07.12.1944
Efri deild: 84. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 668 í B-deild Alþingistíðinda. (768)

164. mál, prófessorsembætti í heilbrigðisfræði

Kristinn Andrésson:

Herra forseti. — Hv. 1. þm. Reykv. hefur svarað svo vel þeim athugunum, sem komið hafa hér fram um það að blanda þessum tveimur frv. saman, að ég hef þar ekki miklu við að bæta. Hann heldur fram, sem ég tel rétt, að hvort þessara frv. fyrir sig skuli ganga sinn gang hér í hv. d. Ég tel óeðlilegt að fella þessi tvö frv. saman, sem hv. 6. þm. Reykv. var að leggja til, að gert yrði.

Hv. 6. þm. Reykv. taldi nokkurn formgalla á frv. um breyt. á háskólal. á þskj. 308. Það frv. er samið af hv. menntmn. Nd., og þar á sæti einn af prófessorum í lögum við háskólann, og vil ég mega geta treyst því, að frá honum muni ekki koma formgallar í samningu frv. Þó að þarna sé margt að velli lagt í einu, eins og hv. 6. þm. Reykv. komst að orði, tel ég, að það sé einmitt til þess að geta tekið þessar breyt. fram í sem stytztu máli, sem með frv. er lagt til, að gerðar verði. Ef farið væri að fella þetta frv., sem hér liggur fyrir, inn í frv. um breyt. á háskólal., þá yrði sú breyt. á því til þess, að það frv. yrði að fara aftur til hv. Nd. En við höfum viljað leggja áherzlu á það í meiri hl. menntmn. þessarar hv, d., að það frv. væri samþ. óbreytt og afgreitt hér frá d., en því ekki stofnað í neina hættu með því að vísa því til hv. Nd. á ný. — Ég held, að við ættum að geta sameinazt um, að þessi frv. verði afgreidd hvort fyrir sig.