29.11.1944
Neðri deild: 84. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 655 í B-deild Alþingistíðinda. (718)

88. mál, tollskrá o.fl.

Frsm. (Jakob Möller):

Ég þarf ekki að hafa langa framsögu um þetta mál. Frv. er fram komið frá hæstv. fyrrv. ríkisstj. eftir rækilegan undirbúning. Eins og skýrt er frá í grg. frv., var skipuð n. til að endurskoða l. með hliðsjón af þeirri reynslu, sem áður var fengin, og sérstaklega með tilliti til iðnaðarins í landinu. N. þessi gerði síðan till., og ríkisstj. bar fram frv. í samræmi við þær, en þegar málið kom til fjhn., sendi hún þær til tollstjórans í Reykjavík til athugunar, og lagði hann til nokkrar breyt. á frv., ekki í raun og veru breyt. á því, sem mþn. hafði gert till. Er þetta allt nákvæmlega skýrt í grg. frv. sjálfs og í bréfi tollstjóra til n. viðvíkjandi þeim breyt., sem hann gerði.

N. sjálf hefur aðeins gert eina brtt., sem er á þskj. 539, um að lækka toll á umbúðapappír, áprentuðum, til fiskútflytjenda. Það hefur verið hærri tollur á áprentuðum pappír til fiskumbúða en umbúðapappír, og er það til að vernda prentiðnaðinn í landinu. En fiskútflytjendur hafa eindregið farið fram á, að þessum tolli væri aflétt. Þó að hann sé töluvert þungur á fiskútflytjendum, þá hefur hann ósköp litla þýðingu fyrir iðnaðinn í landinu, því að sá iðnaður, sem þar er um að ræða, prentsmiðjurnar, hafa ærið af starfa og tiltölulega þýðingarlítið atriði í þeim rekstri, hvort þessi prentun er unnin í landinu eða ekki. Hins vegar er það enn fremur fært sem ástæða fyrir því, að þessum tolli sé aflétt, að með eftirspurninni eftir frystum fiski verði þetta svo mikið verk, að erfiðleikar væru að fá það unnið í landinu. N. féllst því á, að rétt væri að verða við þessum tilmælum fiskútflytjenda.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa þessa grg. lengri, en vísa til þess, sem fyrir liggur hér, grg. frá ríkisstj., sem fylgir frv., og bréfs tollstjóra. Svo get ég aðeins látið þess getið, að svo var áskilið í n., að ef frekari brtt., kynnu að koma fram, þá hefði n. óbundnar hendur, ef svo verkaðist, um afstöðu til slíkra till. Annars legg ég til, að þessar brtt., sem fyrir liggja, verði samþ. og málinu vísað áfram.