21.11.1944
Efri deild: 72. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 340 í B-deild Alþingistíðinda. (70)

183. mál, nýbyggingarráð

Jónas Jónsson:

Ég vil leyfa mér að gera fáeinar athugasemdir við málið nú, þótt margt hafi borið á góma og hægt sé að gera grein fyrir ýmsu við síðari umræður.

Hæstv. fjmrh. taldi, að ég hefði misskilið frv., en hann treysti sér ekki til að leiða það í ljós. Hæstv. ráðherra ræddi um þann mikla þátt, sem ríkisvaldinu er ætlaður í hinni víðtæku atvinnulegu nýsköpun. En hann kom ekki nálægt því, hver munur væri á Sjálfstfl. nú og Sjálfstfl. eins og hann var, þegar Jón heitinn Þorláksson mótaði stefnu hans. Því að hér er ekki um neina stundar stefnubreytingu að ræða, heldur algert fráhvarf frá stefnusjónarmiðum. Og þótt okkur Jón Þorláksson hafi greint á um þjóðnýtingu á fundi fyrir 16 árum austur í Skaftafellssýslu, þá er það alveg víst, að ég hef aldrei beitt mér fyrir aukinni þjóðnýtingu og Framsfl. ekki heldur, mér vitanlega, fram á síðustu tíma. Sem dæmi vil ég nefna það, að þegar síldarverksmiðjurnar á Siglufirði voru reistar á sínum tíma, var það einmitt Framsfl., sem beitti sér fyrir því, að þær væru reknar á samvinnugrundvelli, en það voru einmitt stuðningsflokkar hæstv. núverandi ríkisstjórnar, sem komu í veg fyrir það og beittu sér hreinlega fyrir þeim algera ríkisrekstri, sem þær eru reknar með núna og er öllum til skaða. Annað dæmi er það, þegar Ísfirðingar fóru fram á aðstoð til kaupa á bátum 1928. Þá gerði Framsfl. það að beinu skilyrði fyrir veittri aðstoð, að um samvinnufyrirtæki væri að ræða, en ekki bæjarrekstur. Og það er þetta fyrirtæki, sem borið hefur góðan ávöxt fyrir Ísafjörð, vegna þess að það var reist á þeim heilbrigða grundvelli. Sama máli gegnir einnig um síldarverksmiðjurnar, þær væru betur komnar, hefði þeim fyrst og fremst verið stjórnað af þeim og fyrir þá, sem að þeim standa. Ég læt þetta nægja til að sýna, að ég hef ekki beitt mér fyrir aukinni þjóðnýtingu.

Þá hélt hæstv. ráðherra því fram, að atvinnuvegirnir bæru sig nú. Eins kom hann inn á það, að ég héldi því fram, að lækka ætti kaup á undan öllu öðru. Þetta er ekki rétt með farið. Það, sem samtök bændanna lögðu sinn skerf til og fyrrv. fjmrh. og ýmsir aðrir hafa haldið fram, er ekki það að þvinga eigi fram einhverja sérstaka lækkun á verkakaupi, heldur eigi framleiðsluvörur einnig að lækka og laun embættismanna að sama skapi, þar sem við á. Allt þarf að lækka, ekki til þess að skerða lífskjör manna, heldur er lífsnauðsyn að lækka dýrtíðina í landinu og gera aðstöðu okkar hagstæðari út á við, því framleiðsla okkar er þegar orðin óeðlilega dýr, miðað við aðrar þjóðir.

Hæstv. ráðherra segir, að atvinnuvegirnir geti borið þetta kaupgjald. En annar stærsti atvinnuvegur þjóðarinnar hefur verið rekinn með stórum halla. Álit 6 manna nefndarinnar, sem Þorsteinn Þorsteinsson hagstofustjóri og Guðmundur Jónsson kennari á Hvanneyri áttu sæti í og aðalblað Sjálfstfl., Morgunblaðið, hældi fyrir vandvirkni og vísindalega nákvæmni, dæmdi, að á s.l. ári þyrfti að færa yfir til bænda 25 millj. króna, til þess að landbúnaðurinn bæri sig. Og ef standa á við álit 6 manna nefndarinnar, ætti að færa yfir til landbúnaðarins 35 millj. núna.

Ég hef það frá einum þekktum bónda, sem annast mjólkurframleiðslu, að bændur framleiði með tekjuhalla, þar sem þeir fá ekki 9,4% hækkunina, sem þeir áttu þó kröfu til. Þetta mun síðar koma beinlínis í ljós við athugun á verzlunarreikningum bænda, skattframtölum o.fl. En þessi tilfærsla er bændum mesta kvöl, og þeim er ljóst, að fá verður aðra frambúðarlausn. Þá er það sjávarútvegurinn. Hvenær sem eitthvað bjátar á með verð á ísfiski eða með flutninga til Englands, bíður hans ekkert nema tap. Síðustu styrjaldaratburðir benda til, að verðlækkun kunni nú að vera nær en nokkur veit, og eftir fáa mánuði verður ekkert, sem réttlætir bjartsýni ráðherra á þessu máli. Ef trúað er á tækin eingöngu, getur það leitt til blindni. Hæstv. ráðherra reyndi ekki að færa rök fyrir því, að góðu tækin kæmu okkur að fullum notum í samkeppni við þjóðir, sem hefðu sömu tæki og auk þess heimamarkað, sem þær geta varið með tollum. Enda er það engin von, að ný tæki ein geti bætt aðstöðu okkar í þeim efnum, ef ekki kemur annað til.

Þá reyndi hæstv. ráðherra að vitna í tímabilið I930–1940 sem eitthvert eymdartímabil. Það er skemmst af því að segja, að eftir 1934, eftir að gerðar höfðu verið ráðstafanir viðkomandi landbúnaðinum, átti hann ekki við neina verulega erfiðleika að etja og bar sig mjög sæmilega allt fram að stríði. En sjávarútvegurinn stóð verr að vígi, þar sem hann var ekki rekinn með eðlilegri skipulagningu, sérstaklega hvað snerti sameiginleg innkaup á vörum. Það var alls ekki vegna þess að kaupið væri of hátt, að útvegurinn bar sig ekki, eins og ráðherrann tók fram, heldur vegna hins, að dýrtíðin í Reykjavík og Hafnarfirði var þá þegar orðin svo mikil, að þótt kaupið væri lágt, þá dugði það ekki til. Fyrir stríð stóðst Eimskipafélagið ekki samkeppni við Norðmenn um millilandasiglingar, vegna þess að Norðmenn höfðu minni dýrtíð og því ódýrari rekstur sinna skipa. Og það geta allir séð, að til öngþveitis hlýtur að draga, þegar dýrtíðin, sem fyrir stríð var svo mikil, að hún lamaði stórlega atvinnuvegina og einkum sjávarútveginn, er orðin það, sem hún er nú og sýnilega verður í náinni framtíð.

Einn kunnasti rithöfundur landsins og stuðningsmaður núverandi stjórnar, Halldór Kiljan Laxness, hefur í mjög skilmerkilegri grein í einu stjórnarblaðinu lýst yfir því, sem mér finnst alveg rétt og hreinskilnislega sagt frá sjónarmiði hans flokksmanna. Við höfum, segir hann, með þessu samkomulagi við fulltrúa atvinnurekenda komið í veg fyrir það, að í Reykjavík þurfi að hlaða götuvígi og setja þar upp byssur í stríðslokin. Einna næst þessu komst í fyrra, þegar verkamenn fóru fram á kauphækkun, en atvinnurekendur vildu ekki hækka kaupið. Þá tilkynntu verkalýðsfél. í bænum, að þau hefðu tilbúinn liðsafla, ef á þyrfti að halda. Og mannfélagið lét þá undan, eins og nú. Halldór Kiljan hefur lýst yfir því, að ekki þurfi að hlaða götuvígi lengur, því að verkalýðurinn hafi sigrað atvinnurekendur. Ég sé ekki betur en Halldór Kiljan hafi á réttu að standa. Hann sagði það engan veginn vera vilja verkalýðsins að óska eftir bardögum. Það væri miklu betra að ná takmarkinu á friðsaman hátt, eins og nú.

Hæstv. ráðherra vék að gjaldeyrishömlum. Hvenær byrjuðu þær? Með kreppunni eftir 1930, og hún stafaði sérstaklega hér á landi af erfiðleikum sjávarútvegsins. Ástæðan til þess, að ríkið blandaði sér þannig í gjaldeyrismálin, var, að vaka þurfti yfir hverjum eyri. Slíkt getur aldrei orðið nema neyðarúrræði, gert vegna fátæktar. Á stríðstímunum var fátæktin horfin, en hömlunum haldið, til þess að ekki yrði flutt inn fyrirferðarmikið skran, eins og gömul húsgögn og annar óþarfi, með hinum takmarkaða skipakosti okkar. Núna, þegar við væntum þess að fá tímabil, þegar sæmilegur skipakostur er til og ekki gjaldeyrislaust, ætti að vera hægt að láta þjóðbankann ráða, hvernig gjaldeyririnn er notaður. Ég hefði treyst núverandi hæstv. ráðherra að fara með þetta vald sem bankastjóri, og ég treysti eftirmönnum hans.

Hæstv. ráðherra fann, að þessi ákvæði um skyldulán eru nokkuð nýstárleg. Hann mun vart geta fundið hliðstætt dæmi um það í nokkrum íslenzkum lögum. Hann veik að eignaraukaskattinum, sem talið er, að hefði getað orðið 9–10 millj. kr. Það var ekkert rán og ekki líklegt til að valda fjárflótta úr landi. — Hann taldi Svíþjóðarbátana hafa sérstöðu í þessum ráðagerðum stjórnarinnar. Ég var nú ekki við það mál riðinn. Nú eru þau kaup orðin nokkuð uppboðskennd og deilt um það í blöðum verklýðsfl., hvorir geti meira hrósað sér af því. Meðan Vilhjálmur Þór var atvmrh. bauð hann bátana til kaups, eftir því sem efni stóðu til. Fáir vildu kaupa, því að þeim hefur sýnzt óefnilegt með þessum markaðshorfum að kaupa báta með kostnaðarverði. En núverandi atvinnumálaráðherra kvað hafa selt bátana strax,. auðvitað með því móti, að landið tæki á sig fjárhagsbyrði í því sambandi. Hæstv. fjmrh. getur séð það í frv., að þar er ákveðið, að ríkið eigi að sjá öllum fyrir vinnu. Hann veit, að ríkið geturekki fengið fólk til nauðsynlegra hjúkrunarstarfa,.

því að fólkið verður að ráða sjálft, hvað því þóknast að gera. Það verður alveg á valdi einstaklinganna, hvar þeir vilja vinna. Það er ekki hægt að hindra þá í að safnast á þá staði, þar sem þeim þykir skemmtilegast. Dæmið um hjúkrunarfólkið, sem ekki fæst að Kleppi, sýnir okkur, að þjóðfélagið er algerlega háð duttlungum manna. Og samkv. prógrammi stjórnarinnar hafa menn rétt til að krefjast vinnu í Reykjavík t.d. og neita atvinnu, sem býðst annars staðar. Bændur geta ekki framleitt mjólk, sem nægir mannfjölda höfuðstaðarins, en á sveitaheimilunum eru það víða hjónin ein, sem stunda búin. Þau geta aldrei átt frí. Þau vinna baki brotnu, til þess að höfuðstaðurinn fái mjólk. Er ekki von, að húsmóðirin hugsi: Hví þarf ég að vera að þræla hér? Ég fer til Reykjavíkur og verð þar. Þar verður reist hús yfir mig. Það gerir Sigfús Sigurhjartarson, sem byggir 600 íbúðir á ári. Og stjórnin lætur ekki vanta atvinnu. — Ef það vantar núna 5000 lítra af mjólk, en 20 þús. koma, munu þá ekki fást nema 5000, ef allir hugsuðu svona. Það hefði verið eins gott að segja við fólkið: Þið hafið grætt, eigið í sjóði. Bjargið ykkur sjálf. Og síðan hefði verið reynt að koma atvinnulífi landsins á heilbrigðan grundvöll með lækkun dýrtíðar. Hvers vegna þarf þjóðfélagið að grípa inn í, meðan fullt er af atvinnu? Ef það væri skynsamlegt af Íslendingum að lifa allir á mölinni við „margarín“ og kjöt frá Suður-Ameríku, þá væri vit í tiltektum stjórnarinnar. Það er haft eftir einum af ,yngri þm. í stuðningsliði stj., að hann hafi sagt í fyrra, að hann væri á móti því að leggja rafmagn um sveitirnar, því að það hindraði hina nauðsynlegu samfærslu byggðarinnar, sem hann dreymdi um. Hæstv. ráðh. verður að játa, að þetta virðist ekki fjarri stefnu stj., svo sem t.d. má sjá af því, að af 300 millj. gjaldeyri á aðeins einn sjötti að koma í sveitirnar, en fimm sjöttu við sjóinn. Við höfum nokkuð stóra höfuðborg og fáeina bæi, sem virðast standa sæmilega undir sér atvinnulega, t.d. Vestmannaeyjar, Ísafjörð og Akureyri, og sveitir, þar sem ekki hefur enn farið í eyði nema sáralítið af bæjum. Hefði hæstv. ráðh. ekki þótt það æskilegri stefna að láta ekkert sveitabýli fara í eyði meir og efla þorpin, þar sem þau hafa skilyrði, í stað þess að allt lendi í höfuðborginni? Ég efast ekki um, hvernig hann hefði svarað, meðan hann var bankastjóri, því bankinn var ekki bundinn neinni trúlofun. Þá var ekki búið að gifta Harald konung og Snæfríði. Nú er stjórnarstefnan komin á það stig, sem ekkert gott kann af að leiða.