17.01.1945
Efri deild: 104. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 706 í B-deild Alþingistíðinda. (873)

120. mál, fólksflutningur með bifreiðum

Þorsteinn Þorsteinsson:

Herra forseti. — Mál þetta var lagt fyrir d. í fyrradag, og var þá gerð breyting á frv. eins og það var upphaflega. En við 2 þm. höfum komið okkur saman um að flytja skriflega brtt. við 2. gr. frv., þannig að fyrri málsgrein orðist svo:

„Til þess að gera tillögur til ráðuneytisins um fyrirkomulag og rekstur allan á flutningum samkvæmt lögum þessum skal vera fimm manna nefnd. Ráðherra skipar nefndina þannig: Einn að fengnum tillögum Alþýðusambands Íslands, annan að fengnum tillögum Búnaðarfélags Íslands og tvo að fengnu áliti sérleyfishafa. Fimmta nefndarmanninn skipar ráðherra án íhlutunar, og er hann formaður.“

Önnur till. er það, að ef þessi brtt. verður samþ., þá falli niður í næstu málsgr. orðin „og kosin“, af því að þá er ekki nauðsyn á því, að neinn sé kosinn af þessum 3 nefndarmönnum. Okkur finnst eðlilegt, að þeir menn, sem hafa kannske einna mest not af þessu skipulagi, sérstaklega þeir, sem í byggðum og sveitum landsins búa, hafi einhvern málsvara fyrir sig, þegar á að skipuleggja þessar ferðir. Það, sem almennt vantar, eru aukaferðir eða hliðarlínur út frá meginlínunni út um sveitirnar. Það þarf mann, sem er kunnugur þessum þörfum, til þess að gera till. um þau atriði. Þessi n. mun verða lítið launuð, og þó að 5 menn séu í n. í stað 3, þá er enginn eða lítill munur á greiðslu til þeirra. Og það er ekki rétt að draga burtu fulltrúa frá Búnaðarfélaginu eða málsvara dreifbýlisins, þegar látinn er vera málsvari fyrir Alþýðusambandið. Það hefur jafnan verið svo hér á þingi, að það hefur verið látið haldast í hendur, að það væri einn maður frá hverri stétt í svona málum. Annars skal ekki þrautrætt meira um þetta atriði.