18.12.1944
Sameinað þing: 78. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 645 í B-deild Alþingistíðinda. (680)

143. mál, fjárlög 1945

Eiríkur Einarsson:

Ég hafði hugsað mér að kveðja mér hljóðs og tala í nokkrar mínútur út af orðum, er féllu hjá hv. 1. þm. Rang., og till., er borin var fram af honum, en þar sem ég sé hann ekki, skal ég stilla orðum mínum í hóf. Hann ber hér fram við fjárlfrv. nýja brtt. um tveggja millj. kr. framlag til bændaskóla í Skálholti. Ég segi ekkert annað en þetta: Sjá umr. í hv. Alþ. s.l. laugardag og svo till. þá, er hann ber fram næsta mánudag! — Ég ætla að svara honum nokkrum orðum viðvíkjandi þessum hans vikivakadansi.

Þegar hann talaði hér s.l. laugardag, varð ræða hans til þess, að einn hv. þm., sem hafði ekki greitt atkv. við 2. umr. málsins um Skálholtsskóla, greiddi atkv. játandi við 3. umr. Hann gaf þá skýringu á þessu, að hann hefði breytt um skoðun, er hann hefði heyrt ræðu hv. 1. þm. Rang., og segði því já við þessa umr. - Einkunnarorð Magnúsar Stephensen voru: Festina lente, — eða: við skulum hraða okkur með gát. Á fjárlfrv. 1945 eru 250 þús. kr. til búnaðarskóla Suðurlands, og ég hafði ekki hugsað mér að fara lengra, en hv. 1. þm. Rang., sem talaði eins og hann gerði hér s.l. laugard. og flutti slíka brtt. og hann gerði s.l. mánudag, hann ber ábyrgð gerða sinna og ég minna, en er til atkvgr. kemur, mun ég sitja hjá. Það er eins og Hallgrímur Pétursson sagði: Guðsorð eru ekki til spotts —, og ég veit, að þarfir landbúnaðarins á Íslandi eru ekki til spotts, en þessi till. hv. þm. er flutt til spotts. Ég veit það, og það dylst engum hv. þm., að 250 þús. kr. eru fjarri því að vera nógar til þess að reisa fullkominn landbúnaðarskóla, eins og samboðið er metnaði og þörfum Sunnlendinga, en 2 millj. hv. 1. þm. Rang. eru ekki heldur nógar, af því að þær eru ekki meintar af heilum huga. Og svo þessi stefnubreyting, - að snúa svona snarlega við á veginum, eins og Páll frá Tarsos gerði, þótt ég telji, að hann hafi snúizt til rétts vegar, en hvort þessi hv. þm. hafi gert það, læt ég liggja milli hluta. Ég veit hins vegar, að þegar við á næsta þ. flytjum viðbótartill. um þetta mál, til þess að halda því áfram eins og stofnað er til, þá verður það gert af heilum huga, og þá verður hann hinn framsæknasti til þess að stuðla að framgangi þessa skóla.