08.09.1944
Neðri deild: 46. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 654 í B-deild Alþingistíðinda. (714)

88. mál, tollskrá o.fl.

Fjmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. L. um tollskrá í núverandi formi voru sett árið 1939. Síðan voru gerðar smávægilegar breytingar á þessum l. árin 1940, 1941 og 1942. Það er ekki við að búast, þegar slík l. sem þessi eru sett, að þau geti verið til frambúðar, án þess að breyt. sé á þeim gerð, enda hlýtur reynslan að skera úr um það, í hvaða atriðum slíkum l. þurfi að breyta. Til þess að láta þá reynslu, sem fengizt hefur undanfarin 5 ár í sambandi við tollskrána, skera úr um það, hvaða breytingar væri æskilegt að gera, taldi fjmrh. æskilegt að skipa sérstaka n. til að endurskoða þessi l., og var það gert á s.l. hausti. Þess var óskað, að þeir aðilar, sem þessi mál snerta mest, sem sé Félag ísl. iðnrekenda, Samband ísl. samvinnufélaga og Verzlunarráð Íslands, tilnefndu sinn manninn hver í þessa n. af sinni hálfu, og urðu þær stofnanir við þessum tilmælum. Svo voru af hálfu fjármrn. tilnefndir Sigtryggur Klemensson fulltrúi, sem mjög hefur starfað að undirbúningi þessara mála, og Jón Hermannsson tollstjóri, sem mest hefur um þessi l. að fjalla og er jafnframt form. n. Ég skal taka það fram, að þessi n. hefur leyst af hendi mikið starf og unnið ókeypis.

Ég tel ekki ástæðu til að fara út í hvern lið þessara brtt. Þær eru ekki stórvægilegar, og tilgangur þeirra er aðallega samræming milli vörutegunda og leiðrétting á gjöldum í samræmi við það, sem reynslan hefur leitt í ljós, að æskilegt sé.

Eitt meginatriði í sambandi við tollskrána, sem mikið er deilt um, er það, hvort toll beri að taka af cif- eða fob-verði vörunnar. Ráðun. hefur ekki farið inn á þær brautir að gera breyt. á þeim reglum um þetta, sem verið hafa í gildi í fimm ár, enda skiptir þetta atriði ekki miklu máli, ef tollurinn er á annað borð sanngjarn, en sé tollurinn úr hófi fram; skiptir það talsverðu, ef þeirri hækkun, sem stafar af cif-verði, er bætt á. Ráðun. hefur ekki viljað gera þetta að deiluatriði og telur rétt, að þetta standi óbreytt, þar til afstaða hefur verið tekin um það, hvort tollur af innfluttum vörum er of hár eða ekki.

Ég mun svo ekki fara nánar út í þetta frv., en legg til, að því verði vísað til 2. umr. og n. Ég skal aðeins geta þess, að þau plögg, sem komið hafa frá n., standa auðvitað til reiðu þeim hv. þm., sem eiga að fjalla um þessi mál.