12.01.1945
Neðri deild: 103. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 677 í B-deild Alþingistíðinda. (799)

164. mál, prófessorsembætti í heilbrigðisfræði

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Hv. 2. þm. N.-M. sagði, að með þessu frv. væri í raun og veru ekki um mikla breyt. að ræða, hvað snerti útgjöld fyrir ríkissjóð, heldur væri það aðallega formsbreyting, því að sá maður, sem ætlað væri þetta prófessorsembætti, væri þegar kennari við háskólann. En þessi maður er þar aukakennari með mjög lágum launum nú. Og það er mjög mikill munur á því að vera þar aukakennari með lágum launum eða vera prófessor í fastri stöðu. Það er mikill munur á þessu tvennu. Ég skal svo ekki fjölyrða um það, ég vil ekki tefja þetta mál. En ég vil samt endurtaka það, út af því, sem hv. frsm. sagði, að ástæða mín til þess að vera á móti þessu frv. er sú, að mér virðist, að ekki verði hjá því komizt að drepa einhvers staðar niður fótum á þeirri braut, sem þingið er komið á nú, að stofna ný embætti, hvort sem það nú nefnist í dauðum eða lifandi fræðum. Ég hygg, að það sé búið að sjá nokkur dæmi þess nú á Alþ., að tiltölulega lítillar varúðar gætir hjá þinginu og fjárveitingavaldinu.

Og þess vegna er það því betra, því fyrr, sem drepið er niður fótum. Og þess vegna er það, að ég sé mér ekki fært að styðja þetta frv., þar sem ég sé heldur ekki, að knýjandi nauðsyn sé að afgr. þetta mál.

Sá maður, sem þetta, frv. er borið fram til þess að verði prófessor, er þegar starfandi við háskólann, og ég hygg, að að honum sé svo búið að öðru leyti, að hann sé ekki á flæðiskeri staddur.

Ég vil svo, út af því, sem hv. 1. þm. Rang. sagði, aðeins endurtaka það, að það er ekki vegna neinnar lítilþægni hjá mér, að ég las upp hér úr áliti fjvn. um till. okkar um landhelgismálin. Það stendur þarna, að stefna okkar í þessum málum hafi verið rétt. Og þegar við það bætist, að till. var afgr. svo, að við máttum vel við una, er óþarfi að segja, að það sé af lítilþægni okkar flm., að við erum ánægðir með afgreiðslu málsins.