19.12.1944
Sameinað þing: 79. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 653 í B-deild Alþingistíðinda. (705)

143. mál, fjárlög 1945

Hermann Jónasson:

Ég hefði nú kosið, að hægt hefði verið að veita afbrigði fyrir brtt., sem kom hér fram í gær, um einnar millj. kr. framlag í þennan skóla, því að það hefði ég talið mjög nærri lagi. Hitt má öllum vera augljóst mál, að 250 þús. kr., sem er byggingarkostnaður á einu íbúðarhúsi fyrir eina fjölskyldu, er fjarri lagi í þennan skóla, og eru 2 millj. lagi nær nú, því að hann mun kosta miklu meira með því, sem þarna þarf að gera. Þess vegna hef ég þann sama fyrirvara á þessu og hv. þm. Mýr., að ég segi já, og enn fremur með þeirri grg., að ég efast um, að ríkissjóður verði færari um að leggja þessa upphæð fram síðar.