12.01.1945
Neðri deild: 103. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 660 í B-deild Alþingistíðinda. (747)

163. mál, manneldisráð

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er í nánum tengslum við frv. til l. um stofnun prófessorsembættis í heilbrigðisfræði í læknadeild Háskóla Íslands. Það mun hafa verið árið 1939, sem ráð var stofnað til manneldisrannsókna hér á landi, og ég ætla, að það hafi verið nú í vetur, sem útbýtt var hér á Alþ. skýrslu í sérstakri bók, sem kölluð var: Mataræði og heilsufar á Íslandi. Af þessari skýrslu var augljóst, að þessar byrjunarrannsóknir n., sem stofnuð var 1939, hafa varpað ljósi yfir nokkur atriði mataræðisins. Mér og öðrum þótti sýnt, að brýn þörf væri á, að rannsóknir þessar héldu áfram. Til þess að skapa þeim form í framtíðinni og jafnframt til þess að tengja þær rannsóknir við Háskóla Íslands, sem fyrst og fremst á að vera fræðistofnun á allt, en ekki hvað sízt það, sem íslenzkt er, er frv. þetta nú flutt. Með því er þessu manneldisráði skapað fast form í framtíðinni. Ætlazt er til, að væntanlegur prófessor í heilbrigðisfræði við Háskólann verði framkvæmdastjóri fyrir þetta manneldisráð, og þar af leiðandi yrðu þessar rannsóknir tengdar Háskólanum.

Fyrir liggur, hver kostnaður hefur verið við manneldisráð fyrstu 3 árin. Hefur hann numið um 10 þús. kr. á ári, og eitthvað svipað gæti maður búizt við í framtíðinni; annars er ekki hægt að segja nokkuð ákveðið um það, því að starfssvið manneldisráðs er svo víðtækt, og fer þá eftir ákvörðun Alþingis, hve mikið verkefni er tekið fyrir árlega. N. hefur talað við landlækni, sem var formaður gömlu n., um nauðsyn þess að halda þessum rannsóknum áfram, og telur hann það mjög nauðsynlegt. N. hefur fallizt á það og leggur til, að frv. verði samþ.