26.04.1946
Efri deild: 114. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 852 í B-deild Alþingistíðinda. (1001)

7. mál, skipakaup ríkisins

Frsm. (Ásmundur Sigurðsson) :

Herra forseti. Það var aðeins út af ræðu hv. 1. þm. Eyf., að ég stend upp. En ég ætla þó ekki að fara langt út í umr. um það, hvort Alþ. hefði átt að koma saman einum mánuði fyrr s. 1. haust en það gerði. Það er annað mál og nokkuð óskylt þessu.

En kjarni ræðu hv. þm. hné að því, að núv. ríkisstj. væri vægast sagt nokkuð óprúttin í því að veita sjálfri sér lánsheimildir með brbl, og þá sérstaklega í sambandi við það frv., sem ræðir um 60 millj. kr. til togarakaupa. Hins vegar hygg ég, að fleiri séu sammála því, að einmitt þetta frv., þar sem Alþ. heimilar ríkisstj. með brbl. að taka lán til þess að stækka atvinnuveg landsmanna og koma fénu í þau fyrirtæki, sem gefa beztan arð, eigi fullan rétt á sér. Og þetta viðurkenndi hv. 1. þm. Eyf. áðan í ræðu sinni. En hvað snertir þetta frv. og það, sem bar á góma í n., þegar hún ræddi þetta, að fram hafi komið, að ekki væri þörf á allri lánsheimildinni, þá er það að vísu rétt, að það kom fram í n., að ekki þyrfti alla lánsupphæðina, ef ekki yrði af smíði á öðrum skipum en þeim, sem samið hafði verið um. En ráðh. óskaði frekar eftir því, að n. gerði ekki till. um að lækka þessa lánsheimild, að mér skildist til þess, að opin leið væri til að semja um smíði á fleiri skipum. Og ég tel miklar líkur til þess, að óskað verði eftir þeim. Þá er hér um að ræða, hvort eigi að loka fyrir, að hægt sé að byggja fleiri skip en þau, sem samið hefur verið um, og þó að það sé sýnt, að það dragi úr því að veita fleiri mönnum, sem annars vilja kaupa vélskip, eða hvort eigi að halda því opnu, að ríkisstj. geti greitt fyrir slíkum aðilum, þegar þeir kunna að koma fram.

Það, sem líka kom fram síðar í ræðu hv. þm., var það, að í raun og veru vildi hann með þessari brtt. gefa ríkisstj. og hennar flokkum bendingu um það, að hér væri verið að fara inn á braut, sem ríkisstj. hefði ekki heimild til að gera.

Það mun vera ákaflega fátítt, að yfirleitt sé gerð breyt. á brbl., og það mun vera vegna þess að menn álita, að slík breyt. á brbl. skoðist sem nokkurs konar vantraust á þá ríkisstj., sem gefur l. út. Ég get vel skilið, að hv. 1. þm. Eyf., sem er stjórnarandstæðingur, vilji gjarna fá slíkt vantraust samþ. Mér þykir það ekkert undarlegt. Hann hefur hreinar hendur með að bera það fram. (GJ: Það er í Sþ.). Já, það hefur verið lagt þar fram, og því er ekki þörf að koma með það nú. En ég vildi mælast til þess, að þeir hv. þm., sem styðja hæstv. ríkisstj., fari ekki að greiða atkv. með þessari brtt., þar sem lá fyrir nokkurn veginn bein yfirlýsing frá flm. brtt. um, að brtt. sé nokkurs konar vantraust á hæstv. ríkisstj.