15.01.1945
Efri deild: 102. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 703 í B-deild Alþingistíðinda. (867)

120. mál, fólksflutningur með bifreiðum

Frsm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. — Samgmn. hefur haft þetta frv. til athugunar og gert við það nokkrar brtt. Fyrsta brtt. n. er eiginlega leiðrétting við 1. gr. frv. og er um, að í stað orðsins „atvinnumálaráðherra“ komi: ráðherra. Kemur þetta til af því, að nú er það ekki atvmrh., sem fer með samgöngumál, heldur samgmrh. Þótti samgmn. rétt að gera þessa leiðréttingu. Þá er í 1. brtt. n. lagt til í b-lið, að í stað orðsins „Atvinnumálaráðuneytinu“ í 2. málsgr. 1. gr. komi: Ráðuneytinu. Þetta er hvorugt nein efnisbreyt. — Hins vegar hefur n. gert till. um nokkra, efnisbreyt. við 2. gr. frv., um það, hvernig sú n., sem á að gera till. um fyrirkomulag og rekstur á fólksflutningunum, skuli vera skipuð. Í frv. eins og það lá fyrir upphaflega var lagt til, að 5 manna nefnd sé skipuð til þessa og að ríkisstjórnin skipaði tvo af þeim, Alþýðusambandið einn og sérleyfishafar tvo. Í hv. Nd. var þessu breytt á þann veg, að ríkisstjórninni er ætlað að skipa aðeins einn mann í n. án tilnefningar, en hinir fjórir séu skipaðir þannig, að tveir séu útnefndir af sérleyfishöfum, einn af Alþýðusambandi Íslands og einn af Búnaðarfélagi Íslands.

Samgmn. gat ekki séð, að það væri nauðsynlegt, að í þessari n. væru 5 menn, og fannst þunglamalegt að hafa svo marga menn í n. Það er búið að koma þessum málum í nokkuð fast form. N. fannst því nóg að hafa 3 menn í n. til þess að rækja þetta starf með þeirri stofnun, sem þetta verður falið. Leggur samgmn. því til, að 3 menn séu í þessari n. Ég persónulega hefði óskað, að það hefði verið falið hæstv. ráðh. á hverjum tíma, sem fer með þessi mál, að útnefna mennina. En um það varð ekki samkomulag í n., heldur að ráðh. skipaði einn án tilnefningar, sem væri formaður n., Alþýðusamband Íslands einn og sérleyfishafar skyldu kjósa einn. — Frá því fyrsta, er ég hef haft kynni af þessum málum, hefur því verið haldið fram, að því færri menn í þessa n., sem skipaðir væru af sérleyfishöfum, því betur væri þessum málum skipað. Mín kynni af þessum málum hafa leitt mig inn á þá skoðun, að bezt væri, að þessi mál væru sem mest í höndum ráðuneytis, úr því að l. er breytt á annað borð. En að fara að seilast til annarra aðila, eins og Búnaðarfélags Íslands, gæti skapað kröfur um það, að t.d. Fiskifélag Íslands eða félagsskapur útgerðarmanna gerðu kröfu um að fá að skipa mann í þessa n. Og samkomulag varð um það í samgmn. að leggja til, að það væri fellt úr frv., að Búnaðarfélag Íslands skipaði mann í þessa n.

Þá gerir samgmn. einnig brtt. við 7. gr. frv. um það, að orðin „eða annarri stofnun“ falli niður. Í 7. gr. er ákveðið, að ríkisstjórninni sé heimilt að fela póststjórninni eða annarri stofnun að hafa með höndum yfirumsjón og eftirlit með fólksflutningum í bifreiðum, er sérleyfi og undanþágu þarf fyrir. En það lágu ekki fyrir neinar upplýsingar um það, hvort hugsuð væri einhver önnur stofnun í þessu sambandi. Og hæstv. samgmrh. sagðist ekki hafa neina sérstaka stofnun aðra í huga í þessu sambandi. Við í samgmn. gátum ekki séð, að það væri eðlilegt, að þetta væri falið einhverri annarri stofnun. Ef um aðra stofnun væri að ræða til þess, kæmi varla til mála önnur stofnun en Skipaútgerð ríkisins, sem væri kannske það eðlilegasta, — en okkur fannst það ekki nægilega undirbúið, — nema það vekti fyrir hæstv. ríkisstjórn að setja upp sérstaka nýja stofnun til þess að taka við þessum málum. En því var samgmn. á móti, svo framarlega að ekki komi sérstök greinargerð fyrir því og kostnaðaráætlun. Þess vegna leggur samgmn. til, að orðin „eða annarri stofnun“ falli niður.

En í sambandi við þetta vil ég leyfa mér að benda á, að með 1. gr. frv., eins og hún er á þskj. 545, er ráðh. í raun og veru gefin ákaflega víðtæk heimild til þess að ráðstafa þessum málum eins og honum þykir bezt henta, því að þar stendur: „Atvinnumálaráðuneytinu er heimilt að taka í sínar hendur að nokkru eða öllu leyti póst- og farþegaflutning með eigin bifreiðum á þeim leiðum, er því þykir henta ...“ Þetta bendir til þess, að ráðh. geti ráðið nokkuð mikið yfir þessum málum, eftir þessari 1. gr. frv., ef að l. verður. Einnig með tilliti til þessa ákvæðis þótti samgmn. ekki ástæða til að láta þessi áminnztu orð í 7. gr. standa þar og af því að n. álítur ekki, að það eigi að setja á stofn nýja stofnun til þess að reka þessi mál.

Þessi samgöngumál eru nú öll í þeirri deiglu, að það getur komið til mála að breyta ákvæðum um þau fljótt aftur. Eftir reynslu minni í mþn. í póstmálum hygg ég, að e.t.v. muni verða gerðar róttækar breyt. á póst- og símamálum að því er stjórn þeirra við kemur, e.t.v. að aðskilin verði stjórn á pósti og síma. Og ef svo yrði, gæti náttúrlega vel komið til mála, að póststjórnin hefði betri aðstöðu til þess að hafa þessi fólksflutningamál með höndum.

Samgmn. leggur til, að frv. verði samþ. með þeim breyt., sem fram eru komnar till. um frá n. á þskj. 763.