21.11.1944
Efri deild: 72. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 344 í B-deild Alþingistíðinda. (72)

183. mál, nýbyggingarráð

Hermann Jónasson:

Ég gat þess áðan, þegar ég sagði nokkur orð um þetta frv., að ég mundi ekki lengja umr. um þetta mál, en hins vegar hefur komið fram atriði frá hæstv. ríkisstj. og stuðningsmönnum hennar, sem gefur tilefni til að sögð séu um þetta nokkur orð hér í þessari hv. d.

Það var verið að tala um skattana. Það er að vísu alveg rétt, að þeir voru hærri í tíð þeirrar stjórnar, sem sat við völd 1934 til 1942. Þeir voru þó hæstir, að ég hygg, í lokin, þegar skattalögunum var breytt. Ég vil vænta þess, þar sem hv. þm. Barð. minntist á, að æskilegt væri, að menn færu rétt með, að menn gætu treyst því, að skattarnir hækkuðu ekki á næstu árum, þar sem hann telur, að skattarnir hafi verið sérstaklega háir í tíð þeirrar stjórnar, sem ég veitti forstöðu. Ég veit að vísu, að einstaka atvinnurekstur þolir það, að skattarnir hækki, en ég hygg, að sá atvinnurekstur, sem þessi hv. þm. ætti að þekkja bezt, þoli ekki mikla skatta.

Enn fremur kemur það fram hér aftur og aftur, og er alltaf verið að staglast á því, að friðurinn á Íslandi verði ekki unninn nema með vélum og þeir, sem eru á móti þessu frv., eins og það er flutt hér, séu andvígir því, að reyndar séu nýjar leiðir og ný tæki. Þessu er kastað fram algerlega út í bláinn, og ég vil segja, að það hlýtur að vera af lítilli þekkingu, ef það er ekki gert gegn betri vitund. Ef við tökum t.d. landbúnaðinn, hver hefur meiri skilning á því en bændur sjálfir? Veit þessi hv. þm., að það er þrisvar sinnum meiri eftirspurn frá bændum um vélar en hægt er að fullnægja? Að minnsta kosti hefur sendiherra Íslands í Bandaríkjunum lagt sig fram að fyrirlagi ríkisstj. til að fá þessar vélar, og það hefur ekki tekizt. Ég hygg, að einn þriðja af þeim vélum sé hægt að fá. Af þeirri tegund, sem mest er spurt eftir og stórvirkust er, hygg ég, að fáist ekki neitt. Vegagerð okkar hefur spurt eftir fjölda tækja, og ég held, að svörin hafi verið eitthvað svipuð þar. Má takast vel, ef hún getur fengið einhverjar af vélunum; sem hún hefur spurt eftir síðustu mánuðina. Ég geri ráð fyrir, að sú hin nýja n. mundi gera mikið til að ná í vélarnar, en ég efa þó, að henni takist einu sinni að fullnægja þeirri eftirspurn, sem er hjá íslenzkum bændum eftir vélum, hvað þá að um neinar nýjungar verði að ræða á því sviði. Nema þessari n. takist betur en sendiherra Íslands í Bandaríkjunum, sem ég efast ekki um, að hafi gert það sem hann gat viðvíkjandi þeim kröfum, sem hafa borizt héðan að heiman, um vélakaup.

Ég verð að segja, að viðvíkjandi öðrum nýjum tækjum er fyrst og fremst að ræða um skip, og það væri óskandi, að hæstv. ríkisstj. tækist betur að fá þau tæki en landbúnaðarvélarnar. Þó sjá menn að vísu í flestum erlendum tímaritum, þar sem skipasmíðastöðvarnar auglýsa, að þær auglýsa með því skilyrði, að þær svari pöntunum eftir styrjöldina.

Ég hef ekkert á móti því, að unnið sé að þessari svo kölluðu nýskipan — síður en svo. Ég álít, að það sé tímabært og meira en tímabært að gera það, sem er í valdi íslenzku ríkisstj. og Alþ. til að útvega tæki. Ég efast þó um, að þau komi mjög mörg í tíð þessarar ríkisstj. nema hún verði því langlífari. En það, sem við þurfum að athuga, er, hvernig þetta er gert. Það er að vísu alveg rétt, sem kom fram hjá hæstv. fjmrh., að það er ekki gott að segja, hvernig þessum málum verði hagað í framkvæmdinni. Það er minna af fyrirmælum en óbeinum loforðum í greinargerðinni. Þess vegna er ekki hægt að fara inn á það mál, því að menn vita ekki enn þá, hvernig því verður háttað. En benda má á, að ef menn fást til að kaupa þessi atvinnutæki og þau ekki bera sig, hvað ætlar ríkisstj. þá að gera? Á þá að láta bæinn eða ríkið reka þau? Það eru margar spurningar, sem rísa. Hvernig fer með gömlu framleiðsluna með sínum tækjum? Við skulum segja, að stór atvinnurekandi á Akureyri stöðvi vinnu, vegna þess að tækin beri sig ekki. Hvað á að gera við hann, og hvað á að gera við aðra? Við álítum, að það grundvallaratriði, sem leysa þarf, sé óleyst.

Það fór ekki dult um þessi mál í 12 manna nefndinni. Allir gengu út frá því sem jafnmikilli fjarstæðu að láta sér til hugar koma að mynda ríkisstj., án þess að menn væru sammála um að stöðva dýrtíðina. Nú er nýrri dýrtíðaröldu hleypt af stað. Enginn lætur sér til hugar koma, að ekki komi önnur á eftir. Í 12 manna n. voru menn sammála um, að það væri jafnfráleitt að mynda ríkisstj., án þess að stöðva dýrtíðina, eins og að stökkva upp í bát, sem rekur niður fljót og kominn er á fossbrúnina, án þess að vita, hvernig stöðva eigi bátinn.

Í raun og veru þýðir ekki að halda fram hér í áheyrn neins einstaks þm., að atvinnuvegirnir í landinu beri sig núna. Hvers vegna greiðir ríkissjóður 25 millj. kr. til landbúnaðarins? Hvers vegna eru greiddar 8–10 millj. króna í útflutningsuppbætur og 10–12 millj. til að greiða vöruna niður? Ef sett væri það verð á landbúnaðarvörurnar, sem þarf, til þess að hægt sé að greiða framleiðslukostnaðinn við hana, þá mundi enginn bátaútvegur eða frystihús starfa lengur. M.ö.o., megnið af sjávarútveginum mundi stöðvast, ef ríkið eyddi ekki 20 til 25 millj. króna til að halda verðinu niðri, vegna þess hvernig ástatt er með landbúnaðinn. Enginn talar neitt um afkomu bátaútvegsins, en ég þekki töluvert til hans, vegna þess að í mínu kjördæmi eru menn, sem stunda þann atvinnuveg. Það þarf enginn að segja mér, að sá atvinnuvegur beri sig, vegna þess að í þorskfiski við meðalafla hafa sjómenn ekki þær tekjur, sem landmenn hafa með því landkaupi, sem nú er. Þetta er ástæðan til þess, að m.a. í sumum kaupstöðum austur á fjörðum í sumar fengust ekki Íslendingar á bátana, og voru Færeyingar fengnir í staðinn í mörgum þeim plássum, þar sem bátar voru. Ég er viss um, að óhætt er að fullyrða, að ekki hefur orðið eins mikið verðfall á neinu eins og bátum síðastliðna 6 mánuði. Það getur hver maður sagt sér, þegar svo mikið framboð skapast, að 3 til 4 bátar eru auglýstir í útvarpinu á viku, að verðfall er komið á vöruna.

Með því að skapa jafnvægi milli framleiðslukostnaðarins í landinu og verðsins, sem fæst fyrir útflutningsvöruna — með því einu skapast heilbrigt ástand í landinu, og engu öðru móti. Grundvallaratriðið undir öllu þessu er, að kostnaðurinn sé ekki meiri við framleiðsluna en fæst fyrir vöruna við sölu. Að vísu er ákaflega oft hætt við og eðlilegt, að þessi regla sé brotin á verðfallstímum, en það getur aldrei orðið til lengdar, og við álítum óþarft að halda uppi taprekstri núna, þegar vörur eru í sérstaklega háu verði, bæði landbúnaðarvörur og sjávarafurðir. Við þurfum aðeins að skapa jafnvægi í þessum hlutum. Lausnin á þessu atriði er málið allt. Hitt er að mínu áliti hismi eitt. Ef þetta atriði er leyst, að verðlagsvísitalan eða framleiðsluvísitalan sé í samræmi við verð útflutningsvörunnar, þá er málið leyst af sjálfu sér. Það er hægt að gera, án þess að verkamenn bíði nokkurt tjón við það.

Þetta er raunverulega meginatriðið í því, tekið fram í stuttu máli, sem við höfum út á þetta mál að setja. Við höfum ekki trú á því, að einstaklingar komi með fjármagn sitt til þess að byggja upp atvinnulífið í landinu, meðan þetta grundvallaratriði er ekki lagfært, og okkur virðast auglýsingarnar, m.a. á bátunum, og flótti fólks frá framleiðslunni benda ótvírætt til þess.

Það er ekki gott að segja, hvort fást betri tæki, en því miður eru ekki miklar líkur til þess nú. Það var beinlínis tekið fram af hæstv. fjmrh., að það væri ætlunin að fá þessi tæki; að mér skildist, svo að fyrirbyggt yrði atvinnuleysi. Eins og ég sagði áðan, þá er ég því samþykkur, að við bætum framleiðsluhætti okkar, en ég er bara ákaflega hræddur um, að tækin verði ekki keypt núna nema með ákaflega háu verði, og svo verði verðfall eftir styrjöldina, og þá væri ekki sérstaklega vel farið.

Ég sé, að Svíar gera ráð fyrir að koma atvinnulífi sínu í fast horf í styrjaldarlok. Öðruvísi hafa þeir farið að, m.a. vegna þess að þeir hafa lækkað kaupið. Þeir gera ekki ráð fyrir að kaupa ný tæki. Það eru meiri — líkur til þess, að frekar sé hægt að eignast tæki, ef kaupgjaldið er lækkað, því að það eru meiri líkur til að hægt sé að fá efnivið í skipin, ef við vinnum sjálfir að þeim, en skipin sjálf. En til þess þyrftu menn að vera búnir að laga það í hendi sér, án fórnarlundar verkalýðsins, og skapa möguleika, ekki aðeins til að eignast tækin, heldur hafa nægilega vinnu meðan verið er að búa tækin til.

Svíar gera enn fremur ráð fyrir stórfelldri ræktun kringum öll þorp og nýbýli. Þetta verður sett í gang um leið og styrjöldin endar og þegar komið er það tímabil, sem þeir álíta erfiðast í sinni atvinnusögu. Ég álit, að það væri ekki óhyggilegt af okkur að fara eins að. Það er margt ógert af höfnum og mikið af óræktuðu landi kringum þorp og mikið óbyggt af bátum. Við ættum að reyna að lækka tilkostnaðinn við þetta og skapa okkur einmitt atvinnu við það, um leið og við búum í haginn fyrir framleiðsluna, bæði með tækjum, höfnum og nýbýlaræktun.

Í grg. er talað um að kaupa tæki og mynda félög. Ég veit ekki, hvernig á að gera það. Ég er hræddur um, að ekki myndi t.d. takast að koma mér og hv. þm. Barð. í sama félagsskap. (GJ: Ef þm. Str. stjórnaði því, er ekki hætt við, að hann vildi ekki komast í félagsskapinn.) Ef einstaklingar rækju ekki tækin, hver á þá að reka þau? Það er ekki hægt að koma fram með einstakar aðfinnslur, þegar maður veit ekki, hvernig á að framkvæma þetta. Ég er enn fremur nokkuð hræddur um, að það geti orðið okkur nokkuð erfitt í framkvæmdinni, þó að frá sé tekinn gjaldeyrir, og hef ég ekki nema gott um það að segja, en á það má benda, að við eigum nú að vísu 256 millj. ísl. kr. í dollurum, en um pundin veit maður ekki hvað verður hægt að kaupa fyrir á næstu árum og engar vörur er hægt að fá frá Englandi nú. Við höfum keypt nokkuð af vörum frá Sviss og Svíþjóð, en það fæst minnst af þessum vörum, að ég hygg, fyrir dollara. Þess vegna getur þetta vitanlega orðið nokkuð erfitt í framkvæmdinni, þótt gott sé að setja sér þetta mark, ef ekki er séð fyrir því jafnhliða, að framleiðslan gangi þannig, að hún svari kostnaði, og þetta getur einnig orðið erfitt í framkvæmdinni, þar sem vitað er, að við flytjum inn vörur fyrir 250 millj. kr. á ári. Ég vil ekki á nokkurn hátt finna að því, að hæstv. ríkisstj. taki þessa peninga frá og setji sér þetta mark. En einasta tryggingin fyrir því, að þetta verði ekki eyðslueyrir, er að framleiðsla þjóðarinnar geti gengið og svarað kostnaði. Ef ég á 30 þús. kr., þá þýðir ekki að taka frá 20 þús. kr. og leggja inn í bankabók og segja: „Þetta tek ég frá og þetta ætla ég mér til öryggis.“ Það verður hvorki mér né öðrum til öryggis, ef við getum ekki unnið fyrir daglegu brauði. Mér virðist þess vegna, og þykir mér leitt að þurfa að spá því, að engar líkur séu til þess, að þessi nýsköpun atvinnuveganna geti tekizt vel á þeim grundvelli og röksemdum, sem hún er reist. Og það er augljóst mál, eins og hæstv. forsrh, og hæstv. fjmrh. hafa báðir gert ráð fyrir, að það eru eins mikil líkindi til þess, að þetta reki allt í strand. Hæstv. forsrh. sagði á Varðarfundi í gær, að menn mættu ekki líta svo á, að stj. hefði mistekizt, þótt hún yrði að gera kröfur til þess, að lækka yrði kaup og kjör landsmanna, ef tímar breyttust. En hann sagði, hér áðan: „Atvinnufyrirtækin bera sig nú“. Ég held hins vegar, að þau beri sig ekki, og ef þau bera sig ekki, hlýtur það að hafa í för með sér kauplækkanir. Ég held því, að með þessu áframhaldi, þar sem nú er kominn kyrkingur í framleiðsluna og reynslan hefur sýnt, að „inflation“ fer vaxandi, að ekki takist að svara til útgjaldaþarfar ríkissjóðs, ef okkur tekst ekki að færa dýrtíðina niður, því að með hækkandi dýrtíð vex stöðugt útgjaldaþörf ríkissjóðs, og jafnframt minnka tekjumöguleikar ríkissjóðs við það. Atvinnulífið hlýtur þá að ganga saman og á því verða hallarekstur vegna hækkandi dýrtíðar, og kæmi mér ekki á óvart, þótt þetta yrði fram komið, áður en þessi tæki eru hingað komin, sem hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. hafa byggt von sína á um þessi mál. Ég álít, að það sé miklu betra fyrir verkalýðinn og þjóðina yfirleitt að horfast í augu við þessa erfiðleika strax, lagfæra grundvöllinn og tryggja, að atvinnulífið geti haldið áfram, því að ef illa fer, er bersýnilegt, að við verðum að grípa til þeirra peninga, sem til eru. Ég veit, að það stendur að sjálfsögðu ekki á því, að sumar stéttir taki vel í að leggja fram sinn stuðning, og ef til vill hefur hæstv. ríkisstj. tryggt sér það, að verði hallareksturinn meiri en hann nú raunverulega er, þá verði launastéttirnar fúsar til þess að hlaupa undir bagga og færa niður kaupið. Ef samningar ná svo langt, er óneitanlega vel farið, en sé svo ekki, þá er aðeins verið að fresta því um stundarsakir, sem miklu betra væri að gera í dag, og með því að gera það ekki í dag versnar enn hagur ríkissjóðs og atvinnulífsins, og ef, samningar eru ekki tryggðir við verkalýðinn, verður ástandið miklu verra en það var á síðastliðnu hausti, þegar við vorum í mestu vandræðunum.