17.11.1944
Neðri deild: 76. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 697 í B-deild Alþingistíðinda. (849)

120. mál, fólksflutningur með bifreiðum

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. — Þessi l. um fólksflutninga með bifreiðum eru nú orðin 10 ára. Þau eru frá 1935, og hefur lítið verið við þeim hróflað, síðan þau voru sett. Það er því ekki undarlegt, þar sem hér var um algerða frumsmíð að ræða, að reynslan hafi sýnt fram á ýmislegt, sem betur mætti fara, og komið hafi fram nauðsyn á breytingum, sem nú hefur og verið gert í frv. formi, og liggur frv. fyrir þessari hv. d. Ég hef athugað þetta frv. og get verið því sammála í meginþáttum. Það eru aðeins örfá atriði, sem mig langar til að fara um nokkrum orðum. Í fyrsta lagi er 6. gr., um sérleyfisgjald. Það var, eins og kunnugt er, ekki í þessum l. upphaflega, eins og tekið var fram af hv. frsm. Þetta gjald, sem nú er kallað sérleyfisgjald, er upphaflega komið inn í l. sem skattur til Ferðaskrifstofu ríkisins og var eingöngu sett til að halda uppi hennar starfsemi. Þetta gjald var þá 5% af andvirði farmiðans. Ég get vei fallizt á, að það sé haft 7%, eins og hv. n. leggur til, en stökkið upp í 10% er hins vegar nokkuð mikið. Síðan ferðaskrifstofan var lögð niður, hefur þetta gjald verið notað til að stuðla að því að koma upp gistihúsum úti um landsbyggðina, bæði til að stuðla að því, að þau settu upp hreinlætistæki og að þau uppfylltu lágmarkskröfur um hreinlæti, en á það hefur víða skort. Ég hefði talið æskilegt, ef möguleikar hefðu verið á því, að þetta gjald yrði að einhverju leyti notað til hins sama. Ég hef ekki hugsað mér að koma fram með brtt. við þessa umr., en vildi spyrjast fyrir um það, hvort hv. samgmn. sæi sér ekki fært að athuga þetta atriði. Ég mundi þá leggja það fyrir hv. d. í brtt. formi, svo að það kæmi fram, hvort hv. þm. vildu halda þessu áfram eins og verið hefur.

Um annað atriði vildi ég líka fara nokkrum orðum. Það er 4. gr., en þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Ráðuneytinu er heimilt að taka í sínar hendur afgreiðslu sérleyfisbifreiða og bifreiða með undanþágu gegn afgreiðslugjaldi, er það ákveður. Þess er bæði getið í grg. og eins í framsöguræðu hv. frsm. n., að slík stöð kæmi, að minnsta kosti í Reykjavík og ef til vill líka á Akureyri. Á því er enginn vafi, að brýn nauðsyn er á, að einhver miðstöð verði höfð, þar sem bifreiðar kæmu inn á og færu frá, til hægðarauka fyrir þá, sem hafa við þær viðskipti. En það er ljóst, að ef þessari afgreiðslumiðstöð verður komið upp hér í Reykjavík, eins og hún þarf að vera, þá er það fyrirtæki, sem mundi kosta 1–2 millj. kr., eins og verðlag er nú, og það er sýnt, að með þessu fé fæst ekki sú upphæð greidd, svo að það verður að hafa önnur ráð til þess, og vildi ég því spyrja hv. n., hvort hún ætlist til, að í l., eins og hér er frá þeim gengið, felist að hennar dómi heimild til að reisa þessa miðstöð, eða hvort ekki þarf sérstaka heimild til að greiða andvirði hennar úr ríkissjóði. Í 1. gr. er heimild fyrir ráðuneytið til að taka í sínar hendur að nokkru eða öllu póst- og farþegaflutning. Þetta hefur verið skilið svo, að í því og eins í 4. gr. felist heimild til að kosta byggingu slíkrar miðstöðvar og nauðsynlegan útbúnað, en um þetta óska ég skýrari ákvæða, svo að um þetta geti ekki orðið neinn ágreiningur, ef til þessara framkvæmda kemur, sem ég býst við, eins og þeir, sem um þetta hafa talað.

Í þriðja lagi vil ég minnast á þann ágreining, sem er milli hv. þm. V.-Sk. og annarra hv. nm. varðandi þetta mál. Ég skal lýsa yfir því fyrir mitt leyti, að ég er sama sinnis og hann, og ég tel það ekki heppilegt að binda sig við það á þessu stigi málsins, að póststj. ein hafi yfirstj. þessara mála. Nú virðist mér aftur, að málið sé að komast inn á þann vettvang, að meira eða minna af þessum rekstri verði yfirtekið af ráðuneytinu eða umboðsmönnum þess, sem fara með þessi mál, þótt yfirstjórn þessara mála verði á hverjum tíma að hafa mjög nána samvinnu við póststjórnina. Eins og þetta er orðað í 7. gr. frv., þar sem segir, „að ráðuneytið geti falið ákveðinni stofnun að hafa eftirlit með fólksflutningum í bifreiðum“, þá er engin stofnun ríkisins útilokuð. En brtt. hv. meiri hl. n., virðist stefna að því að útiloka, að öðrum aðilum en póststjórninni verði falið þetta, og það held ég, að sé ekki alls kostar heppilegt, eða a.m.k. hefði ég heldur kosið, að það væri orðað á þá leið í frv. sjálfu, að opin leið væri fyrir ráðherra að fela málið þeirri stofnun, sem hann kann að óska eftir. Og ég sé strax, eins og hv. þm. V.-Sk., ýmsa annmarka á að fela málið póststjórninni.

Ég skal svo ekki hafa um þetta fleiri orð. Það eru ekki í frv. neinar verulegar eða róttækar breyt. frá þeim l., sem nú gilda um þetta, svo að mér virðist, eins og ég sagði áðan í upphafi ræðu minnar, að sú tilraun, ' sem gerð var með þessum l., sem sett voru fyrir tíu árum og voru þá alger frumsmíð, hafi ekki verið farin að reynast mjög óviðunanleg.

Ég vildi aðeins geta þess, að það er ef til vill heppilegra að leiðrétta í prentun, að það er talað um atvinnumálaráðuneytið, en þetta mál heyrir undir annað ráðuneyti. Það er skemmtilegra að orða það rétt.