12.09.1944
Neðri deild: 48. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 716 í B-deild Alþingistíðinda. (932)

96. mál, flugvellir

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. — Það eru aðeins örfá orð. — Ég vil taka undir þær raddir, sem fram hafa komið, og láta í ljós ánægju mína yfir því, að þetta frv. skuli vera komið fram, og ég mun ekki ræða nema eitt atriði þess á þessu stigi málsins.

Það er gert ráð fyrir því, að flugvellir verði lagðir á ákveðnum stöðum á landinu, og þeir kunna að verða fleiri eftir meðferð þingsins á málinu. Í 6. gr. frv. er einnig svo ákveðið, að allur kostnaður við gerð flugvallanna og tilheyrandi tækja og mannvirkja skuli greiddur úr ríkissjóði, eftir því sem fé verður veitt til þess í fjárl., sbr. þó 1. mgr. 9. gr., sem segir, að bætur fyrir landnám og jarðrask vegna flugvalla í 3. og 4. flokki skuli greiðast, úr sýslu- og bæjarsjóði, þar sem land það er, sem bætur greiðast fyrir. Nú er því í þessu frv. slegið föstu, að flugvellir skuli kostaðir af ríkinu og þeir gerðir eftir því, sem fé verður veitt til í fjárl. á hverjum tíma, og er það hliðstætt við það, sem segir í vegal., og um annað, sem ríkið kostar eingöngu. — Nú er það svo, að sums staðar eru flugvellir til nær því tilbúnir af náttúrunnar hendi, en annars staðar er mjög erfitt að koma þeim upp, en þörfin sú sama á báðum stöðum. Er það því heppileg stefna, sem tekin hefur verið, að láta ríkið bera kostnaðinn. En það getur orðið bið á því, að allir þessir flugvellir komist upp, og það fer eftir getu ríkissjóðs á hverjum tíma, hve mikið fé verður veitt í fjárl. til flugvalla í hvert sinn, og röðin verður að sjálfsögðu á valdi Alþ. Hins vegar gera þessar samgöngubætur verið svo aðkallandi, að einstök héruð sjái sér ekki fært að bíða þess, að fjárveiting fáist, — og hún er aldrei örugg, fyrr en búið er að samþ. hana, — að það væri vel hugsanlegt, að þau legðu sig fram til þess að knýja fram nauðsynlegar aðgerðir, áður en fé væri veitt til þeirra í fjárl. Hins vegar eiga allir landsbúar jafnan rétt í þessum málum og því erfitt að gera upp á milli þeirra, en það er einnig mjög ólíklegt, að geta ríkissjóðs verði nægilega mikil til þess að fullgera öll þessi mannvirki á sama tíma. Ég vil því á þessu stigi málsins beina því til n. þeirrar, sem kemur til með að athuga þetta mál, og til ríkisstj., sem hefur flutt það, að ef farið væri út í slíkar framkvæmdir af hálfu einstakra héraða, áður en fjárveiting frá Alþ. lægi fyrir, hvort viðkomandi héruð megi þá vænta endurgreiðslu úr ríkissjóði, sem svarar því, sem mannvirkið hefur kostað, að því tilskildu, að ekki hafi verið lagt í það nema með samþykki flugmálastjórnarinnar og að verkið hafi verið unnið undir eftirliti hennar, sambærilegt við hafnarmannvirki, sem eru gerð undir eftirliti vitamalastjóra. Mér þætti mjög fróðlegt að heyra álit hæstv. ríkisstj. á þessu. Eins og allir vita, er hraðinn á ýmsum aðgerðum hins opinbera og einkaframtaksins nú orðinn miklu meiri en hann var, t.d. þegar vegal. voru sett. Það er ekki sízt í flugmálum okkar Íslendinga, sem er að skapast ör þróun, og hún verður áreiðanlega mjög ör nú á næstu árum, ef ekkert sérstakt kemur fyrir. Ég þykist því vita, að þörf almennings fyrir flugvelli hér á landi geti ekki beðið eftir fjárveitingum úr ríkissjóði nema því aðeins, að þær verði í stærri stíl en hingað til hefur þekkzt.

Ég vona, að ég hafi sett þetta svo skýrt fram, að allir hafi skilið það, og að það verði tekið til athugunar við meðferð málsins.