11.01.1945
Neðri deild: 102. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 724 í B-deild Alþingistíðinda. (950)

96. mál, flugvellir

Frsm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. — Þetta mál hefur nú um hríð legið hjá samgmn. Það, sem veldur því, að afgreiðsla þess hefur dregizt, er það, að beðið hefur verið eftir niðurstöðum frá flugmálaráðstefnu þeirri, sem við Íslendingar sendum fulltrúa til í haust og nú eru komnir heim fyrir skömmu. Það var fyrir tilmæli ríkisstj., að n. lét afgreiðslu málsins bíða, þar til þessir fulltrúar á flugmálaráðstefnunni voru komnir heim. Eftir að þessir fulltrúar eru komnir heim, hefur í samráði við atvinnumálarh., sem einnig fer með flugmál, og enn fremur eftir að n. hefur kynnt sér niðurstöður þessarar ráðstefnu, orðið að ráði milli n. og hæstv. ráðherra, að málið gangi áfram og komi ekki til frekari breytinga af þeim sökum. Ríkisstj. hefur þess vegna ekki í hyggju á þessu stigi málsins að bera fram frekari brtt.

Ég vil fara örfáum orðum fyrir hönd n. um þær brtt., sem hún flutti á þskj. 801. Fyrri brtt. er sú, að bætt verði inn í 6. gr. frv.: og lendingarstaða. Þetta er eingöngu gert til þess að gera orðalagið greinilegra og fyllra. Síðari brtt. er við 7. gr., um það, að ríkissjóður setji með reglugerð ákvæði um afnot og rekstur þeirra flugvalla og lendingarstaða, sem um getur í lögum þessum. N. taldi rétt, að þetta ákvæði kæmi þarna, ef horfið yrði að því ráði að taka gjöld fyrir viðkomu flugvéla á flugvöllum. — Það eru þessar tvær brtt., sem fluttar eru samkv. ósk hæstv. dómsmrh.

Svo var flutt hér við 2. umr. brtt. af hv. 2. þm. Eyf. um, að við 3. gr. kæmi nýr stafliður um, að flugskýli fyrir sjóflugvélar yrði sett upp í Ólafsfirði. N. taldi ekki ástæðu til að mæla með samþykkt þessarar till., þar sem sérfróðir menn, sem hún hefur haft samráð við um þetta mál, leggja gegn því og telja það ekki nauðsynlegt fyrir Ólafsfjörð, að reist verði þar flugskýli fyrir sjóflugvélar, þar sem slíkt flugskýli er í svo lítilli fjarlægð, á Akureyri, það sé fullnægjandi og tryggi Ólafsfirðingum flugsamgöngur.

Þá drap hv. 2. þm. N.-M. á það við 2. umr. þessa máls, hvort ekki væri rétt að taka upp í frv. ákvæði um, að ef eitthvert hérað óskaði eftir að flýta fyrir gerð flugvallar hjá sér, gæti það hérað greitt hluta kostnaðar þeirra framkvæmda og mundi við það sitja fyrir framkvæmdum þeim, sem frv. kveður á um. Skyldi það jafnframt sitja fyrir, hvað snerti fjárveitingu úr ríkissjóði. — N. hefur athugað þessa hlið málsins og varð sammála um það, að hún treystir sér ekki til þess að leggja til, að slík brtt. yrði samþ. Bæði er það, að með þessu væri brotið það meginprinsip, sem frv. er byggt á, að ríkissjóður greiði einn byggingarkostnað þessara mannvirkja, og eins er hitt, að ef út á þessa braut verður farið, gæti svo farið, að þeir aðilar, sem fjársterkastir væru, ættu greiðasta leið að því að fá þessi mannvirki. Það þyrfti þó ekki að vera á þeim stöðum, sem nauðsyn er brýnust fyrir þessar samgöngubætur. Af báðum þessum ástæðum taldi n. sig ekki geta tekið til greina þessa ábendingu hv. þm. og vill leggja til, að slík brtt. yrði ekki samþ.

Ég hygg þá, að ég hafi drepið á þau atriði, sem komu til athugunar í n. frá 2. umr. málsins, og vil svo að lokum óska þess, að þar sem þetta mál hefur dregizt mjög á langinn hér á hæstv. Alþ., en hins vegar brýn nauðsyn, að það gangi fram, verði því hraðað svo sem verða má hér eftir. Það hefur verið töluverð samvinna um þetta mál milli d., og getur hv. Ed. því verið greiðari í störfum en hv. Nd. Það er vitað, að þessi mál eru komin á það stig, að nauðsyn ber til þess, að löggjöf sem þessi verði sett og markvissar framkvæmdir hafnar í þessum málum, en það mun mál manna, að til þess að svo verði, sé þessi löggjöf eitt frumskilyrðið.

Leyfi ég mér svo að endurtaka, að ósk n. er sú, að þessu máli verði hraðað svo sem verða má.