21.11.1944
Efri deild: 72. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 348 í B-deild Alþingistíðinda. (73)

183. mál, nýbyggingarráð

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Ég veit, að komið er fram yfir venjuleg fundarlok og hafði ekki ætlað mér að taka nú til máls, en finnst þó rétt að svara ræðu hv. þm. Str. örfáum orðum. Ég skal þó áður geta þess, að ég heyrði ekki nema nokkurn hluta af ræðu hv. þm. S.-Þ., en henni mun hafa verið svarað af hæstv. fjmrh. Ég var neyddur til að hverfa af þessum fundi, vegna þess að ég þurfti að fara á annan fund, en mér virðist, ef borin eru saman ummæli þessa hv. þm. við ummæli hv. þm. Str., að þá væri það út af fyrir sig ærið yrkisefni í langa ræðu, en þess er nú ekki kostur, þar sem komið er að fundarlokum. Þó vil ég aðeins segja það varðandi ummæli hv. þm. S.-Þ., að hjá honum gætti algers misskilnings, er hann staðhæfði í sambandi við þetta mál, að það sé ákveðið, að ekki megi verja þessum 300 millj. kr., sem taka á af inneign landsmanna erlendis, nema í vissum tilgangi. Þessi hv. þm. hefur sjálfur verið fús á að samþ. lög um viðskiptaráðið og raunar löngu áður verið með í sams konar löggjöf eða svipaðri og þessari, sem ákveður, að enginn eyrir af þeim erlenda gjaldeyri, sem þjóðinni félli til, megi verja nema með samþ. þeirra banka, sem á hverjum tíma eru taldir eigendur gjaldeyrisins.

Ég get ekki nema að örlitlu leyti vikið að ræðu hv. þm. Str., en mér þótti hún bera vott um mjög takmarkaðan skilning á því máli, sem hér er til umr., og að ætla sér að rekja lið fyrir lið öll þau rök, sem hann fullyrti um þetta mál, mundi taka of langan tíma. Ég hygg, að það skýri bezt þann mismun, sem ber á milli um sjónarmið okkar, sem að ríkisstj. stöndum, og þeirra, sem standa í stjórnarandstöðu, er hv. þm. Str. sagði öðrum þræði: Það er tilgangslaust að vera að tala um nýsköpun blátt áfram af því, að þið fáið engin tæki. - Hann lét jafnframt skína í það að þessi nýsköpun væri goðgá, sem færði böl yfir þjóðina. Sem betur fer er þessu ekki þannig háttað, heldur stendur málið þannig, að ég geri mér miklar vonir um, að ef hendur standa fram úr ermum, séu nú tækifæri og þeir tímar til þess að fá ýmis tæki, sem ég dreg í efa, að annars verði hægt að fá fyrr en allmörgum árum eftir styrjaldarlok. Ríkisstj. hefur nú í höndum skilríki. sem henni hafa verið send, um það að hún geti nú fengið mörg skip. En verði það látið dragast til ófriðarloka að ákveða að gera pantanir, er hætta á, að aðstaðan breytist, því að þá verða aðrir setztir að þeim eldi. Ég skal ekki fara lengra út í þetta, þar sem ég veit, að sumir hv. dm. vita, hvað við er átt, en vil þó endurtaka, að mikil líkindi eru til þess, að nú á næstu vikum muni takast að gera samninga um mjög mörg skip. Og ég staðhæfi enn fremur, að enda þótt ég dragi ekki í efa, að hæstv. fyrrv. ríkisstj. hafi gert það, sem í hennar valdi stóð, fyrir milligöngu sendiherra okkar í Washington, til þess að útvega landbúnaðartæki, þá sé það engin sönnun fyrir því, að ekki verði hægt að fá slík tæki nú innan næstu 1–3 mánaða, og heldur ekki sönnun fyrir því, að hægt verði að fá þau eftir 2 ár, ef við látum nú undir höfuð leggjast að kaupa þau, meðan hægt er. Það, sem skilur milli stefnu stjórnarandstöðunnar og okkar, er að ríkisstj. stöndum, er það, að stjórnarandstæðingar segja öðrum þræði: Það verður að færa niður tilkostnaðinn við framleiðslureksturinn áður en hafizt er handa um að kaupa tækin. — Við segjum hins vegar: Það verður fyrst og fremst að afla þessara tækja til þess að fá með hinni nýju tækni úrskurð um, hvort nauðsynlegt verður að gera kröfur á hendur þeim almenningi, sem lengst af hefur búið við skort, en býr nú við sæmilega afkomu, um það að falla frá þessum bættu skilyrðum eða ekki. Við, sem að ríkisstj. stöndum, vonum, að hin nýja og bætta tækni forði okkur frá að þurfa að bera þessa kröfu fram. Hins vegar viðurkenni ég, að verði ekki hægt að reka framleiðsluna þannig, að hún beri sig eða hægt verði að rísa undir kaupinu, þótt viðhöfð sé hin nýjasta og bezta tækni, þá er ekki um annað að gera en að fara fram á það jafnt við alla, að þeir geri nauðsynlegar tilslakanir. Þetta er meginmunurinn á stjórnarandstöðunni og okkur, sem að ríkisstj. stöndum. — Ég veit vel, að dýrtíðin hér skapar örðugleika, en ég veit þó um lönd, þar sem dýrtíðin er 600–800 stig, miðað við fyrir stríð, og ég veit líka, að í nokkurra áratuga framfarasögu íslenzks atvinnulífs finnast þess mörg dæmi, að ný og bezta tækni hefur skapað möguleika til þess að veita hinni starfandi hönd margar kauphækkanir á styttri tíma heldur en nú er gert ráð fyrir að kynnu að skapast með hinni nýju tækni. Ég játa, að ég geri mér ekki vonir um, að hin nýja tækni skapi sams konar framfarir eins og þegar togarinn kom í stað árabátsins og þilskipsins, en hins vegar veit ég, að á, mörgum sviðum verður hægt að halda uppi sama kaupi í ' framleiðslu landsmanna, þótt afurðaverð falli eitthvað, sem þó engin veit um. Ég hef fengið fregnir af nýrri tegund togara, sem eru. miklu minni og ódýrari í rekstri heldur en okkar togarar eru og fara eins vel eða betur í sjó og hafa jafnmikið burðarmagn fyrir afla eins og stærri skip hafa nú, og margt annað þessu líkt getur komið á daginn, þegar þar að kemur. En svo vil ég spyrja hv. þm. Str., sem var að tala um, hvað gert hafi verið í hans stjórnartíð, og sagði, að vandinn væri ekki annar en sá að færa niður bæði kaupgjaldið og afurðaverðið: Hvers vegna beitti hann ekki þessu heilræði, meðan hann hafði stjórnarforstöðu, úr því að þetta á að vera svo auðvelt fyrir okkur eins og hann vill vera láta, en samt fór vísitalan í hans stjórnartíð úr 100 upp í 182? — Hv. þm. Str. spurði, hvernig ætti að þvinga menn til þess að leggja fram fé í þessi nýju fyrirtæki. Ég vil benda á, að þegar Sjálfstfl. skrifaði öllum flokkunum bréf þann 14. sept. s.l. og gerði till. um málefnasamning, þá svaraði Framsfl. og féllst í öllum atriðum á efni þessa frv., og án þess að í þessu frv. væru nokkur ákvæði um kauplækkanir, og var það vitað af öllum meðlimum 12 manna n., að Framsfl. gerði ekki kröfur um annað en að stöðva dýrtíðina, og þó átti það ekki að vera til fyrirstöðu. En ef það er nú orðin slík áhætta að kaupa nú hin nýju tæki, án þess að kaupgjaldið lækki, hvernig ætlar þá hv. þm. Str. að verja gerðir Framsfl. meðan við andstæðingar hans vorum ekki komnir í stjórnina og meðan til stóð, að Framsfl. tæki þátt í stjórnarmyndun og hefði jafnvel forustuna? — Það má vel vera, að á meðan við eigum þessar 250 millj. dollara, beri okkur að halda varlega á þeim, en ég held, að sterlingspundin hafi ekki síður verðgildi. Hv. þm. Str. sagði, að það væri áhætta að taka af þessum dollurum á meðan ekki væri tryggt, að framleiðslan bæri sig. Ég vil minna á það, að Framsfl. hefur lagt það til, að 450 millj. ísl. kr. séu teknar frá í þessu sama skyni, en ekki 300 millj., eins og í frv. er gert ráð fyrir. Hvernig ætlar Framsfl. að tryggja, að þau tæki, sem kaupa á fyrir hans 450 millj., komi til með að bera sig? Fyrir því er ekki hægt að gefa neina tryggingu. Hv. þm. spáði því, að það mundi fara illa fyrir þessari nýskipun og mundi allt reka í strand. En. það rekur eins í strand, ef horfið verður að till. Framsfl., sem vill verja 450 millj. kr. til þess að kaupa fyrir hin nýju tæki. Ég vona, að ekki komi til með að þurfi að gera kröfur á hendur almenningi í landinu um kauplækkanir, en ef til slíks kæmi, væri það engin sönnun þess, að hér hafi verið skakkt að farið. Ef við hefðum ekki hnigið að þessu ráði, heldur hallað okkur að ráði Framsfl., eins og það er nú, hefði hafizt hér mögnuð atvinnustyrjöld, sem enginn veit hvaða endalok hefði fengið, nema þau, að hún hefði leitt stórkostlegar fjárfórnir yfir atvinnuvegi landsins og þjóðina yfirleitt, meðan við bærumst á banaspjót um skiptingu arðsins, þannig að framleiðslutækin væru orðin óarðbær og kostuðu stórkostlegt fé. Jafnvel þótt eitthvað þyrfti að draga úr kaupinu, eftir að búið er að reyna hina nýju og fullkomnu tækni, þá væri margfalt betur af stað farið en heima setið með þeim tilraunum, sem nú á að gera. Einnig vil ég segja það við hv. þm. Str., að ef svo skyldi fara, að hrakspár hans sannist, þannig að við yrðum neyddir til að lækka kaupgjaldið, áður en hin nýju tæki kæmu, þá vænti ég, að með samstarfi yrði unnt, án atvinnustyrjaldar, að hækka kaupið aftur í landinu, vegna bættrar tækni. En ef það hins vegar rætist, sem nú eru nokkrar horfur á, að við getum fljótt fengið þessi atvinnutæki, þá vona ég, að til slíks þyrfti ekki að koma. En hvað sem hins vegar verður upp á teningnum, þá er undir öllum kringumstæðum allt annað að koma til fólksins og segja: Við kölluðum á fjármuni og notuðum þá til kaupa á nýjum tækjum til þess að láta einskis ófreistað til að halda uppi atvinnuvegunum í landinu; það hefur tekizt, þó ekki eins fullkomlega eins og búizt var við, og nú komum við til ykkar, ekki aðeins sjómanna og verkamanna, heldur allra landsmanna, því að þá eru meiri líkindi til, að þessu verði við bjargað. Allt var gert, sem hægt var, til þess að þurfa aldrei að biðja um þetta.

Að lokum vil ég svo segja það, að ef ég vildi gagnrýna stefnu Framsfl. eins og mér virðist hann vilja gagnrýna stefnu ríkisstj., þá gæti ég spurt: Hvort er stefna Framsfl. sú að kaupa engin tæki meðan hægt er að fá þau, en draga það, þangað til aðrar þjóðir eru búnar að panta þau, eða sú að kaupa engin tæki, meðan við höfum nóg fé til þess, heldur að láta kaupin dragast nógu lengi, þangað til þeir fjármunir, sem við eigum nú, hafa haft nægan tíma til þess að renna út í sandinn?