05.12.1944
Neðri deild: 87. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 719 í B-deild Alþingistíðinda. (936)

96. mál, flugvellir

Félags- og dómsmrh. (Finnur Jónsson):

Herra forseti. — Ég geri ráð fyrir því, að það sé álit allra hv. þm., að þetta frv. eigi að ná afgreiðslu nú á þessu þingi. Og ég fyrir mitt leyti tel það spor í rétta átt.

Ég vildi leyfa mér að beina því til hv. samgmn., hvort ekki mundi réttara að ákveða nokkru nánar viðvíkjandi þátttöku ríkissjóðs en gert er í 6. gr. frv. Í 2. gr. frv. er talið upp, hvar skuli gerðir flugvellir, og í 3. gr., hvar flugvélaskýli og dráttarbrautir skuli vera. Nú skilst mér, að ætlazt sé til af þeim, sem samið hafa þetta frv., að flugvélaskýli og dráttarbrautir njóti sama réttar og flugvellir. En ég tel, að það komi ekki nægilega skýrt fram í frv., a.m.k. mun það ekki vera málvenja að kalla dráttarbrautir úr sjó og flugskýli flugvelli. Í 6. gr. segir, að „kostnaður við gerð, rekstur og viðhald þeirra flugvalla, sem um getur í lögum þessum, ásamt nauðsynlegum mannvirkjum, tækjum og búnaði, greiðist úr ríkissjóði eftir því, sem fé verður veitt til í fjárlögum ... “. — Á öðrum stað í frv. og sérstaklega í fyrirsögninni er gerður mismunur á flugvöllum og lendingarstöðum. Ég held, að það mundi vera réttara að kalla dráttarbrautir fyrir sjóflugvélar og flugskýli lendingarstaði heldur en flugvelli, og vildi beina því til hv. samgmn., hvort hún vildi ekki athuga að flytja brtt. við frv. um það, að á eftir orðunum: „Kostnað við gerð, rekstur og viðhald flugvalla“ í 6. gr. frv. komi: og lendingarstaða — („sem um getur í lögum þessum ... “ o.s.frv). Mér skilst, að erfiðleikar þeirra, sem ekki hafa aðstöðu til þess að fá landflugvöll hjá sér, hljóti að verða það miklir, að rétt sé að gera ekki upp á milli flugvalla annars vegar og dráttarbrauta fyrir sjóflugvélar hins vegar, a.m.k. á aðalstöðum, og því eigi að láta ríkissjóð taka sama þátt í kostnaði við dráttarbrautir fyrir sjóflugvélar, sem eru dýrari í rekstri en landflugvélar, eins og við flugvelli, svo og flugvélaskýli.

Enn fremur vil ég beina því til hv. samgmn., að hún taki til athugunar, hvort ekki mundi rétt að hafa ákvæði í l. um það, að ríkisstj. setji ákvæði með reglugerð um afnot af flugvöllum, flugvélaskýlum og dráttarbrautum, sem ríkið byggir samkv. þessum ,l. Ég hef ekki tekið eftir því, að það standi neins staðar í frv.