07.12.1944
Efri deild: 84. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 665 í B-deild Alþingistíðinda. (763)

164. mál, prófessorsembætti í heilbrigðisfræði

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Af því að mér sýnist sem það sé einhver tilhneiging til að láta þetta frv. verða að fótakefli öðrum málum um háskólann, vil ég taka fram, að mér sýnist kenna nokkurs misskilnings í þessu. Ég fæ ekki skilið, að mögulegt sé, svo að nokkur rök geti heitið, að hafa það á móti þessu frv. um fjölgun kennara við háskólann, að í uppsiglingu séu önnur frv. um sama efni. Sagt var, að þrjú slík frv. væru í uppsiglingu. Tvö þeirra hafa nú ekki sézt, og ég skil varla í því, að menn skuli vera að gera sér grýlur úr frv., sem ekki eru komin fram á þinginu, sem er senn á enda, frv., sem enginn hefur þar að auki séð. Það er ekki hægt að vera að gera hv. þm. þær getsakir, að þeir vilji samþ. þetta frv., en ekki hin, samþ. eitt þeirra, en ekki hin þrjú. Tvö þeirra eru sem sagt ekki komin fram, en þetta frv. vissu allir um, þegar afstaða var tekin til hinna, því að það var búið að vera hér fyrir þinginu og hv. d., þegar málið var afgreitt. Og svo hefur verið skýrt frá því hér, að þetta er algert aukaatriði hvað háskólann snertir. Að því er ég bezt veit, mætti gjarnan fella þetta frv. Það væru bara leiðindi að því, ef ætti að fara að leggja á háskólann kostnað af því, sem er í rauninni kostnaður við allt annað mál. Eins og hér væri verið að leggja aukakostnað á þjóðina vegna háskólans.

Ég mun fyrir mitt leyti greiða þessu frv. atkv., því að mér finnst það ekki slæmt. En ef þessi aukakostnaður á að verða til þess, að skólanum verði neitað um nauðsynlega kennara, tel ég það mjög illa farið. En ég býst við, að ekki þurfi meira um þetta að tala, hér sé ekki um slíkt að ræða.

Hv. þm. Dal. vitnaði til þess, að ég hafi sagt, þegar háskólafrv. var til meðferðar, að þetta væri aðeins áfangi. Ég ætla að vonast til þess, að þessi auking háskólans sé aðeins áfangi. Og vitanlega væri ekki nein skynsemi í því fyrir þingið að vera að samþ. aukningu við háskólann, ef það teldi það ekki vera þjóðinni til gagns, ef koma ætti upp kennurum við háskólann til þess eins að auka kostnað þjóðarinnar.

Ég ætla ekki að ræða frv., sem ekki liggja fyrir, en hygg, að þetta sé gert út frá því, að það borgi sig fyrir þjóðina að efla háskólann á þennan hátt.

Í sambandi við aths. hv. 7. landsk. um það að vísa málinu ekki til hv. menntmn., vil ég taka fram, að mér þætti heppilegt, að málinu yrði vísað þangað. Það er öllum hv. þdm. augljóst, að ef menn vilja feila þetta frv. inn í hitt, getur hver þdm. borið fram brtt. um það á sínum tíma, en ég sé enga þörf á, að það sé gert. Er mjög auðvelt að átta sig á þessu, þótt um tvö frv. sé að ræða í staðinn fyrir eitt.