12.01.1945
Neðri deild: 103. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 685 í B-deild Alþingistíðinda. (811)

217. mál, skipun læknishéraða

Jakob Möller:

Hv. 2. þm. N.--M. var að tala um það, að ég væri seinn til að sjá, en hann virðist aldrei ætla að sjá, og það virðist líka vera fastur vilji hjá honum að vilja aldrei sjá.

Það er rétt, að ég hreyfði engum andmælum gegn þessari lagasetningu á síðasta þingi, en það var af því, að þetta var leyst með sérstökum hætti, sem ég áleit, að lög stæðu til, en nú er það gerbreytt. Það er margt af fólki, bæði á þessu svæði og annars staðar, sem ekki er í sjúkrasamlagi, fólki, sem alls ekki er tryggingarskylt, því að það eru hvergi nærri allir landsmenn tryggingarskyldir; þeir eru það ekki nema til ákveðins aldur, og þar að auki er fjöldi fólks, sem er þó tryggingarskyldur, en hirðir ekki um að tryggja sig og hefur reynzt mjög erfitt að halda í tryggingu. Um þetta fólk þarf líka að hugsa og ekki síður en hitt. Þá fæ ég ekki betur séð en hv. 2. þm. N.-M. hafi láðst að færa sönnur á það, sem hann hélt fram, að þessu fólki væri séð fyrir læknum, burt séð frá sjúkrasamlaginu. Hv. þm. fullyrðir, án þess að færa nokkur rök fyrir því, að þetta svæði heyri undir héraðslækninn í Reykjavík, en hann gengur framhjá því, hvernig háttað er um störf héraðslæknis Reykjavíkur, að honum er bannað að sinna læknisstörfum. Og hvaða gagn er að því fyrir fólkið að vera í læknishéraði, sem enginn héraðslæknir er í? Ég skal ekki fullyrða um það, hvort einhver lagabókstafur er fyrir því, að praktiserandi læknar séu skyldugar til þess að hlýða kalli. En það er þýðingarlaus bókstafur. Það er undir geðþótta þeirra komið, hvort þeir vilja sinna kalli. En þeir geta alveg haft ástæðu til þess að færast undan. Og ég veit, að bæði hér og í læknishéraði Akureyrarkaupstaðar er það yfirleitt ómögulegt að fá praktíserandi lækna til þess að sinna læknisstörfum í héruðum utan bæjanna.

Nú skal ég víkja stuttlega að því, hvernig mörkin eru sett, samkvæmt þessum l. frá 1. jan. 1944, sem hv. 2. þm. N.-M. talaði um. Mörkin eru þó óljós, — það eru þarna tvær heiðar, Hólmsheiði og Grafarheiði, — hvaða mörk eru það? Á þessum heiðum eru svo og svo mörg býli. Í hvaða læknishéraði eru þau býli? Ég veit, að tilgangurinn með þessari ákvörðun um læknishéraðamörkin er að telja byggðina sunnan við Grafarholtsvog, sem kallast Smálönd, sem er þyrping sumarbústaða, með Reykjavíkurlæknishéraði. En hvort heyrir það til Reykjavíkur- eða Álafosslæknishéraði? Mér skilst það sé byggð í fætinum á Grafarheiði, en Grafarheiði öll á að vera mörkin, — hvar er þá þessi byggð? Ég tel vafasamt, að hún tilheyri Reykjavíkurlæknishéraði. Eru það ekki suðurmörk Grafarheiðar, sem eru mörkin? Ég tel það nauðsynlegt að ákveða þetta nánar. Og þarna hygg ég sé fólk, sem ekki veit, í hvaða læknishéraði það er.

Hv. 2. þm. N.-M. vísar til þess, að landlæknir hafi boðið að athuga þetta á milli þinga til hausts. Það er ekki annað en fyrirheit um að athuga þetta. En svo verður þingið að skera úr um þetta.