12.09.1944
Neðri deild: 48. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 714 í B-deild Alþingistíðinda. (931)

96. mál, flugvellir

Gísli Sveinsson:

Herra forseti. — Það er vel, að hæstv. ríkisstj. hefur getað efnt það loforð, sem gefið var um þetta mál í sambandi við frv. það um sama efni, sem lá fyrir síðasta þingi. Það frv. var þá til meðferðar í samgmn., en n. áleit réttast, að ríkisstj. hefði framkvæmdir á þessu með höndum, enda nýtur hún aðstoðar helztu sérfræðinga hér í þessum efnum. Málið var líka afgr. þannig á þingi þar áður, að því var vísað til ríkisstj. Það er samt sem áður óvéfengjanlegt, að frv. það, sem kom fram á síðasta þingi um þetta efni, hefur mjög flýtt fyrir málinu.

Eins og þetta frv. liggur fyrir, þá er þess ekki að vænta, að allir séu ánægðir með það, og fulltrúar hinna ýmsu héraða vilja að sjálfsögðu gæta sem bezt hagsmuna síns héraðs, hver um sig. Ég tel, að réttur háttur hafi verið hafður á um þetta frv., að hafa staðina heldur færri en fleiri í byrjun, því að hv. þm. vilja víst heldur bæta inn í en fella úr, enda er hægurinn hjá að gera það við meðferð málsins hér í þinginu. Þetta frv. mun koma til samgmn., og ég mun því fá tóm til þess að gefa því betri gaum. N. mun að sjálfsögðu leita aðstoðar sérfræðinga við álitsgerð sína, og auk þess mun hún leitast við að fullnægja sem bezt þörfum hinna ýmsu héraða landsins, því að tilgangurinn verður að vera sá að reyna að fullnægja sem bezt öllum hlutum landsins, en ekki að gæta hagsmuna eins héraðs umfram önnur. En það er margt, sem þarf að athuga í þessum efnum, og frv. er í sumu nokkuð ábótavant, en það munu gefast tækifæri til þess að taka það til rækilegrar athugunar. Ég vil aðeins benda á það, að sum héruð eru þannig sett, að ekki eru tiltök að skoða þau sem eina heild eða hvirfing, og nægir þeim því ekki að hafa flugvöll á einum stað fyrir allt héraðið, heldur þyrfti fleiri staði fyrir aðalflugvelli, sem ríkið stæði að. Mér er nær að halda, að réttara væri þegar að tilnefna tvo staði en einn fyrir hvert hérað.

Ég vil taka t.d. Skaftafellssýslurnar, sem munu standa einna verst að vígi í þessum efnum, þar sem þær eru allar á lengdina og margar torfærur hluta þær í sundur. Mundu þær því mjög illa settar með einn flugvöll hvor, sérstaklega ef hann væri í öðrum endanum. Um Austur-Skaftafellssýslu má segja, að vel sé séð fyrir henni, þar sem gert er ráð fyrir, að flugvöllur verði á Melatanga við Hornafjörð, sem er sjálfsagður og ágætur staður, og að annar flugvöllur verði á Fagurhólsmýri í Öræfum, en var á söndunum er aðgengilegt. að lenda, og í Öræfunum er mjög nauðsynlegt að hafa lendingarstað. Það mátti segja um hinar minnstu flugvélar, sem hér hafa verið, að þær gátu lent nálega víðast hvar eða notazt við hina minnstu flugvelli. En það verður að teljast æskilegast, að flugvélar yfirleitt geti lent á góðum stöðum, og er Fagurhólsmýri að líkindum einn slíkur. Það er hins vegar ekki hægt að segja, að fyrir Vestur-Skaftafellssýslu hafi verið séð jafnvel, því að þar er aðeins gert ráð fyrir einum flugvelli, sem skal vera í Mýrdal, en það er algerlega ófullnægjandi, því að það þyrfti nauðsynlega annan fyrir austan Mýrdalssand, helzt austur á Síðu eða þar í grennd. Annars kemur þetta allt til athugunar í samgmn. eins og fleira, sem mætti til telja, og eru þar m.a. vestari sýslurnar sunnanlands, t.d. Rangárvallasýsla, en þar er aðeins gert ráð fyrir einum flugvelli á Rangárvöllum, en austast í sýslunni, á Skógasandi undir Eyjafjöllum er og reyndar lendingarstaður fyrir flugvélar. Að því er snertir flugvélaskýli og dráttarbrautir fyrir sjóflugvélar, þá sakna ég þar staða, sem hafa þótt frambærilegir, a.m.k. fyrst í stað, og er það þá einkum Hornafjörður. Þar er ekki einungis Melatangi góður lendingarstaður á landi, heldur og fjörðurinn sjálfur, og væri því æskilegt að koma þar upp flugvélaskýli og dráttarbraut. Svona vekjast upp ýmis atriði, sem þurfa frekari athugunar við.

Ég vil fagna því, að þetta mál er nú fram komið og að hæstv. ráðh. hefur enzt aldur til þess að koma því inn í þingið, hvort sem honum auðnast nú að sjá það afgr. En ég vona, hvernig sem ríkisstj. verður skipuð, að góð samvinna verði milli þings og stj. um að leysa þetta nauðsynjamál á heppilegan hátt.