21.11.1944
Efri deild: 72. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 351 í B-deild Alþingistíðinda. (74)

183. mál, nýbyggingarráð

Hermann Jónasson:

Það er mjög líklegt, að það verði fleiri þjóðir en við Íslendingar, sem vilja eignast þessa nýtízku togara, sem hæstv. forsrh. var að tala um, og þess vegna er hætta á, að þær þjóðir, sem framleiða þessa togara, láti okkur ekki beinlínis sitja fyrir þeim, heldur hugsi fyrst og fremst um að koma þeim upp fyrir sjálfar sig. Það liggur líka í augum uppi, hvort við getum keppt við þjóðir, sem hafa hálfu lægri framleiðslukostnað en við, en stunda veiðar á sömu miðum.

Viðvíkjandi stefnu Framsfl. verð ég að segja það, að ég held, að hæstv. ríkisstj. ætti ekki að verða svona mikið um það, þótt stjórnarandstaðan sé að benda á einhverjar veilur, því að sterkur málstaður verður sterkari við að rökræða hann.

Varðandi afstöðu Framsfl. í dýrtíðarmálunum, þá hefur hún alltaf verið sú sama síðan á árunum 1941–'42 og sú sama nú í samningan. s.l. haust, og ég held, að hæstv. forsrh. muni þá tíð, er hann lýsti því yfir við sósíalista, að hann gengi ekki inn á neina kauphækkun nema við Iðju. Ég býst líka við, að hann muni eftir því, áð hann lýsti yfir, er prentarar og járnsmiðir heimtuðu kauphækkun: Ef kauphækkun verður hjá þeim hæst launuðu, þá ríður dýrtíðaraldan yfir allt land, vegna þess að þeir, sem minna kaup hafa, vilja einnig fá hækkun. Nú er komin kauphækkun hjá þessum stéttum, svo að nú gilda sömu rökin, að þegar þeir, sem mest hafa í kaup, hafa fengið kauphækkun, þá ríður dýrtíðaraldan yfir allt land. Þá ættum við að vera búnir að læra nóg af því til þess að geta staðið að stöðvun dýrtíðarinnar á réttan hátt.

Þá spurði hæstv. ráðh., hvernig við ætluðum að tryggja, að þessar 460 millj. kæmu að þeim notum, sem við legðum til — hann talaði nú um 450 millj., en þar var um að ræða 460 millj. Það er tekið fram í grg. tillögunnar. Við álítum, að eina tryggingin fyrir því, að peningar verði geymdir, sé sú, að framleiðslan geti gengið og við getum flutt út sem svarar því, sem við þurfum að eyða til lífsframfærslu. Það er það, sem skilur á milli.

Hæstv. ráðh. segir, að það megi lýsa þessari stefnu Framsfl. þannig, að við viljum ekki kaupa atvinnutækin meðan hægt er að fá tækin. Við höfum aldrei haft á móti því, að keypt verði atvinnutæki, siður en svo. En við viljum, að jafnframt verði gerðar ráðstafanir til þess að hægt verði að reka þessi tæki, en þau standi ekki ónotuð og þá um leið verðlítil. — Enn fremur sagði hæstv. ráðh., að það væri alveg ólíkt ástand nú eða hefði stundum áður verið, nú væri atvinnufriður, en annars hefði verið áður atvinnustyrjöld í landinu. Jú, það var þannig, að ekki minna frjálslynd stjórn en sú, sem stjórnar Englandi, stóð á móti kauphækkunum í kolanámum og skipasmíðastöðvum, til þess að hleypa ekki inflammation að. Er það af fjandskap við verkalýðinn? Eða er það af fjandskap við verkalýðinn, að svipað hefur stjórnin í Svíþjóð gert og að Roosevelt hefur staðið í styrjöld til þess að koma í veg fyrir inflammation, vegna þess að almenningi gengur verr að skilja þá hluti en sérfræðingum, sem vita, hvar það lendir, ef ekki er komið í veg fyrir slíkt?

Ég sagði, að mér þætti leitt að vera með hrakspár, en rökin lægju þannig fyrir mér, að ég gæti ekki séð, að heppilega væri af stað farið í þessum efnum.

Og þegar hæstv. forsrh. var að tala um atvinnustyrjöld, sem hefði hlotið að koma nú, ef reynt hefði verið að stöðva dýrtíðina og síðar að lækka hana, — sem ég tel alltaf, að þurfi að vera fyrsta skrefið í áttina til nýsköpunar, og þess vegna lagði ég til við bændur, að þeir samþ. lækkun á afurðum sínum — þá vildi ég óska þess, að þegar þar að kemur, að þarf að fara að tala við bændur á ný um verð á framleiðslu þeirra, þá verði ekki sú sama atvinnustyrjöld eins og mundi hafa orðið nú, ef bændur hefðu ekki tekið á málum eins og þeir gerðu, en ríkissjóður hefði þá orðið nokkrum tugum millj. kr. fátækari og atvinnulífið enn þá verr statt en það er í dag. Því lengur sem það dregst, að við leiðréttum þann grundvöll, sem atvinnulífið verður að hafa, því verri verða árekstrarnir, því fátækari verður þjóðin. Því fyrr sem við lagfærum þennan grundvöll, því meiri von er um, að við getum bjargað atvinnulífi okkar, og ég óska þess, að hæstv. forsrh. eigi ekki það fram undan, sem hann er að tala um, að hefði þurft að leggja út í, ef ekki hefði verið gert það samkomulag, sem hann hefur gert um ríkisstjórn, og ég vona, að hann sé búinn að tryggja sér það, að til þess þurfi ekki að koma.