26.04.1946
Efri deild: 114. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 855 í B-deild Alþingistíðinda. (1004)

7. mál, skipakaup ríkisins

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Það kom alveg skýrt fram í n., að lánsheimildin væri ákveðin 30 millj. kr. vegna þess, að það hefði verið ráðgert að semja um smíði á 35 skipum. Svo var ekki samið um kaup eða smíði á nema 27 skipum. Og þar af leiðandi kom það alveg ljóst fram, að ekki var þörf á 30 millj. kr. lánsheimild. Og það var engin einasta ástæða nefnd fyrir því, að ekki mætti lækka þetta, önnur en sú, að þá færi málið til Nd. Og eins og ég sagði áðan og hv. þm. gekk fram hjá, þá hindrar það ekki á nokkurn hátt framkvæmdir, þó að frv. sé breytt. Það voru byrjunarframkvæmdirnar, sem þurfti lánsheimild til, en þegar farið er að selja skip, kemur nýtt fé til umráða. Og það er þess vegna aðeins það að hagga ekki neinu, sem ríkisstj. hefur gert, sem vakir fyrir hv. frsm. og samstarfsmönnum hans og stuðningsmönnum ríkisstj., en ekki að það sé nokkur minnsta nauðsyn á því eða málinu gagnlegt á nokkurn hátt, að þessu frv. sé ekki breytt, né heldur að brtt. mín geri nokkra hindrun á þeim framkvæmdum, sem fyrirhugaðar eru.

Ég ætla ekki að fara út í að deila um störf þessa þ., en það verður áreiðanlega mismunandi dómur, sem það fær. Vitað er það, að það hefur afgr. mörg mál, en öll veigamestu málin eru nú þó afgr. þannig, að ríkisstj. var fyrirfram búin að ákveða, að þau skyldu afgr., og í höfuðdráttum, hvernig þau skyldu afgr. Það er ekki þingið í raun og veru, sem hefur afgr. þau nema að forminu.