26.04.1946
Efri deild: 114. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 853 í B-deild Alþingistíðinda. (1002)

7. mál, skipakaup ríkisins

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Það er auðheyrt á ræðu hv. frsm. n., að hann hefur ekki lengi verið á Alþ. og þekkir ekki vel, hvernig meðferð mála hefur oft verið hér á þingi. Hv. þm. sagði, að það væri fátítt, að brbl. væri breytt, það væri skoðað sem vantraust á ríkisstj., ef það væri gert. Ég get nú frætt hann um það sem eldri þm., að það er ákaflega algengt, að slíkum l. sé breytt. Þó að núv. ríkisstj. hafi verið lítið gefin fyrir það að láta breyta brbl., man ég ekki betur en svo hafi verið gert í hennar tíð. Og það hefur iðulega verið gert og ekki talizt neitt vantraust á ríkisstj., þó að svo hafi verið. Hitt er náttúrlega vantraust á ríkisstj., ef brbl. eru felld.

Þá taldi hv. þm., að það væri óskylt mál, sem ég hefði minnzt hér á í upphafi, að Alþ. hefði átt að koma saman fyrr en það gerði og þá hefði það getað afgr. þessi l. og veitt ríkisstj. þessa heimild, einnig heimilað lántöku vegna togarakaupa, og að það bæri ekki að ræða það í sambandi við þetta mál. Mér finnst töluvert hæpið að segja, að þetta komi ekki þessu máli við. Sú formlega hlið málsins kemur alveg eins málinu við og efnishlið þess.

Hv. frsm. sagði, að þetta fé hefði verið vel notað, en það geta nú verið skiptar skoðanir um það, hvort svo hafi verið að öllu leyti. Því að ég geri ráð fyrir því, þó að þessari hæstv. ríkisstj. eða einhverri annarri ríkisstj. væri fengið einræði í hendur og Alþ. afnumið, að þá færi ekki hjá því, að hún notaði sumt af fé ríkisins vel. Þau rök, sem hv. þm. hefur viðhaft um þetta, voru eiginlega rök fyrir því, að þeir, sem væru andvígir ríkisstj. á hverjum tíma, gætu verið ánægðir á meðan, þó að hún tæki sér þetta vald, ef hún bara notaði það vel. Þetta eru þau rök, sem alltaf hafa verið höfð um það, að einræði sé bezt og þingið hafi ekkert að gera. Og það er ekkert á móti því að segja það í lok þessa lengsta þ., sem verið hefur á Íslandi, að það hefði verið nokkurn veginn sama, þó að þetta þing hefði annaðhvort ekki komið saman eða staðið einn dag, eins og siður var í Þýzkalandi fyrir stríð, og gerð ein samþykkt til þess að staðfesta allt, sem stjórnin hafði gert eða mundi gera. Og ódýrara hefði það verið fyrir ríkissjóð.

En út af því, sem hv. þm. sagði um það, sem fram kom í n. um málið og í sambandi við það, þá fannst mér hann nú ekki fara alls kostar rétt með. Það er rétt, sem hann sagði, að ráðh. hefði óskað eftir því, að málið yrði samþ. óbreytt. Sú eina ástæða, sem hann nefndi, var, að þetta mál þyrfti ekki að fara til Nd. aftur. Hitt, að það kynni að vera þörf á hærri lánsheimild vegna frekari framkvæmda, var ekki orðað og einmitt tekið fram, að þótt frekari framkvæmdir yrðu í þessu efni, væri ekki þörf á hærri lánsheimild, vegna þess að skipin væru greidd jafnóðum og þau væru keypt, og þá kæmi nýtt fé til að láta byggja ný skip. Ég varð alls ekki var við annað, sem væri því til fyrirstöðu að samþ. brtt. eins og þá, sem ég ber fram, heldur en þetta eina formsatriði, að málið færi ekki til Nd. aftur.