18.12.1944
Sameinað þing: 78. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 641 í B-deild Alþingistíðinda. (677)

143. mál, fjárlög 1945

Steingrímur Aðalsteinsson:

Herra forseti: — Ég skal nú ekki teygja þessar umr. með löngu máli, vil aðeins segja örfá orð.

Við 2. umr. fjárl. flutti ég hér brtt., sem ég tók þá aftur við atkvgr. til þessarar umr. Hv. fjvn. hefur tekið eina þessara till. upp, að vísu þá, sem minnst útgjöld hafði í för með sér, en það var 500 kr. hækkun á styrk til leikskóla Jóns Norðfjörðs. Ég er hv. fjvn. þakklátur fyrir það, að hún fellst á þessa till., ekki fyrst og fremst vegna fjárhæðarinnar, heldur vegna hins, að menn, sem starfa að leikkennslu úti um land, séu ekki síður styrktir en þeir, sem stunda slíka kennslu hér í höfuðborginni.

Þá hefur hv. fjvn. líka sýnt vilja til þess að styðja brtt. um fjárframlag til hafnargerðar á Akureyri. Að vísu hefur hún aðeins tekið upp 50 þús. kr. í stað 300 þús. kr. Ég er þó þakklátur fyrir þetta, því að í fyrsta lagi er viðurkennt, að Akureyri hafi rétt til nokkurs af því fé, sem ríkið leggur fram til þeirra hluta á næstu árum, og líka opnast möguleiki fyrir Akureyri að fá lán hjá hafnarbótasjóði, ef hann verður notaður til þess að flýta fyrir hafnarmannvirkjum, umfram það, sem fé veitt á fjárl. hrekkur til. Hv. frsm. fjvn. gat um það, að enn lægi ekki fyrir fullnaðarsamþykki trúnaðarmanna ríkisins fyrir þessari hafnargerð á Akureyri og þess vegna eðlilegt, að fjvn. mæli ekki með hærri fjárveitingu að sinni. Ég vil geta þess, að það er í raun og veru ekki að öllu leyti sök bæjarstjórnar Akureyrar, að þessi dráttur varð. Í fyrra vetur voru þessi mál rædd við skipulagsn. ríkisins og vitamálastjóra, á þá leið að fella þessi hafnarmannvirki inn í skipulag á þeim hluta bæjarins, sem enn er óbyggður. Á þetta féllst vitamálastjóri, og síðar í sumar samþ. bæjarstjórn Akureyrar fyrir sitt leyti gerð hafnarmannvirkjanna sjálfra og sérstaka gerð hafnargarðanna og sendi till. sínar og uppdrætti til vitamálastjóra, en hefur ekki enn fengið afgreiðslu eða svar. Hins vegar sagði vitamálastjórinn mér í dag, að hann væri búinn að afgreiða þetta, og féllst á þá gerð mannvirkjanna fyrir sitt leyti. En samgmrh. hefur enn ekki haft tíma til að athuga umsögn vitamálastjóra, og þess vegna hefur bæjarstjórn Akureyrar ekki fengið svar enn við till. sínum. En ég held, að niðurstaðan verði sú, að fallizt verði á till. hennar um þetta og framkvæmdir þurfi ekki að tefjast af þeim sökum, úr því sem nú er komið. Vænti ég þess einnig, að á grundvelli þeirrar viðurkenningar, sem hv. fjvn. hefur veitt með því að taka hafnargerð á Akureyri upp í fjárl., opnist möguleikar til þess, að þessum framkvæmdum verði haldið áfram á næsta ári, eins og bæjarstjórnin telur sig geta komið þeim áleiðis. Ég hef þess vegna sætt mig við þessa till. fjvn. og ekki komið aftur með till. mína, er ég bar fram við 2. umr. um þetta efni.

Einnig hef ég sleppt till. mínum um aukið framlag til húsmæðraskóla eða sjúkrahúsbyggingar, en vil ítreka enn, að a.m.k. hvað húsmæðraskólann snertir, eru framkvæmdir svo langt komnar, að byggingu skólans verður lokið á næsta ári, þannig að sú upphæð, sem í fjárl. er veitt til þess, svarar ekki til þeirra gjalda, sem ríkið að l. er bundið til að leggja fram. En afleiðingin verður auðvitað aðeins sú, að þá upphæð verður ríkið að leggja fram síðar, og hlýtur þá að koma í hærra framlagi á fjárl. ársins 1946, þegar að því kemur. Sömuleiðis mun væntanlega verða um framkvæmdir sjúkrahúsbyggingarinnar á Akureyri.

Hins vegar hef ég leyft mér að taka upp aftur till., sem ég flutti við 2. umr., um framlag ríkisins til vatnsveitu Glerárþorps. Fjvn. hefur ekki séð sér fært að sinna þeirri till., en eins og ég gerði grein fyrir við 2. umr., stendur mjög sérstaklega á um þessar framkvæmdir. Þær hafa orðið miklu dýrari en við var búizt, þegar í þær var ráðizt, og þar eð þeir menn, sem þarna eiga hlut að máli, eru mjög fátækir, eiga þeir mjög erfitt með að standa undir þeim kostnaði, sem af þessu leiðir. Í árslok 1942, þegar þetta verk var komið lítt áleiðis, sendi vatnsveitufélagið erindi til Alþ. um 20 þús. kr. styrk til þessara framkvæmda, en af óviðráðanlegum ástæðum varð verkið dýrara en við var búizt, og sendu þorpsbúar því nýtt erindi til Alþ., dags. 2. okt. s.l., þar sem þeir sendu grg. yfir sundurliðaðan kostnað þess, og fara þar fram á 50 þús. kr. — Þessi till. mín er því miðuð við að verða við þessari ósk vatnsveitufélagsins. Nú geri ég ráð fyrir því, að litlar líkur séu til þess, að öll þessi fjárhæð fáist samþ., og mun ég því leggja fram skriflega brtt. ásamt báðum hv. þm. Eyf.„ sem hv. 1. þm. Eyf. lýsti hér í kvöld. (Forseti: Till. liggur þegar hér fyrir.) Er hún — varatill., ef þessi till. mín verður felld, þannig að þá verði veittar í staðinn 20 þús. kr. í þessu skyni. Ég veit, að það þýðir ekki að spá neinu um afdrif þessarar till., en ég vildi mega vona, að a.m.k. þessi varatill. yrði samþ.

Ég vil ekki, af því að áliðið er orðið, endurtaka það, sem ég sagði um þetta mál við 2. umr., en vil þó aðeins minna á það, að í þetta var ráðizt af fátækum þorpsbúum af sérstakri nauðsyn og m.a. vegna þess, að bæði fyrrv. héraðslæknir og eins núv. töldu, að vatnsbólið væri svo varasamt heilbrigði manna, og vegna þeirrar nauðsynjar, ekki aðeins til þess að auka þægindi, heldur af heilbrigðisástæðum, — hafa þessir fátæku menn ráðizt í þessar framkvæmdir og reist sér bagga, sem þeim hefur reynzt mjög erfitt af standa undir, ef þeir fá enga hjálp. Vil ég því vona, að hv. Alþ. vilji létta undir þennan bagga, sem mun verða þeim nægilega þungur samt.