12.09.1944
Neðri deild: 48. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 713 í B-deild Alþingistíðinda. (928)

96. mál, flugvellir

Atvmrh. (Vilhjálmur Þór):

Þetta frv. er að undirstöðu til gert samkv. áliti þriggja manna n., sem sett var af ríkisstj. til að athuga mál þessi, og voru í n. Geir Zoega vegamálastjóri, Örn Johnson flugmaður og Agnar Kofoed-Hansen flugmálaráðunautur. Frv. slær því föstu, að ríkið skuli láta byggja og reka flugvelli, flugskýli og dráttarbrautir. Þar er gerð bráðabirgðaáætlun um, hvar og hvernig unnið verði að þessum framkvæmdum á næstunni, flugvellir flokkaðir í 4 flokka eftir stærð o.s.frv. Grundvöllurinn er að sínu leyti hinn sami og lagður hefur verið í vegalögum og brúalögum um samgöngur eftir landleiðum. Að sjálfsögðu má deila um, hvort nógu margt sé nefnt í frv., og vafalaust þarf þar að nefna fleiri staði á komandi árum. En ekki þótti rétt að sinni að fara lengra í upptalningum og ákvörðunum um framkvæmdir.

Gert er ráð fyrir flugskýlum með dráttarbrautum á fimm stöðum: Reykjavík, Ísafirði, Akureyri, einhvers staðar á Austfjörðum og á Vestfjörðum á einhverjum öðrum stað en Ísafirði. Enn er ekki nægilega athugað á tveim síðastnefndu stöðunum, hvar réttast muni að koma upp þessum skýlum með dráttarbrautum.

Í aths. við 3. gr. frv. hafa orðið þau mistök, að aths. á ekki við greinina eins og hún er. En ríkisstj. mun sjá til þess, að þetta verði lagfært. Nýmæli eitt er í 7. gr. um skipun sérstakrar flugmálastjórnar og flugmálastjóra, þegar ráðuneyti þykir þörf á. Enn er það ekki brýnt, en þróunin erlendis og hérlendis er orðin svo hröð, að fyrr en varir getur rekið að því, að það sé nauðsyn. Fellur þá niður um leið starf flugmálaráðunautar ríkisins.

Ég geri ekki ráð fyrir, að þörf sé á frekari framsögu fyrir frv., og geri að till. minni, að því verði að lokinni umr. vísað til 2. umr. og samgmn.