07.12.1944
Efri deild: 84. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 669 í B-deild Alþingistíðinda. (769)

164. mál, prófessorsembætti í heilbrigðisfræði

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. — Mér þykir nú hv. þm., sem síðast talaði, vera orðinn nokkuð óttafullur, þegar hann óttast, að máli sé dauðinn vís, ef það fari til hv. Nd. Ég held, sannast að segja, að hv. Nd. sé engan veginn sú ófreskja, sem hann virðist vilja vera látt, heldur. sé málinu, sem hann talaði um, á þskj. 308, vel borgið, þótt það færi aftur til Nd. Jafnvel þótt þingi ljúki svo fljótt sem bjartsýnustu menn gera ráð fyrir, þá er það svo, ef velvilji er fyrir hendi til afgreiðslu mála, að nógur tími er til þess að afgreiða það mál, þó að það færi aftur til Nd.

Ég get vel skilið, að menn vildu ekki blanda þessu máli inn í háskólafrv., ef það frv. væri heillegt frv. og um alveg samkynja efni innbyrðis. En því fer fjarri, að svo sé. Auðvitað er allt það frv. varðandi störf háskólans og fjölgun kennara þar. En þetta frv., sem hér liggur fyrir, varðar það líka. Frv. á þskj. 308 er um stofnun háskóladeilda og um lögfestingu á tveimur embættum í laga- og hagfræðideild, og loks er það um fjölgun kennara í norrænum fræðum. Mér virðist, að í slíku frv., sem fjallar um svo ólík efni, eigi líka heima lögfesting á embætti í kennslu viðkomandi læknisfræði.

Ég vil ítreka það, að fyrir mér vakti alls ekki að grafa þessu máli gröf. Ég hef ástæðu til þess, ekki síður — og kannske fremur en aðrir hv. þm., að vera háskólanum vinsamlegur og vilja veg hans og frama sem mestan, þar sem ég hef lengi við hann starfað og hef ekki annars en góðs að minnast þaðan. En mér virðist það ekki eiga að standa í vegi fyrir því, að mál, sem háskólann varða, séu athuguð á sem beztan hátt og afgreidd á sem hagfelldastan hátt.

Eitt af því, sem tímabært er nú að athuga, eru stærðarhlutföll deilda háskólans. Það er orðið þannig, að norrænudeildin þarf 5 eða 6 fasta kennara, og við læknadeildina eru svo margir kennarar, að það má ekki koma fram í l. um háskólann, hvað þeir eru margir, heldur verður að útbía þessu í sem flest lög, til þess að menn eigi sem erfiðast með að átta sig á því, hversu deildin er orðin stór. Og þá er ástæða til þess að athuga, hvort aðrar deildir háskólans, sem ekki síður hafa veigamiklu hlutverki að gegna, þurfa ekki að fá stækkun, t.d. lagadeildin. Ég álít, að sú hógværð, sem lagaprófessorar hafa sýnt, þar sem þeir hafa bætt á sig auknu starfi, svo að þeirra starf er orðið margfalt á við það, sem var, þegar háskólinn var stofnaður, eigi ekki að standa í vegi fyrir því, ef aðrar. deildir skólans eru stórum stækkaðar, að það sé þá tekið til athugunar, hvort ekki er rétt að stækka þá deild líka. Það er ekki ákveðið í l. um þá deild, að hver kennari skuli kenna aðeins ákveðnar fræðigreinar, heldur er ákveðinn kennarafjöldinn.

Þetta mál er margþættara að vissu leyti en látið er í veðri vaka. Það er nokkuð komið undir, ég vil ekki segja frekju, en áliti formannsins í hverri deild háskólans, hversu miklum auknum starfskröftum er bætt við í hverri deild fyrir sig. Og um þetta þarf vitanlega skýrari og heillegri ráðagerðir af hálfu þess opinbera en fram að þessu hafa verið hafðar í frammi. Og ég legg áherzlu á, að l. um þetta séu sem mest í heild, vegna þess að það mundi gera forráðamönnum háskólans á Alþ. og almenningi ljósara, hvað er að ske í þessum efnum. Ég vil ekki gerast meinsmaður þess máls, sem hér liggur fyrir, ekki á nokkurn hátt. En ég vil, að það liggi alveg skýrt fyrir, hvað hér er verið að gera, og ekki sé verið að blekkja menn, heldur skýrt fram sett, að hér er um að ræða stórfellda útþenslu háskólans.

Ég vil ekki fallast á, að það sé rétt að stofna prófessorsembætti eingöngu í heilbrigðisfræði. Mér finnst skynsamlegra að stofna prófessorsembætti í læknisfræði og leggja fyrir þann nýja kennara að sjá um kennslu í þessari grein án aukaþóknunar, en láta það vera undir vilja deildarinnar hverju sinni, hvernig kennslustörfum er skipt á milli manna innan deildarinnar, því að af löggjafans hálfu er þetta yfirleitt óbundið varðandi háskólann.

Hv. 1. þm. Reykv. hefur gersamlega misskilið frv. um manneldisráð. Það er ekki ætlazt til þess, að sá sérfræðingur, sem hér er um að ræða, prófessor í heilbrigðisfræði, komi undir það, sem segir í 2. málsgr. 1. gr. þessa frv., heldur á hann að vera beinlínis einn nefndarmanna í manneldisráði samkv. 1. málsgr. 1. gr., þar sem segir, með leyfi hæstv. forseta: „og skal að minnsta kosti einn þeirra vera sérfróður um heilbrigðis- og manneldismál.“ — Ég er ekkert á móti þeim vexti háskólans, sem með þessu verður, en ég vil, að menn geri sér grein fyrir honum. En mér virðist undarlegt, að jafnglöggur maður og vinur minn hv. 1. þm. Reykv., sem er starfsmaður við háskólann, skuli ekki gera sér ljósti, að það er háskólinn, sem á að stunda undir þessu og kosta þetta. (MJ: Þetta er kostnaður, sem annars yrði greiddur öðruvísi, en samt sem áður af ríkinu.) Það er gefizt upp við það af landlækni og þeim, sem samið hafa frv. um manneldisráð, að leggja fram frv. um varanleg útgjöld til manneldisráðs, og menn ætla þess vegna að fá embætti við háskólann sem geti staðið undir þessu. Þetta virðist mér eins, augljóst og verða má. Og annaðhvort verður háskólinn að vera með þessari málsmeðferð eða móti. Ef hann er með þessu, þá er þar um að ræða vöxt háskólans, og verður þá kostnaður af þessu færður á hans reikning.

Ég legg því til, að þetta mál verði ekki afgreitt hér í dag, þó að mér sé mjög á móti skapi að vera á móti till. jafnágæts manns og hæstv. félmrh., sem ég treysti til alls hins bezta. Og vil ég ekki láta það skoðast sem nokkurt vantraust á hæstv. ríkisstj., þó að ég vilji ekki láta afgreiða þetta mál hér frá þessari umr. nú í dag. Ég vil fá tækifæri til að athuga, hvort ekki er hægt að tengja þetta frv. við háskólafrv.