13.10.1944
Efri deild: 59. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 661 í B-deild Alþingistíðinda. (754)

164. mál, prófessorsembætti í heilbrigðisfræði

Forsrh. (Björn Þórðarson):

Herra forseti. — Þetta mál, sem hér er fyrir höndum, stendur í beinu sambandi við það mál (frv. til l. um manneldisráð) , sem nú var áðan afgr. hér í hv. d.

Í áliti manneldisráðsins var gert ráð fyrir því, að ráða þyrfti sérstakan framkvæmdastjóra til þess að halda áfram þeim störfum, sem sá framkvæmdastjóri hafði, sem starfaði af hálfu manneldisráðs þessi ár. Það var í undirbúningi þá löggjöf, sem nú hefur verið lagt fram frv. að. Þetta starf er þannig vaxið, að því er bezt fyrir komið með þeim hætti, að stofnað sé prófessorsembætti við háskólann í þessum fræðum. Nú sem stendur er það aukakennsla, sem fer fram í heilbrigðisfræði við háskólann. En með því að halda áfram þeim hugmyndum, sem manneldisráðið hefur gert sér far um að túlka, þá er málinu auðveldlegast og bezt ráðið með því móti, að það tvennt verði sameinað, heilbrigðisfræðin við háskólann og framkvæmdastjórastarf manneldisráðs. Og þess vegna er lagt til, að þetta embætti verði stofnað. Og nú hefur læknadeildinni nýlega áskotnazt gjöf úr sjóði Rockefellers til þess að kaupa nauðsynlegustu tæki til heilbrigðisfræðilegra rannsókna. Og til þess að þau tæki verði notuð eftir því sem vera ber, þá þarf þessi kunnáttumaður að vera fast tengdur háskólanum, og á því að vera svo fær sem kostur er á í þeirri grein. Og þetta verður bezt gert með því, að hann hafi prófessorsstöðu við háskólann.

Ég leyfi mér að óska þess, að frv. verði, að lokinni þessari umr., vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.