18.12.1944
Sameinað þing: 78. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 636 í B-deild Alþingistíðinda. (674)

143. mál, fjárlög 1945

Páll Zóphóníasson:

Ég vildi gjarnan leiðrétta misskilning milli mín og hv. frsm. (JJós) út af brtt. á þskj. 725, II. Það liggur ljóst fyrir eftir till. n., að hún ætlast til, að styrkirnir skiptist milli læknisvitjanasjóða, en ekki, eins og gert var ráð fyrir í fjárl. 1943, milli hreppa, sem enga læknisvitjanasjóði hafa. Ég felli mig við þetta, ef orðalaginu væri breytt. Ætlazt er til, að hreppar, sem styrks vilja njóta, komi sér upp læknavitjanasjóðum. Og um það er enginn ágreiningur. Hins vegar er það villandi að miða við fjárl. 1943, því að síðan hafa orðið til ný læknishéruð og tveim læknishéruðum hefur verið steypt saman. Við þetta hafa orðið óþarfir 7 læknisvitjanastyrkir. Stofnað hefur verið Borgarf jarðarhérað eystra, Stokkseyrarhérað, Borðeyrarhérað og Staðarstaðarhérað. (HelgJ: Er ekki frv. hér um það að fresta þessum l.?) Ég veit ekkert um framgang þess frv. Hins vegar hefur verið stofnað Egilsstaðahérað, sem er eitt stærsta hérað landsins, svo að úr sumum hreppum þar er læknisvitjunarleið á annað hundrað km. Þeir hreppar geta ekki komið til greina með að fá styrk samkv. tilvitnun í fjárlfrv. 1943. Þess vegna vil ég breyta orðalagi till. Það á ekki við að láta Borgarfjarðarhérað hafa 600 kr. styrk, ef læknir kemur þar, en fáist ekki læknir, þá fá þeir sem svarar læknislaunum til þess að sækja lækni til Seyðisfjarðar. Berum þetta saman við t.d. Barðastrandarsýslu. Þar eru, ef ég man rétt, tveir læknisvitjanastyrkir, að vísu smáir, en engar vegalengdir þar eru sambærilegar við það, sem er í Egilsstaðahéraði. Ég skil ekki í því, að n. öll hafi getað orðið ásátt um þetta, sem nm. skilja hver út af fyrir sig.

Þá langar mig til að segja nokkur orð út af ræðu hæstv. fjmrh. — Þegar hann talaði um fjárhagshorfurnar fyrir næsta ár, gætti þar mikillar óvissu. Það var mjög mikil óvissa um það, hve miklar útflutningsuppbæturnar yrðu, og óvíst, hvað skattafrv. mundi gefa. En tvennt var þó hæstv. ráðh. viss um. Annað var það, að alveg þýðingarlaust væri að reyna samkomulag um kaup á Egilsstöðum. En það hefur ekki verið reynt. En því ekki að reyna það, áður en farið er inn á eignarnámsleiðina? Við, sem stöndum að þessari till. um að leita nú þegar samkomulags um sölu, teljum þá leið miklu æskilegri. Hv. þm. Barð. talaði um það, að hann hefði leigt lóðir ákaflega ódýrt á Bíldudal, en ekki veit ég, hvort það færir okkur nokkuð nær lausninni á Egilsstöðum. Ég veit ekki betur en ríkið sé nú byrjað að byggja þar læknisbústað og sjúkraskýli. Og þar á dýralæknirinn einnig að vera, og ríkið reisir bústað hans. Ríkisstj. hefur ekki reynt að semja um leigu fyrir lóðir undir þessar byggingar. Og fimm menn ætla að byggja þar í vor og hafa útvegað sér efni, en hafa frestað að semja um lóðaleigu í þeirri von. að ríkið muni ná heildarsamningum.

Hitt, sem ráðh. var viss um, var, að það kæmi ekki til greina, að nýtt skip fengist til strandferða á þessu ári. Það vissi hann. En hvað mikið mundi þurfa í útflutningsuppbætur, það vissi hann ekki. En þótt friður komi eftir mánuð, þá vissi hann, að ekkert þýddi að samþ. heimild til kaupa á strandferðaskipi. Menn sjá mislangt inn í framtíðina. Við getum hrósað happi að eiga fjmrh., sem sér svona langt fram í tímann. Ég man ekki betur en Morgunblaðið sýndi mynd af skipi, sem talið var hægt að fá og virtist vel fallið til strandferða. Var Morgunblaðið og greinarhöf., sem er flokksmaður hæstv. ráðh., bara að brúka munn, fyrst ríkisstj. er svona viss, að hún vill frábiðja sér heimild til þess að mega kaupa skip, ef það kynni nú að fást? Ef ríkisstj. vildi neita því með rökum; sem í Morgunblaðinu er haldið fram um þetta, eða ef stj. játar, að hún hugsar svona lítið um fólkið úti í dreifbýlinu, kynni að mega skilja það. En að það sé fullvíst, að ekki fáist skip á næsta ári, það fæ ég ekki skilið.

Að síðustu vildi ég skýra hv. þm. Barð. frá því, meir í gamni en alvöru, ef það hefur nokkur áhrif á hann, að það er alveg rétt, að kominn er hringvegur í þjóðvegatölu í Svarfaðardal, og af því að það er hringvegur, vill hann ekki láta brúna koma. En þá skal hann gá að því, að fyrir 1920 var byrjað á veginum frá Dalvík af sjálfboðaliðum, og þannig er vegurinn lagður alla leið að Hreiðarsstöðum eða 18 km. Við þessum vegi tók svo ríkið. Ef hv. þm. Barð. getur nefnt mér sams konar fórnarvilja til að fá veg einhvers staðar í allri Barðastrandarsýslu, hvar sem vera skal, þá á sá vegur skilið að fá stuðning á móti, ef 18 km vegur hefur verið lagður upphleyptur með sjálfboðavinnu, áður en hann er tekinn í þjóðvegatölu. Ef slíkt væri fyrir hendi í Barðastrandarsýslu, mundu vegir vera þar betri, en nú eru þar fáir vegir góðir, heldur mestmegnis lélegir ruðningar.