07.12.1944
Efri deild: 84. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 671 í B-deild Alþingistíðinda. (770)

164. mál, prófessorsembætti í heilbrigðisfræði

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Ég er í þeirri n., sem fjallar um þessi mál. Og ég átti að nokkru leyti upptök að því, að hið svo kallaða manneldisráð var skipað. Það var á þeim tíma, er þessi störf við háskólana, kennsla í manneldisfræði og heilbrigðisfræði, sérstaklega við háskólana á Norðurlöndum, hafði tekið miklum stakkaskiptum. Þetta starf, sem kann að verða lítið starf við Háskóla Íslands, er með allt öðrum hætti við háskólana nú orðið heldur en áður hefur verið. En við urðum fyrir þeim sorglega hnekki að missa í slysi einn af þeim mönnum, sem hafði undirbúið sig til þess að starfa á þessu sviði og ríkisstj. hafði hvatt til þess að mennta sig á því sviði, einmitt vegna þess, hve þetta starf er víðtækt.

Þó að ég viðurkenni margt, sem hv. 6. þm. Reykv. sagði viðkomandi stækkun háskólans, sem ég viðurkenni, að verður að afgreiða með fullkominni varúð, eins og yfirleitt fjölgun á embættum, sem hefur orðið ákaflega mikil undanfarið, þá álít ég, að ekki verði hjá því komizt fyrir okkur, ef við viljum halda uppi sæmilegri kennslu í læknisfræði, að afgreiða þessi mál með einhverju móti þannig, að starf í þessum efnum við háskólann geti átt sér stað. Ég skal taka undir það, að það getur verið álitamál, hvort rétt er að afgreiða þetta mál út af fyrir sig eða í sambandi við annað mál, sem nefnt hefur verið hér. En það, sem ég vildi hér sérstaklega taka fram, er það, að þó að ég vilji með mikilli varúð fjölga embættum í landinu, þá er ég ákaflega hiklaus í því að fylgja fram því máli, sem hér liggur fyrir. Og þetta er í samræmi við það, sem nú er viðurkennt af læknisfræðilegum deildum við aðra háskóla, að þetta atriði er orðið stærri námsgrein og stærri þáttur í starfi háskóla en áður hefur verið. Ég efast t.d. mjög mikið um það, að það verði lítið hlutverk fyrir þennan prófessor, sem á að kenna heilbrigðisfræði við háskólann, að vera jafnframt í n., sem fram er tekið um í frv. um manneldisráð, og annast heilbrigðisfræðilegar rannsóknir fyrir ríkisstj., þar á meðal manneldisrannsóknir í samráði við manneldisráð.

Það er vitað mál, að nú eru komnar meiri breyt. á um allt, sem snertir manneldi, en verið hefur um langan tíma. Þess vegna eru komnar fram margs konar kenningar um manneldi, sem mikið gætir í öðrum löndum, og því þykir full ástæða fyrir háskóla hvers lands að hafa sérfróðan mann í þessum málum og láta hann segja fyrir um eitt og annað og leiðrétta kenningar, sem mjög er haldið á loft, sem kannske er lítið til bóta fyrir alinenning að gleypa við.

Ég er ekki fær um að fara inn á sérstakar kenningar um þetta mál, en ég get upplýst, að háskólar í Ameríku hafa gert matseðilinn fyrir ameríska herinn, og er það stærsta tilraun, sem gerð hefur verið í þessu efni, og fyrir það hefur sjúkdómum í hernum fækkað svo, að undrum sætir. Ég er því viss um, að starf þessa manns ásamt rannsóknum á þessu sviði verður mjög yfirgripsmikið. Skýrsla sú, sem við höfum fengið í sambandi við þá rannsókn, sem hafin var árið 1939, er ekki ómerkilegt plagg. Þar eru meira að segja mörg atriði, sem eru ákaflega þýðingarmikil fyrir okkar þjóð.

Ég vil svo ekki orðlengja frekar um þetta. Það var aðeins þetta eina atriði, sem ég vildi taka fram. Ég get tekið undir margt, sem hv. 6. þm. Reykv. sagði um þetta, en ég hika ekkert við að fylgja því, að þetta embætti verði stofnað, og ég álít það meira að segja of seint og hefði betur verið fyrr gert, því að það er atriði, sem læknisfræðin hefur lagt of litla áherzlu á, að fyrirbyggja sjúkdóma, en nú eru menn að komast á þá skoðun, að manneldissjúkdómar eru fleiri en menn hafa álitið hingað til. Ég tel því engan efa á, að þetta starf verði fullkomið starf, og ég mun því greiða atkv. með því, að frv. sé afgr. og bæði frv. látin verða samferða, þó að ég viðurkenni, að kannske hefði farið betur á því að fella bæði málin saman í eitt frv. og að það hefði að ýmsu leyti verið skynsamlegri afgr., en ég álít það ekki skipta svo miklu máli, að það varni því, að ég greiði atkv. með frv. eins og það liggur fyrir.