21.11.1944
Efri deild: 72. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 326 í B-deild Alþingistíðinda. (68)

183. mál, nýbyggingarráð

Jónas Jónsson:

Herra forseti. — Ég er ekki alveg sammála hv. þm. Str. í því, að það sé ástæða til að láta mál þetta fara með lítilli athugun og litlum umr. gegnum þessa hv. þd., þó að það séu kannske nokkuð miklar líkur til þess, að það sé ásetningur einhvers þingmeirihluta, að það eigi svo að fara. Til þess er þessi hv. d. og hv. þingdeildir, að þær athugi málin án tillits til þess, að niðurstaðan er sú, að stjfrv. ganga oftast fram. Og það er venja að láta þau frv. fá allmikla athugun á hæstv. Alþ., og því meiri ástæða er til þess sem frv. eru nýstárlegri.

Þegar ég vissi, að það átti að taka þetta mál til umr. nú í dag hér í hv. d., svo skyndilega eftir afgreiðslu þess í hv. Nd., þá varð mér á að líta í gamla bók eftir einn af okkar frægustu sagnfræðingum, þar sem sagt er frá einum fornkappa í Noregi, sem að mörgu leyti hafði þar í landi ekki ólíka aðstöðu og hæstv. forsrh. hefur hér nú. Það er sagt frá því í Snorra, að þegar Haraldur konungur hárfagri hafði lagt undir sig lönd og lýði og stóð á hátindi veldis síns, ekki ólíkt og hæstv. forsrh. (ÓTh) nú, eftir þá miklu sigra, sem hann hefur unnið í sambandi við stjórnarmyndunina, svo að ekki séu taldir eldri sigrar, þá er það einn daginn, að konungur gengur út fyrir eina borgina, og þegar hann kemur að lítilli brekku, kemur þar á móti honum fögur kona, Snæfríður að nafni, er virðist hafa verið austræn og með þá austrænu kunnáttu, sem Norðmenn þóttust verða varir við í ferðum sínum í austurveg. Eins og Snorri lýsir því, fer eldhiti um sál konungs við þessa sjón, sem Snorri svo útskýrir nokkru nánar, og er skemmst frá því að segja, að konungur vill giftast þessum kvenmanni strax. Og eftir hæfilegt umstang tekst honum það. Svo líður nokkuð og á þann hátt, að það verða til nokkur afkvæmi — sem ekki er í frásögur færandi — upp úr þessu svona hastarlega stofnaða hjónabandi. — En það, sem verra er, er það, að konungur sinnir ekki verkum sínum. Hann er svo upptekinn af þessu nýja sambandi, að hann gleymir alveg að stjórna landinu. Og helztu menn landsins — eins og hér mætti tala um helztu menn flokksins — töldu þetta óhæfu mikla og vildu fá konung til þess að gæta betur sinna daglegu starfa. En það verður ekki strax, og þeir vita ekki, hvert stefnir. En þá vill svo vel til — fyrir landinu — sem ég vil ekki draga líkingu af hér upp á nokkurn pólitískan flokk — að Snæfríður deyr; hún fölnar og er eins fögur í sænginni eins og áður var hún lifandi. Konungur horfir á hana og gleymir enn öllu, sem hann á að gera, þangað til læknir kemur og segir, að það dugi ekki að horfa alltaf á líkið, það sé ekki honum sæmandi. Og drottningu sé ekki sæmandi annað en að hreyfa hana eitthvað til í rúminu. En þegar það var gert, lízt konungi ekkert á, því að þetta var þá ekkert annað en ormar og pöddur. Og þá sættir konungur sig við, að með þá dánu sé farið að venjulegum hætti. — Kom þá fram, að þar höfðu verið galdrar nokkrir í, eins og um allt samband konungs við þessa konu. — En eftir þetta lagði konungur nokkra fæð á þau börn, sem hann hafði átt með Snæfríði, þannig að það var ekki vel viðkunnanlegt. Og þá bendir einn vinur hans honum á, að þetta eigi hann ekki að gera, því að það sé ekki börnunum að kenna, þótt eitthvað sé að þeim. Hann hefði getað tryggt þeim betra móðerni. Og við það sat.

Ég vildi leyfa mér að heimfæra þessa sögu nokkuð upp á sambandið milli Sjálfstfl. og Kommúnistafl. sérstaklega. Og þetta frv., sem hér liggur fyrir, virðist mér eitt af afkvæmum þeim, sem hæstv. forsrh. e.t.v. hefði getað útvegað sér hentugra móðerni að, ef svo mætti að orði kveða í líkingamáli.

Það, sem liggur fyrir í þessu frv., sem hér er til umr., er hvorki meira né minna en það, eftir bókstafsins hljóðan, að það á að gerast alger bylting í íslenzku atvinnulífi og stjórnarháttum. Og það er ekki aðeins það, heldur hefur Sjálfstfl. með forsrh. sínum í þessu efni algerlega gengið frá öllum atriðum sinnar stefnu og ekki miður en Haraldur hárfagri gekk frá sinni stjórnarstefnu, þegar hann gætti ekki skyldu sinnar fyrir hinum austrænu áhrifum. — Ég var nýlega að lesa grein, sem ég rakst á af tilviljun, eftir núverandi útvarpsstjóra, sem hann skrifaði um mannfund, sem hæstv. forsrh. og fleiri, þar á meðal ég, tóku þátt í austur í Skaftafellssýslu fyrir nokkrum árum. Þar lýsti núverandi forsrh. og Jón heitinn Þorláksson stefnu sjálfstæðismanna þannig, að ef henni væri fylgt enn þá, mundi ekki einn stafur standa eftir af frv. því, sem hér liggur fyrir. Í þessum ræðum austur í Skaftafellssýslu lögðu þessir forkólfar Sjálfstfl. höfuðáherzlu á, að stefna flokksins væri að láta einkaframtakið ráða. Þeir reyndu þá og að sýna fram á það í þingræðum og allri meðferð mála, að ekkert væri á annað að treysta, það væri farsælast. Hitt, að fjötra einkaframtakið, væri sama og að lama þjóðlífið og í raun og veru að tortíma þjóðinni.

Nú býzt ég við, að hæstv. forsrh. og félagar hans muni alls ekki mæla á móti því, að þetta hafi verið þeirra stefna til mjög skamms tíma. Og þá kemur spurningin: Hvað hefur komið fyrir, sem gerir það að verkum, að meginhluti Sjálfstfl. og ekki sízt leiðtogi hans, Ólafur Thors, hefur gersamlega snúið frá sinni fyrri stefnu og tekið upp málsmeðferð, sem er algerlega jafnframandi fyrir þeirra flokk og þeirra fortíð eins og þessi ráðahagur Haraldar hárfagra var fyrir hann sem Norðmann og konung?

Það er gert ráð fyrir því hér í þessu frv. að setja upp nefnd manna, sem eigi að hafa vald, eða það virðist vera gefið í skyn, að hún eigi að hafa vald til að umsnúa atvinnulífi þjóðarinnar og breyta úr einkarekstri í þjóðarrekstur. Og þetta er gert án þess að um það hafi áður farið fram nokkrar opinberar umr. Ég hef fylgzt það með blöðum sjálfstæðismanna og því, sem gerzt hefur á almennum fundum, að ég fullyrði, að þar hafa aldrei komið fram ályktanir eða annað, sem réttlæti það að snúa svo skyndilega frá hinni gömlu stefnu Sjálfstfl., sem er líka stefna Framsfl. og hefur verið stefna allra Íslendinga fram til skamms tíma, að gera ráð fyrir, að atvinnureksturinn sé í höndum einstaklinga, en ekki í höndum þjóðfélagsins. — Ef ég reyni að skýra það fyrir mér, verður mér fyrst að lita á þennan bæ, Reykjavík, þar sem búa nú eitthvað yfir 40 þús. manns og þar sem er mikill hluti af leiðandi mönnum Sjálfstfl., margir þm. hans o.s.frv. Og það er einmitt þessi bær, sem að öllum líkindum á að njóta sérstaklega þeirrar blessunar, sem hér er farið fram á með ráðstöfunum þessa frv. En hér í bæ er ekki sýnilegt neitt, sem bendi á það, að hér sé allt í einu orðið svo dáðlaust fólk, atvinnurekendur og aðrir menn, að þeir geti ekki rekið neina atvinnu, en verði að vera eins konar niðursetningar á þjóðarbúinu. Ef gengið er um bæinn, sést mikið af fögrum húsum, sem eru íbúðarhús þessara manna í hundraðatali. Ýmsar stórbyggingar eru og hér, sem hefur verið komið upp og þær notaðar fyrir iðnaðinn. Og ef litið er á bankana, standa þar inneignir, sem að vísu eru aðallega eign almennings, en ekki nokkurra stórlaxa. En þær eru það mikið fjármagn, að það er ekki ástæða til að halda, að allt í einu þurfi eigendur þessa fjármagns að segja: Við erum ómagar og við verðum að gefast upp. Ég sé ekki, að nokkur hlutur bendi til þess, að atvinnulífið sé þannig, að það þurfi að fara að umsnúa því. Það eru ekki sýnileg úrkynjunarmerki á fólkinu, og það er ekki hægt að tala um fátækt. Þetta virðist því alveg vera ófyrirsynju umhyggja hjá hæstv. ríkisstj. að ætla nú allt í einu að fara að umturna atvinnufyrirkomulaginu í landinu eins og hér virðist gert ráð fyrir í frv.

Ég kem svo að öðru, sem í raun og veru virðist liggja hér á bak við línurnar í þessu frv., og það er það, að svo mikill munur á nú, samkv. þessum reglum, að vera á milli sveitanna annars vegar og Reykjavíkur hins vegar. Því það er gert ráð fyrir, að 1/6 hluti af því fjármagni, sem hér er um að ræða og á að taka á þann hátt, sem mér finnst ekki skemmtilegur, eigi að ganga til nýsköpunar í sveitunum, en 5/6 hlutar annað. Og ef að líkindum ræður, þar sem aðstreymið er svo mjög til Reykjavíkur, þá hlýtur þetta að enda þannig, ef stefna frv. er framkvæmd, að þessir stóru hlutir gerast aðeins í Reykjavík. Mér er tjáð, að úr stærstu kaupstöðum landsins utan Reykjavíkur, frá Akureyri, Vestmannaeyjum og Ísafirði, liggi straumurinn þaðan og hingað til Reykjavíkur. Ég hef rekizt á ungt fólk, sem segir: Við getum ekki verið á þessum stöðum, þeir eru svo leiðinlegir. Og ef litið er á þennan straum, þá er víst, að það þarf að byggja yfir mikinn hluta af Íslendingum hér í Reykjavík og kannske þá að Hafnarfirði meðtöldum. Og þar sem tvennt er að verki, annars vegar þessi fólksstraumur til Reykjavíkur, sem hefur orðið vart við, kannske í sambandi við setuliðið, sem hefur dregið fólk hingað, án þess að séð verði, að það eigi hingað erindi, og svo eru hins vegar þær framkvæmdir, sem talað er um, ef hér á að byggja mörg hundruð íbúðarhús á ári og hvergi annars staðar, og ef fjárframlög verða lögð í ný atvinnufyrirtæki hér, — þegar þetta tvennt er athugað, þá er bókstaflega ekki hægt fyrir Íslendinga annað en að fara hingað til Reykjavíkur eða Hafnarfjarðar.

Nú vil ég spyrja hæstv. forsrh., hvort hann viti nokkuð um skipun á þessum málum í öðrum löndum, þannig að af því tilefni álíti hann heppilegt að vera að soga ekki aðeins fólkið úr sveitunum hingað til Reykjavíkur, heldur líka úr minni kaupstöðunum úti um landið, og svo eigi með þjóðnýtingu og þjóðarrekstri að framfæra það hér eða skapa því einhverja atvinnu hér. Ég veit ekki til þess, að leiðandi menn í nokkru landi blessi þetta, og mín skoðun er, að slíkt væri böl. Í Kaupmannahöfn veit ég ekki betur en að ýmsir menn mjög mikilhæfir álíti þetta alveg óeðlilegt, að fólkið sogist svo mjög til stærstu staðanna. Ég talaði um þetta við nokkra merka menn danska fyrir stríð. — Ef það er svo, að Reykvíkingar geti ekki með frumkvæði einstaklinga skapað atvinnu fyrir fólkið, sem er hér, þá eru það í sjálfu sér mjög vafasamar velgerðir við þjóðfélagið að soga fólkið hingað í raun og veru á ábyrgð alls landsins. Því að auðvitað stendur þjóðin öll að þessu verki, sem hér er um að ræða, og það er hún, sem verður svo að líða fyrir afleiðingarnar. Og ef á að byggja mörg hundruð íbúðir á ári, þá er það ekki af því, að svo fáar íbúðir séu til á landinu, vegna þess að í mörgum sveitum og kauptúnum er ákaflega mikið af íbúðarrúmi í húsum autt, af því að það vantar fólk í húsin. Húsin eru þar oft svo köld og óvistleg fyrir það, að þau eru ekki notuð. — Þetta á, sem sagt, eftir því sem fram virðist koma hjá hæstv. ríkisstjórn, að ganga þannig: Við eigum að byggja yfir fólkið hér í Reykjavík, og svo, þegar það er búið, þá eigum við að búa til handa því atvinnu, sem ekki er þó víst, hversu lánast.

Ég vildi um leið spyrja hæstv. ráðh., af því að það kemur nokkuð nærri þessu spursmáli, hvað ríkisstjórnin meini með því að láta taka út úr fjárl. nokkra upphæð, sem ætluð var til áburðarverksmiðju. Það stóð í fjárl. upphæð til þessa áður, og ef svo hefði verið gert um 1–2 ár, þá væru möguleikar fyrir því, að ríkið tæki þann hluta í sínar hendur. Og þótt ég sé ekki hrifinn af allsherjar þjóðnýtingu, þá virðist mér ekki geta komið til mála, að ríkið heykist á því fyrirtæki, af því að það er ekki fyrir sveitamenn eina. Að hafa hér áburðarverksmiðju og tryggja þar með, að við þurfum ekki að kaupa allt of dýran áburð, er í raun og veru ein hin mesta trygging fyrir því, að fólkið geti lifað úti í sveitum landsins, og í raun og veru bæjarfólkið líka og ekki síður. En ef það er svo, að hæstv. ríkisstj. ætlar að víkja frá þessum grundvelli að leggja til hliðar á fjárl. fé í slíka verksmiðju og fara út á einhvern ímyndaðan vonagrundvöll, þá er það slæmt merki, því að í bezta tilfelli yrði slík verksmiðja þá reist með lánsfé.

Ég tek þetta fram, af því að mér finnst þetta geta bent á, að hæstv. stj. ætli sér að þrengja að kosti sveitanna með þessum hætti.

Ég kem þá að því, sem er eðlilegt að talað sé um hér í Reykjavík, af því að þessi nýsköpun yrði að mestu leyti hér. Það er þá fyrst gert ráð fyrir, að þjóðbankinn fái nýja yfirbankastjórn, sem taki af honum yfirráðin yfir meginhlutanum af því fé, sem hann hefur yfir að ráða. Það hefur verið gengið svo frá því, að allir flokkar og stéttir ættu þar fulltrúa, og það hefur ekki sízt verið gert með samþykki hæstv. núverandi forsrh., að þessi stofnun væri undir stjórn fulltrúa frá öllum flokkum. Þess vegna er það undarleg afstaða af hans hálfu að koma með einhverja menn utan úr bæ, eins og sagt er, sem eiga að taka þarna æðstu yfirráð. Það getur vel verið, að það verði menn, sem hafa ekki minnstu eðlilega aðstöðu til að verða þarna yfirbankastjórar, sem eiga að ráðstafa mörgum hundruð millj. kr. Þetta er þá fyrsta atriðið, að taka af bankanum meginhlutann af fé hans og setja það undir stjórn annarra manna. Þá er það, hvort Landsbankinn hafi brotið af sér gagnvart þjóðinni með sérstakri ógætni eða hvort ólíklegt er, að hann geti ráðstafað þessu fé eins og öðru, sem honum er trúað fyrir.

Þá kem ég að öðru, sem er enn þá meiri kjarni í málinu, og það er, að þessi nýja bankastjórn á aðallega að annast yfirfærslur. Þegar farið er að kaupa þessi nýju atvinnutæki frá útlöndum, þá getur þessi nýja bankastjórn að svo stöddu ekki gert mikið annað en að segja: Þið fáið leyfi til að nota þessa peninga erlendis. Þetta er mikið vald, en það er þó ekki nóg, því að til þess að geta fengið þessa peninga erlendis, sem er sama og sparifé landsmanna, verður að fá það í íslenzkum krónum. Og þá er það sennilega ekki alltaf, sem einstakir menn, sem eiga inni í bankanum, segja: Við viljum lána t.d. 4 millj. í þetta skip. Það getur orðið erfitt að fá þetta leyfi, og ef það fæst ekki, þá er spursmálið: Ef á að taka þetta í íslenzkum krónum, verður þá ekki að þrýsta á bankann? (Fjmrh.: Hefur það verið vani að spyrja eigendurna?) Það hefur aldrei verið til slík n. eins og hér er gert ráð fyrir, og það hefur aldrei fyrr dottið nokkrum þm. í hug að taka fé með þessum hætti undan ráðstöfunarrétti bankans, og þess vegna geri ég ráð fyrir, að hæstv. stj. verði að taka féð og jafnvel beita þvingunarráðstöfunum. Og að þessi hugsun liggur ekki fjarri hæstv. ríkisstj., sést á því, að samkvæmt málefnasamningi stjórnarflokkanna er gert ráð fyrir, að til mála geti komið að beita þvingunarráðstöfunum til að fá menn til að leggja fé í þessi fyrirtæki. Þetta hefur aldrei áður verið gert hér á landi, svo að ég viti. Það var gert í Þýzkalandi og einnig í Rússlandi, en með öðru móti. Í Þýzkalandi sendi nazistastjórnin inn á skrifstofurnar til mannanna, sem þar unnu, og við þá var sagt: Þér hafið ekkert lagt í ríkisskuldabréf, þér eigið peninga, það er ætlazt til, að þér leggið þetta fé fram. Þessi partur í prógrammi hæstv. stj. hefur vakið nokkra undrun hjá landsmönnum, af því að með þessu virðist, að við séum komnir inn á annan grundvöll en þann, sem okkar þjóðskipulag er byggt á. Það lítur að vísu út fyrir, að þeir séu nú ekki allfáir, sem láta sér þetta vel líka, og það hefur mikið borið á þessum mönnum, og þeirra hrifning hefur mjög verið auglýst af hæstv. stj. bæði í útvarpinu og annars staðar. En samt getur orðið vafasamt, hvort þessi vinátta og ánægja muni verða nóg til að koma til leiðar þessum framkvæmdum, ef fólkið í landinu, sem á féð og á að búa við þessi fyrirtæki, treystir ekki þessum fyrirtækjum. Hvers vegna eru hér nú ekki nema fáir mótorbátar? Ég held, að „Jón Þorláksson“ sé af einhverri virðingu örlaganna gerður út frá Reykjavík til minningar um þennan mikla forkólf samkeppnisstefnunnar, en annars hafa þeir flestir horfið, togurunum fækkað sömuleiðis og línubátunum líka. Af hverju? Fólkið hefur streymt til Reykjavíkur, því hefur þótt skemmtilegt að vera hérna, það hefur fengið atvinnu hér, en atvinnurekendurnir hafa farið héðan. Hvers vegna? Af því að það er ekki eins gott fyrir atvinnurekendurna að vera hér eins og okkur hina. Þeir hafa farið héðan, af því að dýrtíðin í bænum hefur gert þeim hartnær ómögulegt að starfa hér. Hæstv. forsrh. veit vel, að ekki aðeins hans fyrirtæki, heldur einnig mörg fleiri, hafa á öllu tímabilinu 1930–1940 verið að sligast undir þunganum við framleiðsluna. Það var sama, hvernig framleiðendurnir hafa farið að, það hefur ekki verið hægt að ná endum saman. Reykjavík hefur verið of dýr bær, þess vegna hefur framleiðslan flúið héðan burt, líka á síðustu árum, þegar hér hefur þó verið nokkur fölsk velgengni.

Því hefur verið haldið fram, m.a. af sjálfstæðisblaðinu Vísi, að þessar miklu framkvæmdir, sem hér eru hugsaðar, yrðu ekki að neinu, þeir, sem keyptu þessi atvinnutæki, mundu ekki geta rekið þau, af því að kostnaðurinn yrði svo mikill. Þetta er rökstuðningur fyrir því, sem ég segi, að útgerðarmönnum í Reykjavík er vel kunnugt, hvað það er að ætla að stunda framleiðslu í Reykjavík í þrássi við dýrtíðina. En þá hafa hinir mjög siglandi og mörgu vinir hæstv. stj. sagt, að það geri . ekkert til, þó að dýrtíðin sé mikil, af því að við ætlum að hafa svo góð framleiðslutæki, og þess vegna sé allt í lagi: Við skulum þá hugsa okkur fyrst og fremst skipin og allt, sem að þeim lýtur. Eftir stríðið er vitanlegt, að við eigum á fiskmarkaðinum tvo hættulega keppinauta, Norðmenn og Breta. Hvað bendir þá til, að við eftir stríðið höfum betri og fullkomnari skip en þeir? Við getum ekki byggt okkar skip sjálfir, en það geta þeir og hafa til þess margfalt betri aðstöðu en við. Við getum því ekki hugsað okkur lengra en að hafa jafngóð skip og þeir, og þá er eftir munurinn á dýrtíðinni. Eitt dagsverk, sem kostar nú hjá okkur 50 kr., kostar í Englandi 15 kr. og í Svíþjóð 20 kr. Við vitum ekki um Noreg, en það er engin ástæða til að ætla, að þeir láti stinga sig út með dýrtíð, sem leggja þar í atvinnurekstur. Þeir byrja neðst niðri eftir þá eyðileggingu, sem þar hefur orðið. Við getum ekki gengið lengra en að segja, að við munum hafa jafngóð skip og þeir, enn eigum við eftir að mæta okkar dýrtíð, sem leggst á okkar framleiðslu með þeim þunga, sem ég er búinn að benda á, og þá er komið að atriði, sem erfitt er að ráða fram úr, að við með svona aðstöðu hljótum að lenda í samkeppni við aðrar þjóðir, sem eru okkur að ýmsu leyti voldugri, sérstaklega önnur, sem hefur markaði heima í sínu eigin landi. Þetta er atriði, sem verður ekki leyst, nema við getum ráðið bót á okkar dýrtíð. Sjálfstfl. er nokkuð skiptur um þetta mál. Annað aðalblað flokksins heldur því fram, að hægt sé að jafna þennan mun, en hitt heldur fram, að það verði að lækka dýrtíðina, og virðist mér, að rök þess blaðs séu sterkari.

Þar sem hæstv. forsrh. varð að víkja af fundi til annarra starfa, leyfi ég mér að beina máli mínu til hæstv. fjmrh., flokksbróður hans, um þetta atriði. Ég óska, að hann reyni að gera skiljanlegt fyrir mér og kannske einhverjum öðrum; sem ekki hafa áttað sig betur á þessu, hvernig á því stendur, að Sjálfstfl. er allt í einu horfinn frá þessari stefnu að treysta á atvinnurekendurna sjálfa, og hvort þessi flokkur og leiðtogar hans eru ekkert hræddir við þessa aðsókn til Reykjavíkur, heldur vilja hjálpa straumnum hingað, því að það hefur einmitt komið í ljós við burtflutning atvinnutækjanna frá Reykjavík, að þessi bær hefur ekki heppilega framleiðsluaðstöðu nema með breytingum, sem hafa ekki verið framkvæmdar. Ég vil ekki draga dul á það við hæstv. fjmrh., að ég tel, að útlitið geti orðið mjög ískyggilegt í sambandi við þessar ráðagerðir, jafnvel þó að góður vilji sé á bak við hjá forráðamönnunum. Ég sé ekki útlit fyrir annað en að á þessum fyrirtækjum muni verða stórkostlegur tekjuhallarekstur eftir stríðið, þegar dýrtíð minnkar annars staðar og framleiðsluvörur falla í verði. Eimskipafélag Íslands, þetta gamla og trausta félag, gerir ráð fyrir, að ef ekki minnkar dýrtíðin, verði félagið að leggja öllum sínum skipum og leigja erlend skip. Og ef þetta félag, sem er tiltölulega vel stætt, verður að gera það, þá sjá allir, hvernig það verður með önnur fyrirtæki, sem veikari eru.

Þá er það landbúnaðurinn. Hann á nú ákaflega erfitt og mun eiga erfitt með að keppa við hið óeðlilega háa kaup við sjóinn. Alltaf heyrist kvartað og að sumu leyti réttilega um vöntun á mjólk, skyri og smjöri. Þetta er rétt, en af hverju? Af því að dýrtíðin og fólksstraumurinn er þannig, að ekki er hægt að fá fólk til að vinna að þessum hlutum. Ég vil sérstaklega skjóta þessu til hæstv. fjmrh., því að hans flokkur hér í bæ hefur staðið fyrir því, að Reykjavíkurbær keypti stærsta býli á Íslandi, Korpúlfsstaðina, og hafði því tækifæri til að sjá um, að þessir óánægðu Reykvíkingar fengju þessa nauðsynlegu vöru. Þar eru mikil húsakynni og stór tún, og þar var mikill bústofn. En hvað gerist? Eftir að möguleikar eru komnir á að þjóðnýta þetta, þá er ástandið þannig, að fyrir skömmu taldi ferðamaður 100 hross á túninu þar. (BBen: Þetta er ósatt.) Það er gaman að heyra það hjá borgarstjóranum. En hvernig er það með Korpúlfsstaði? Ég leyfi mér að fullyrða, að búrekstur þar sé alls ekki á því stigi, að hægt sé að gera sér góðar vonir um, að Sjálfstfl. bæti úr mjólkurskortinum og smjörskortinum með þeim atvinnurekstri. Það er líka mjög skiljanlegt. Ástæðan til þess er sú, að þeir hafa þar rekið sig á alveg sömu erfiðleika og bændur landsins hafa við að stríða, að fólkinu þykir þessi vinna leiðinleg og erfið og vill heldur vinna við einhver þjóðnýtingarplön í Reykjavík.

Ef það verður að ráði að setja yfirbankastjórn í landinu, þar sem ráðin eru tekin af þjóðbankanum, hver verður þá niðurstaðan, ef þessu er fylgt eftir með þvingunarráðstöfunum, þar sem menn eru skyldaðir til að leggja í fyrirtæki, sem þeir vilja ekki leggja í og sýnilegt, að ekki bera sig? Þá kemur sá óhugur, sem jafnan skapast af slíkum ráðstöfunum, að kapítalið leitar út úr landinu og reynir að forðast þessa klípitöng, og þá um leið skapast þau vandræði á fjármálasviðinu, sem eru ekki æskileg fyrir hæstv. stj. Þá mun enn fremur verða haldið að hæstv. stj., að hún eigi að kaupa framleiðslutæki frá útlöndum fyrir þessa peninga, sem verður að taka með harðri hendi, kannske með valdi. Og þá kemur eitt atriði, sem ég hygg, að hæstv. stj. hafi ekki athugað, en það er það, að líklegt er, að fá verði sjómenn frá útlöndum, ef á að vera hægt að láta ganga nokkuð sem heitir af þessum nýju tækjum fram yfir það, sem nú er. Ef maður athugar skýrslur yfir, hvað margir hafi unnið á sjónum, þá sést, að þeim fer ört fækkandi og það svo að skiptir hundruðum. Ég þori að fullyrða, að bæði í Vestmannaeyjum og eins fyrir norðan mun það verða svo, þegar Svíþjóðarbátarnir koma, sem eru ekki nema um 50 fyrir utan þessa nýsköpun, þá muni standa aðgerðalausir margir af þeim bátum, sem nú eru til. Þetta hygg ég, að verði fullerfitt færustu útgerðarmönnum í Vestmannaeyjum. Það getur verið ávinningur fyrir sjómenn að fá nýja báta, en það er samt sem áður ekki víst, hvort það er þjóðarnauðsyn, ef ekki eru til menn til að halda jafnframt úti þeim bátum, sem fyrir eru, þegar þessir Svíþjóðarbátar koma. Og þá fer að verða vafasamt, hvernig gengur, ef tugir og jafnvel hundruð skipa og báta koma í viðbót við það. Mig grunar, að ekkert af þessu hafi verið athugað af þeim, sem hafa barizt fyrir þessu, heldur komi það yfir þá eins og óþægileg vitund, þegar kemur í ljós, að ekki eru til menn til að stunda þetta. Það þarf ekki annað en að athuga umr. í Sþ. nú nýlega til að sannfæra sig um, að vinnuaflið er nú svo önnum kafið, að ekki er hægt að fá fólk til að stunda sjúklinga á Kleppi, þegar liggur við borð, að verði að loka spítalanum vegna fólksfæðar, Þessi þáttur er alveg órannsakaður, og hefði þó varla verið úr vegi að skoða eitthvað þessa hlið, áður en þessi nýsköpun hefst.

Ég vil spyrja hæstv. fjmrh., sem er leiðandi maður í sínum flokki, þeim flokki, sem á öllum pappírum lætur skrá sig sem verndara eignarréttar einstaklingsins, hvernig hann hugsi sér, að allt verði hér, þegar þannig er komið, að ríkisvaldið er búið að taka þjóðbankann og peninga hans til þessara ráðstafana og tekur að sér að útvega öllum atvinnu, án þess að vald sé til að færa menn til, þjóðfélag, sem er svo vanmáttugt, að það getur ekki einu sinni fengið nokkra starfsmenn til að gæta sjúklinga á Kleppi. Verður þá ekki það, að hver maður segi: Ég vil vera þarna og gera þetta, og ríkið á að leggja mér til atvinnutæki, atvinnu og lífsframfæri. Mér finnst ekki ósennilegt, að þessi gleði muni þá hverfa, þegar sjálfstæðismenn athuga og sjá, hvað það er, sem kemur á eftir þessum húrrahrópum, og erfiðleikarnir fyrir atvinnurekendurna verði eins miklir þá og þeir eru nú fyrir hæstv. stj. að sjá um, að fólk fáist til að hjúkra sjúklingunum á Kleppi. En þegar búið er með pólitískum yfirboðum að eyðileggja framtak einstaklingsins í þjóðfélaginu, búið að draga saman fólkið í Reykjavík og halda því þar uppi á taprekstri, þegar búið er að soga fólkið úr sveitum og smákaupstöðum hingað í þessa aðstöðu, þá má spyrja: Hvað átti að gera? Þá segi ég, að það sé ekkert hægt að gera, en ef rétt hefði verið að farið, hefði margt verið hægt að gera og miklu meira en venjulega. Nú eru menn almennt búnir að borga skuldir sínar, og hér er mikið til af skynsömum og ráðdeildarsömum mönnum. Við eigum að geta lifað hér góðu lífi, ef frumkvæði einstaklingsins fær að njóta sín og menn fá að skapa sér atvinnu í frjálsum félagsskap. Það mundi vera hygginna manna háttur að taka vandamálin til athugunar á sama hátt og einn skynsamur bæjarfulltrúi á Seyðisfirði, sem hefur nýlega skrifað blaðagrein um aðstreymið til Reykjavíkur frá hinum smærri kaupstöðum landsins, reyna að skapa mönnum lífvænlegan atvinnurekstur víðs vegar um land á grundvelli núverandi þjóðskipulags. Setuliðið gerði hér eitt illa, óbeinlínis þó. Það hefur að vísu borgað mörgum mönnum mikið fé, og það er síður en svo, að við getum verið vanþakklátir, ef framkoma þess er borin saman við það, sem herir gera í öðrum löndum. En það varð til þess að draga saman vinnuaflið, mest til Reykjavíkur, og svo þegar því finnst ekki heppilegt að nota það lengur, þá á að halda öllu þessu fólki uppi á taprekstri. Ég vil skjóta því til Sjálfstfl., sem er vörður hins frjálsa frumkvæðis, að það getur farið fyrir honum eins og einum frægum norskum konungi, þegar hann gekk frá öllu því, sem skynsamlegt var, það getur farið fyrir þessum flokki eins og Haraldi hárfagra, að þeir muni undrast, þegar þar vella út ormar og alls konar illyrmi, sem betur hefðu aldrei þar komið.