24.11.1944
Efri deild: 75. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 353 í B-deild Alþingistíðinda. (78)

183. mál, nýbyggingarráð

Frsm. meiri hl. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er eitt með stærri málum, sem legið hafa fyrir Alþ., kannske bæði fyrr og síðar, hvort sem snertir þá fjárhæð, sem um ræðir í frv., eða þær ráðstafanir og framkvæmdir, sem þar eru ráðgerðar. Samt sem áður hefur fjhn. ekki þurft að eyða löngum tíma til að athuga málið, vegna þess að þetta frv. er, eins og grg. þess ber sér, í samræmi við málefnasamning þann, er gerður var milli þriggja stjórnmálaflokka og leiddi til stjórnarmyndunar. Um efni þess hefur því verið þaulrætt og um það samið utan þings, áður en það kom hér fram. Mér virðist einnig, eftir meðferð málsins í hv. Nd. að dæma, að sá flokkur, sem ekki tók þátt í þessum samningi um samvinnu og stjórnarmyndun, sem sé Framsfl., sé í grundvallaratriðum heldur ekki á móti efni þessa frv. Þótt ég ætli ekki að fara að tala fyrir hönd þess flokks, virðist mér, að einu brtt., sem fram komu í hv. Nd., beri þess vitni. Önnur breytingin miðar aðeins að því að ganga enn lengra inn á þær brautir, sem frv. bendir á, en brtt. við 2. gr. frv. eru frekar um fyrirkomulagsatriði og eru allar þannig vaxnar, að þær rúmast fullkomlega innan umgerðar frv., þótt þar sé mun nákvæmar til tekið.

Meiri hl. fjhn. mælir með, að frv. verði samþ. óbreytt. Að vísu hefðum við viljað breyta orðalagi lítils háttar, aðeins til lagfæringar á málinu, þar sem við kunnum ekki vel við orðatiltæki 2. gr. frv., þar sem segir: „Hlutverk þess er að búa til heildaráætlun ...“ Okkur finnst, að farið hefði betur á að segja: „... að gera áætlun um heildaráætlun,...“. Þar sem þetta er hins vegar síðari deildin, sem frv, kemur til, er óþarfi að vera að þvæla málinu milli d. vegna slíkra smáatriða. Ég skal einnig geta þess, af því að minnsta kosti ein rödd hefur komið fram um það í fjhn. og óskað, að þess yrði getið, að í raun og veru hefði veríð rétt að orða 3. gr. frv. á dálítið svipaðan hátt og í brtt., sem kom fram í hv. Nd. um það, að mþn. þeim, sem nú eru starfandi, skuli setja ákveðið tímatakmark til að ljúka störfum. Hins vegar finnst okkur ekki ástæða til að gera breyt. út af þessu, þar sem samkv. 3. gr. er heimilað að hafa þá aðferð að fela nýbyggingarráði störf þessara mþn. og þær svo lagðar niður jafnóðum og nýbyggingarráð tekur við störfum þeirra, en eftir því orðalagi er heimilt að setja þeim ákveðinn frest til að ljúka störfum og þær síðan jafnóðum lagðar niður. Ég vil svo aðeins geta þess, að ég minntist á þetta, þar sem þess var óskað, að þetta kæmi fram hér við umr. Skal ég svo ekki orðlengja þetta frekar f.h. meiri hl., en legg til, að frv. verði samþ. óbreytt.