21.11.1944
Efri deild: 72. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 353 í B-deild Alþingistíðinda. (75)

183. mál, nýbyggingarráð

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. — Ég vil aðeins leiðrétta það, sem mér hefur ekki þótt rétt hermt viðkomandi minni ræðu. Ég viðurkenni ekki, að ég hafi rætt við hv. þm. Str. um, að það ætti eingöngu að hækka kaup hjá Iðju-fólki, en engum öðrum. Við ræddum um, að það yrði fyrst og fremst að taka þær vinnustéttir, sem hefðu átt í löngum verkföllum, alveg sér, og reyna að sætta þær á sérgrundvelli, en þegar búið væri að sætta þær, reyndum við að stöðva kauphækkanir að öðru leyti en því, að heimilaðar væru hækkanir til lagfæringar og samræmingar, enda orkuðu þær ekki á vísitöluna svo að neinu næmi. Þetta var það, sem um var talað.

Ég vil svo aðeins segja hv. þm. Str. það, að í Nd. bar Framsfl. fram í brtt.formi till. um, að teknar væru frá 450 millj. kr. í staðinn fyrir 300 millj., sem við gerum till. um. (HermJ: Ég hef ekkert út á það að setja, að það verði tryggt, að þeim verði ekki eytt til óþarfa.) En hv. þm. vill, að þær séu teknar frá þessar 450 millj., með því móti að alveg sé víst áður en þær eru brúkaðar, að framleiðslan beri sig. — Frá því að ég kom til vits og ára er ég búinn að vera við framleiðsluna, og ég hef aldrei vitað, að hægt væri að tryggja svona örugglega fyrir fram, að atvinnufyrirtækin beri sig. Og það er þess vegna, sem við atvinnurekendurnir erum annan daginn á hausnum, en hinn daginn sæmilega stæðir, af því að við getum aldrei fyrir fram tryggt, að framleiðslan geti borið sig. Og ég vil, að hv. þm. Str. geri okkur grein fyrir því, hvernig á að tryggja þetta. Ég vil feginn tryggja þetta. Og ég viðurkenni hans búmannshyggindi, sem koma fram í því, að hann vill tryggja þetta (HermJ: Á sumum tímum er ekki hægt að tryggja þetta, en á þessum tíma, sem við nú lifum á, er hægt að tryggja það). Nei, það er kannske aldrei erfiðara að vita, hvað þarf að færa niður, en nú, til þess að þetta sé tryggt. Skal ég svo ekki lengur deila um það. — Ég þakka hv. þm. Str. fyrir hans góðu óskir um, að ekkert illt verði á vegi mínum. Ég óska honum alls góðs og vona, að þær óskir rætist.