12.01.1945
Neðri deild: 103. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 684 í B-deild Alþingistíðinda. (809)

217. mál, skipun læknishéraða

Jakob Möller:

Ég vil, að hv. þm. geri sér það ljóst, hvaða ástæður það eru, sem þessir menn geta haft til þess yfirleitt að vera á móti þessari skiptingu. Þeir gera þá grein fyrir því, að þetta svæði þurfi allt að heyra undir Reykjavíkurlæknishérað, að fólkið á þessu svæði hafi aðallega samgang við Reykjavík. En í því sambandi er vert að gá að því, hvaðan héraðslæknir fær upplýsingar um heilbrigðisástandið á þessu svæði. Hjá þeim læknum, sem sinna sjúklingum á þessu svæði. En héraðslæknirinn hefur aðeins á hendi skrifstofustarf um heilbrigðismál og eftirlit með sóttvörnum. En upplýsingarnar, sem hann þarf til þess að geta staðið í sinni stöðu sem héraðslæknir, aðeins að þessu leyti, fær hann frá þeim læknum, sem sinna læknisstörfum á hverju svæði fyrir sig.

Þarna er svæði, sem enginn læknir er skyldugur að sinna. Héraðslæknirinn í Reykjavík er ekki skyldugur að sinna því. Menn halda því fram, að það sé ekki rétt hjá mér, heldur séu praktíserandi læknar skyldugir til þess að sinna sjúklingum á þessu svæði. Það geta verið til ákvæði um það, en það er dauður bókstafur. Maður getur símað til allra lækna í Reykjavík, e.t.v. er hægt að fá einhvern, en oftast mun heyrast sama svarið: „Ég get því miður ekki komið, ég þarf að sinna læknisstörfum hér.“ Þar við bætist það svo, að þetta svæði, sem hér er um að ræða, er svo landfræðilega samhangandi héraðinu, sem heitir Álafosslæknishérað, að það er ekkert vit í að skera það sundur. Það mundi engum manni detta í hug að skera það frá annars staðar á landinu, ef ekki stæði svo á, að þetta svæði hefði ekki verið lagt undir lögsagnarumdæmi Reykjavíkur. Þetta svæði heyrði ekki til læknishéraði Reykjavíkur fyrr en eftir að hin nýju l. voru sett um að leggja þetta undir lögsagnarumdæmi Reykjavíkur. Það lá undir Álafosslæknishérað og sumpart undir Hafnarfjarðarlæknishérað. Það er enn fráleitara að leggja það undir Hafnarfjarðarlæknishérað heldur en Reykjavíkurlæknishérað, ef aðeins héraðslæknirinn í Reykjavík væri ekki undanþeginn því að gegna læknisstörfum. Að öðru leyti væri eðlilegra að láta það heyra undir Reykjavíkurlæknishérað, því að ef Hafnarfjarðarlæknir ætti að sinna þessu, þá yrði hann að fara gegnum Reykjavík.

Við höfum ekki þessa tvo embættismenn til þess að tala við um þetta. Þeir bjóða aðeins að taka þetta mál til velviljaðrar athugunar, en lofa engu um það. En það er engin skynsamleg ástæða til að fresta því, og mun hv. d. skera úr um þetta.