að eitthvað hafi verið vikið frá þessu, enda tel ég, að það geti verið rétt, því að það hlýtur að vera hæpið að stýra eingöngu eftir þeim kompás. Ef til vill er það líka svo um fjvn., að hún hafi komizt að þeirri niðurstöðu, að þörf sé á að fá betri áttavita og flytji því till. sína um að koma upp smiðju fyrir þá hluti. Ég skal geta þess út af þessari till. minni í sambandi við það, sem rætt hefur verið af hæstv. ráðh. um brúargerðir, að ég þykist viss um, að auðvelt mundi að fá verkamenn þarna í sýslunni til að vinna að þessari brúargerð, ef fjárveiting væri samþ., og hér er ekki heldur um svo mikið efni að ræða, að það mundi vera erfiðleikum bundið að fá það. — Ég sé ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð.

Hv. frsm., þm. Vestm., sagði áðan í ræðu sinni, að fjvn. hefði á það fallizt eða þótt rétt að taka inn í fjárlfrv. upphæðir bæði tekju- og gjaldamegin, sem ekki væru nú lögákveðnar. Átti hann þar við tekjuskattsaukann og einnig útgjaldahækkun vegna væntanlegrar samþykktar á launal. Hann sagði, að n. gerði þessar till., af því að það væri bundið fastmælum, að þessi frv. yrðu að l. Hvað sem um það má segja, þá held ég, að skoðanir séu áreiðanlega skiptar um réttmæti þess að hækka launagreiðslur svo mjög sem lagt er til í till. n. Enn er ekki hægt að sjá nákvæmlega fyrir, hvernig afgr. verður á þessu frv. En ég vil benda á, að ef það er rétt að taka þar inn aukin útgjöld vegna væntanlegrar samþykktar launalfrv., þá gildir það sama um þau útgjöld, sem leiðir af dýrtíðarfrv., sem nú liggur fyrir Ed. Það frv. er þó komið lengra áleiðis gegnum þingið en launalfrv., og mér skilst, að á sama hátt sé ákveðið af hæstv. stj., að það frv. verði að l. eins og hitt. Ég sé því ekki betur en það sé ósamræmi hjá n. að gera till. um, að útgjöld ríkisins af samþykkt launalfrv. verði tekin inn í fjárl., en útgjöldunum vegna dýrtíðarfrv. haldið utan við. Mér sýnist, að hér sé um fullkomið ósamræmi að ræða, en sé hins vegar ekki ástæðu til að hafa um það fleiri orð.