18.12.1944
Sameinað þing: 78. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 644 í B-deild Alþingistíðinda. (679)

143. mál, fjárlög 1945

Gísli Jónsson:

Ég vil leyfa mér að þakka hæstv. forseta fyrir að gefa mér tækifæri til þess að svara hv. 2. þm. N.-M. nokkrum orðum.

Hv. þm. lofaði því að veita fylgi sitt till. mínum, ef ég gæti fært sönnur á, að í umdæmi mínu hefðu verið færðar fórnir eins og í Svarfaðardal.

Um aldamótin síðustu lögðu Geirdælingar veg um hreppinn, og er það fyrsti upphleypti vegurinn í sýslunni, og gerðu það algerlega á sinn kostnað. Síðan tók ríkið við þessum vegi, — ekki til þess að halda áfram, heldur aðeins til þess að halda honum við. Hefur þetta viðhald verið mjög takmarkað, og er vegurinn nú í miklu verra ástandi en meðan hreppurinn hafði veginn á sinni hendi.

Í Múlahreppnum hafa hinir fámennu og fátæku bændur lagt talsvert mikla vinnu fram og auk þess fé frá hreppnum, þar sem ekki hefur fengizt nema lítilfjörlegur styrkur til þessa vegar úr ríkissjóði. (PZ: Það eru ruðningar.)

Íbúar Rauðasandshrepps lögðu s.l. ár fram að heita mátti alla vegavinnu sem gjöf og greiddu tvöfalda upphæð úr hreppssjóði á móti ríkissjóði til þess að geta fengið svolitla upphæð úr ríkissjóði. — Hið sama má segja um íbúa Ketildalahrepps, að þeir byrjuðu á sinni vegagerð og lögðu mikið til síns vegar, þar til hann var tekinn í þjóðvegatölu. — Þá hygg ég, að hv. 2. þm. N.-M. hafi verið færðar nægilegar sönnur á, að á þessum slóðum hafa líka verið færðar fórnir.

Það hefði verið ástæða til þess að svara hv. 1. þm. Rang., en ég ætla ekki að íþyngja þolinmæði hæstv. forseta með því.

Þó vil ég aðeins minnast á eitt atriði enn þá, og er það í sambandi við þál. frá síðasta þ., er þá var gerð um Krýsuvíkurleiðina, en þá var ákveðið að verja á fjárl. 1944 500 þús. kr. í þessu skyni. Ég fyrir mína parta lít svo á, að þegar nú sé ákveðið á fjárl. 1945, að 750 þús. kr. eigi að fara til Krýsuvíkurvegarins, þá séu þar með taldar þessar 500 þús. kr., sem knúnar voru fram af miklum krafti í fyrra, m. a,. af hv. 1. þm. Rang., til þess að þær yrðu settar inn í fjárl. 1944, þannig að ekki sé átt við það hér, að nú sé verið að veita 750 þús. kr. fyrir utan þessar 500 þús. frá í fyrra, heldur nú af fjárl. 1945 eigi aðeins að veita 250 þús. kr. til þessa vegar. Hæstv. ríkisstj. ætti því nú að hafa þessar 500 þús. kr. af tekjuafgangi ársins 1944, sem væntanlega verða settar í veginn á árinu 1945, eins og hv. 1. þm. Rang. vildi hafa það.